24.02.1943
Efri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

139. mál, lendingarbætur á Vattarnesi

Flm. (Ingvar Pálmason):

Það er rétt að ég byrji á því að gera nokkra grein fyrir því, að þetta mál er svo seint á ferðinni. Ástæðan til þess er sú, að ég hafði ekki hugsað mér að bera þetta mál fram á þessu þingi, vegna þess að og bjóst ekki við, að það mundi ná fram að ganga. En eftir það, að frv. um lendingarbætur í Borgarfirði eystra var komið vel á veg í þinginu, fékk ég ákveðin tilmæli að austan um að flytja þetta frv. Þá stóð nú svo á, að það var ekki útséð um, hvort þingi yrði frestað eftir 15. febrúar, og enn beið ég nokkra daga. En þegar ákvörðun var tekin um það, að þinginu yrði haldið áfram, og séð varð fyrir, að þau frv., er stj. legði fyrir þingið, mundu taka nokkurn tíma, ákvað ég að leggja þetta frv. fyrir þingið, hvort sem það næði samþykki eða ekki. Hins vegar vil ég vænta þess, þar sem málið er fremur einfalt, að það nái fram að ganga.

Kem ég þá að frv. sjálfu. Vattarnes hefur verið verstöð svo lengi sem nokkur maður hefur sögur af, og þessi verstöð hefur ætíð verið fyrir smábáta og aðeins fyrir róðrarbáta, þar til í kringum 1920, að farið var að setja vélar í hina smærri fiskibáta. Á þessum stað stendur þannig á, eins og bent er á í grg. frv., að þar er slæm lending í vissum áttum, t.d. í norðan- og norðaustanátt og allt þar til vindáttin er komin í austur. Það hagar þannig til, að í norðanátt stendur vindurinn út Reyðarfjörð, og þá stendur að mestu upp á höfnina. Í norðaustanátt stendur vindurinn skáhallt yfir fjörðinn og stendur þá beint upp á lendinguna, og svo er þar til vindur er kominn í suðaustur. Hins vegar má heita góð lending í suðaustan-, sunnan- og austanátt. Það hefur frá því fyrsta verið bagalegt fyrir þennan stað, hvað lending hefur verið slæm, en þó hefur það orðið tilfinnanlegra síðan farið var að nota vélar í opna báta, því að á meðan aðeins voru notaðir róðrabátar, þá heppnaðist lendingin oftast sæmilega, ef sæmilegur liðsafli var. Þó að nokkur hafátt væri í lendingu, var oft sæmilegur mannafli til þess að taka á móti bátunum. En síðan farið var að nota vélar í bátana, er þetta miklu hættumeira vegna þess að þó að hægt sé að taka bátana í land, þá er alltaf hætta á vélarskemmdum, sérstaklega er hætt við skemmdum á skrúfunni í slíkum tilfellum. Strax þegar vélbátanotkunin fór í vöxt, komu því upp raddir um það, að á þessu þyrfti að ráða bót. Árið 1930 og næstu ár þar á eftir var þetta athugað og rannsakað, og liggur fyrir rannsókn um þetta efni frá þeim árum. Árið 1938 fór einnig fram rannsókn um þetta efni. Ég hef með höndum fyrri kostnaðaráætlunina ásamt teikningu. En síðari rannsóknin hefur leitt í ljós, að frá mannvirkinu verður að ganga nokkuð á annan hátt en upphaflega var til ætlazt, og mundi það verða nokkru dýrara. Það er sameiginlegt álit þeirra, sem þetta hafa skoðað, að bezt verði þetta bætt með því að byggja garð í Klukkusker. Við það myndast skjól vestan garðsins í norðan- og norðaustanátt og fullkomið hlé fyrir báta, meðan þeir eru í höfn. Út frá þessu var gengið við fyrstu rannsókn. Síðari rannsóknin hnígur í þá átt, að það þyrfti að haga byggingu mannvirkisins þannig, að steypt yrði akbraut til þess að koma aflanum upp garðinn, og að þetta mannvirki kæmi ekki að fullum notum, nema að það væri fullgert. Eins og vikið er að í nál., þá eru þær áætlanir, sem fyrir liggja, allar frá því fyrir verðhækkun, og er gert ráð fyrir í þeim áætlunum, að þessi mannvirki muni kosta ekki minna en 20 þús. kr. Að vísu er þetta ekki stór upphæð, en bæði er það, að ýmsir menn, sem þarna eru kunnugir, telja, að þessi áætlun, sem miðuð er við fyrirstríðsverð, muni vera í knappara lagi, og ekki síður hitt, að þess má vænta, hvenær sem þetta mannvirki verður framkvæmt, að það muni verða nokkuð dýrara heldur en ráð var fyrir gert í upphafi. Þess vegna er það, að ég hef farið fram á hærri fjárhæð í þessu skyni heldur en þessi áætlun tiltekur. Þarna stendur þannig á, að Vattarnes það tilheyrir Fáskrúðsfjarðarhreppi, síðan Búðarkauptún varð sérstakur hreppur. En fyrir nokkru var hreppnum skipt í tvennt, þannig að hann nær nú alla leið frá Gvendarnesi milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og alla leið að Berunesi í Reyðarfirði, og er klipptur í sundur af Búðakauptúni. Þetta hefur gert það að verkum, að erfitt hefur reynzt að fá samtök innan hreppsins um það, að hefjast handa um þessar umbætur. Það hefur verið gerð tilraun til þess, og hafa fengizt loforð um framlög til þessara framkvæmda gegn framlög annars staðar frá. En að ekkert varð úr framkvæmdum stafar af því, að enginn aðili, sem hægt var að fá til þess að leggja fram fé sem til þurfti, taldi þetta hagsmuni alls hreppsins. Svo bættist hitt við, að verstöðin Vattarnes er ekki nema að nokkru leyti notuð úr Fáskrúðsfjarðarhreppi, heldur frá Eskifirði og Reyðarfirði. Þetta mun hafa valdið nokkru um það, að ekki tókst að fá neinn aðila til þess að leggja fram fé í viðbót við það, sem hægt var að fá úr ríkissj. Þess vegna er það, að ég tel, að þetta mál verði að leysa með því að setja um þetta l., og Alþ. hefur gengið inn á, að hagkvæmt væri að setja slík l. víða um landið til þess að hraða framkvæmdum og hafnarbótum. Ég fullyrði að slíkt form, sem gefið er með þeim l. sem samþ. hafa verið um lendingarbætur víðs vegar um landið, á hvergi betur við en í Vattarnesi. Þetta byggist á tvennu, bæði af því, að verstöðin er fullt eins mikið sótt af mönnum, sem ekki eiga heimili í hreppnum, og í annan máta af því, að jörðin Vattarnes er ríkiseign, var, að ég hygg, að hálfu eign Vattarneskirkju og að hálfu klausturseign. Með þessum framkvæmdum mundi því verða bætt eign ríkisins. Það hefur komið í ljós á undanförnum árum, að ríkið vill ekki sleppa sínum eignarrétti, og það er vegna þess, að. margir hafa trú á því, að þarna sé um framtíðarmöguleika að ræða.

