25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

8. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki teygja lopann um þetta meir en orðið er. Ég vil geta þess, að það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Eyf., að ég hafi sagt, að brtt. kæmu óreiðu á kerfið, því að ég er einmitt með minni till. að reyna að koma reglu á það.

Annars vil ég skýra frá þessari brtt. minni, því að við 2. umr. voru ýmsir hv. þm. fjarverandi, sem nú eru viðstaddir.

Þessi vegur liggur um Haukadal að hrossi, en þar tekur við fjallvegur yfir í Hrútafjörðinn. Þetta er þannig tengiliður milli Suðurdalanna og Norðurlandsins, og á þess vegna mikinn rétt á sér.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að ég mundi hafa ruglazt í landafræðinni, en ég vil spyrja: Eru ekki Búðir, Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík í Suður-Múlasýslu?

Vegurinn, sem um ræðir, er tengiliður milli þessara staða, og vegamálastjóri upplýsir, að hann sé 46 km að lengd og sé nýr þjóðvegakafli. Einnig stend ég í þeirri meiningu, að Eskifjörður sé í Suður-Múlasýslu, og það segir, að þessi vegur, sem um ræðir, Norðfjarðarvegur, liggi milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, og sé 22 km að lengd, einnig nýr þjóðvegakafli. — 22 km og 46 km eru 68 km, svo að ég álit, að ég hafi farið með rétt mál. Hv. þm. Barð. sagði, að réttlæti væri ekki mælt í km, og sagði það út af því, að ég hafði valið styttri veginn tekinn í þjóðvegatölu. Hann sagði enn fremur, að ekki væri meiri þörf að hjálpa Dalamönnum en Barðstrendingum. Nú er svo háttað, að þjóðvegurinn til Barðastrandar- og Strandasýslu liggur um Dalasýslu, og vegagerðir á þeirri leið allar skrifaðar sem vegafé til Dalamanna, meir að segja leiðin frá Saurbæ inn fyrir Gilsfjörð, en mér væri svo sem sama, þó að sá vegaspotti, sem tengir sýslur þessar við Dalasýslu, 15 km að lengd, verði niður felldur, því að ekkert hafa Dalamenn að sækja til Barðstrendinga eða Strandamanna, en þessar sýslur njóta nær eingöngu góðs af þessum vegi.