25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

8. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil leiðrétta skekkjur, sem komið hafa fram síðan ég talaði síðast, og vil þá fyrst svara hv. þm. Barð. Hann sagði, að vegamálastj. hefði álitið heppilegra að velja lengri leiðina. Ég tel mig hafa til að bera fullkominn kunnugleika á staðháttum þarna og tel styttri veginn heppilegri.

Ég get ekki flett upp í l., en ég þykist muna það rétt, að búið sé að ákveða, að vegurinn liggi yfir Vaðlavíkurheiði til Neskaupstaðar, en hún reyndist ekki þægileg fyrir Neskaupstað, og var þá hörfið að því að leggja veginn um Oddsskarð. Ég verð að segja, að það kemur fram staðreynd í þessu máli, þar sem álitsskjal vegamálastjóra er, sem prentað er með nál. samgmn. Nd. 12. at-. riðið í þessu skjali er um þennan veg. Það er örstutt, aðeins ein lína, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Norðfjarðarvegur er nýr þjóðvegarkafli, 22 km að lengd“. Í útskýringum frv. er frá því skýrt, að þessi vegur sé frá Eskifjarðarkaupstað um Oddsskarð til Neskaupstaðar. Það verður að virða mér til vorkunnar, ef ég fer hér ekki rétt með, en þannig mæla gögn þau fyrir, sem hann sjálfur, að því leyti sem hann tilheyrir samgmn., hefur lagt fram fyrir okkur, og einnig álitsskjal vegamálastjóra.