Það hafa verið ýmsar bollaleggingar um það, hvernig ætti að fara með Vattarnes, til þess að það kæmi að sem beztum notum fyrir þjóðarheildina og hagsmuni þeirra, sem þar geta haft hagsmuni.

Ég held, að með þessari stuttu lýsingu af aðstöðinni þarna hafi þeir hv. dm., sem á mál mitt hafa getað hlustað, getað sannfærzt um það, að hér er á ferðinni nytjamál, sem er fyllilega þess vert, að það fengi greiða afgr. engu síður heldur en hliðstæð mál, sem fyrir þ. hafa legið, og eru svipaðs efnis. Ég skal geta þess, að með þessu frv., eins og öllum l., sem sett hafa verið um hafnarbætur á fyrra ári, er svo ráð fyrir gert, að verstöðin geti staðið undir mannvirkjunum. Það er einmitt þetta form, sem ég held, að eigi vel við á Vattarnesi, og ég veit það fyrir víst, að allir þeir, sem uppsáturs njóta á Vattarnesi, verða fúsir til þess að leggja á sig þá byrði, sem frv. mælir fyrir um, þ.e. að greiða í lendingarsjóð allt að 6% af brúttóafla. Ég vil svo að lokum óska þess, að málinu verði að lokinni umr. vísað til sjútvn., og vænti þess, að það geti fengið þar fljóta og heppilega afgreiðslu.