19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég þarf ekki að taka það fram, þar sem ég hef oft gert það áður við annað tækifæri, að ég hef enga trú á því, að hægt sé að lögbinda kaupgjald og verðlag. Reynslan hefur sýnt, að þau lög hafa verið brotin nema að baki þeim standi samkomulag við þá aðila, sem hlut eiga að máli.

Annars þarf ég ekki að bera fram nein rök til stuðnings máli mínu, því að það hefur svo oft verið gert.

Ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. ríkisstj. hati átt að tryggja sér velvild þeirra manna, sem hlut eiga að máli, áður en hún lagði út í þetta.

Það getur að vísu verið, að hún hafi gert svo, en mér er ekki kunnugt um það. Annars verð ég að segja það, að þetta frv. nær skammt, en það er svo, að almenningur bæði hér á Alþ. og utan þess ætti að taka með velvild öllum tilraunum til þess að ráða bót á dýrtíðinni, og svo er um þessa. En mér hefði þótt eðlilegra, að þegar ríkisstjórnin byrjaði ráðstafanir sínar gegn dýrtíðinni, þá hefðu þær verið róttækari og almennari en þetta frv. er.

Hér er aðeins ætlazt til, að stöðvuð sé verðhækkun á innfluttum vörum, en það er vitað, að þær ráða minnu um dýrtíðina en innlendu vörurnar.

Hér eru innlendu vörurnar undanskildar, þ.e.a.s. þær, sem verðlag er ákveðið á af sérstökum verðlagsnefndum. Nú er svo frá skýrt, að samkomulag — hafi náðst um, að þær skuli ekki hækka þetta tímabil. Mér þykir það undarlegt, að þessar vörur skuli vera undanskildar, og miðar brtt. mín að því, að þær skuli teknar upp í lögin. Þegar sett eru svo harðvítug ákvæði, má ekki minna vera en þær hlíti sömu skilyrðum og aðrar vörur. Ég býst við því, að þetta frv. nái fram að ganga, og þótt ég hafi ekki trú á því, að það ráði miklu um stöðvun dýrtíðarinnar, þá vil ég ekki setja fyrir það fótinn, en fylgi mitt við frv. er þó því skilyrði bundið, að brtt. nái fram að ganga.