19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. — í allshn. áskildi ég mér rétt til þess að greiða atkv. með brtt., sem fram kynnu að koma við þetta mál, þótt ég styddi frv. Nú hefur ein slík brtt. komið fram og lýsi ég því yfir, að ég mun greiða henni atkv. samkvæmt áskildum rétti.

Ég vil aðeins minnast á nokkur atriði í samlandi við þetta.

Þessi lög munu aðeins verða til bráðabirgða og þau munu ekki geta stöðvað dýrtíðina, þótt þetta sé aðeins byrjunarspor í þá átt. Frv. þetta eitt getur aldrei stöðvað verðbólguna og það getur aldrei lækkað vísitöluna, þar sem það nær aðeins yfir erlendar vörur, en þær hafa minnst áhrif á vísitöluna. Dýrtíðin getur líka haldið áfram að vaxa, þótt vísitalan hækki ekki. Frv. þetta er annars spor í rétta átt, þótt það eitt dugi lítt til þess að ná settu marki. Mér er hins vegar ekki alveg ljóst, að ekki kunni að koma til þess, að grípa verði til einhverra annarra ráðstafana, ef á að halda verðinu föstu eins og það var í gær. Þótt varan komi til landsins með sama verði og áður, þá hækkar tilkostnaðurinn hér við hana vegna þess að laun hækka eftir því sem vísitalan hækkar. Það verður því ekki hægt að selja hana við sama verði og áður, nema seljandi biði tjón við það. Fjmrh. sagði í dag, að ríkisstjórnin mundi þó ekki greiða neinar bætur úr ríkissjóði nema í samráði við Alþingi. Þetta er að vísu ágætt, svo langt sem það nær. Ég veit þó ekki, nema til þess kunni að koma, að ríkisstj. verði að taka ákvörðun um þetta á skömmum tíma. Ég er ekki viss um, að menn verði fúsar til að selja vörur, sem þeir eru nýbúnir að fá við sama verði og hinar, nema þeim verði á einhvern hátt bætt það upp. Ég segi þetta hér vegna þess, að ég er ekki trúaður á, að ekki kunni að koma til slíkrar greiðslu. Ég sagði áðan, að ég mundi greiða atkv. með brtt. hv. l. þm. Reykv. Ég skil ekki þá afstöðu hv. 2. þm. Rang. að vilja ekki verðfesta innlendar afurðir um leið og ríkisstjórnin lýsir því yfir, að hún hafi í höndunum skriflegar yfirlýsingar um það, að verð á þessum sömu afurðum skuli ekki hækka á umræddu tímabili. Formaður kjötverðlagsn. vill sem sagt gefa skriflega yfirlýsingu, en hann vil1 ekki láta lögfesta afurðaverðið.

Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst yfir því, að Alþýðusambandið hafi gefið yfirlýsingu um, að ekki væri von á neinum kaupdeilum á þessu tímabili. Hv. þm. Ísaf., sem er hátt settur maður hjá Alþýðusambandinu, segir hins vegar, að engin slík yfirlýsing liggi fyrir. Það var líka sagt fyrir ári síðan, að ekki væri von á neinum kaupdeilum, og allir víta, hvernig þá fór. Ég hef líka frétt síðan, að ekki sé útilokað, að fram komi einhverjar kaupkröfur frá verkalýðsfélögunum.

Hæstv. fjmrh. sagði, að kjötverðlagsnefnd hefði gefið skriflegt loforð um það, að kjötið skyldi ekki hækka á þessu tímabili, nema með leyfi landbúnaðarráðh. Það þarf þannig ekki leyfi ríkisstj., heldur aðeins leyfi landbúnaðarráðh. til slíkrar hækkunar. Nú vildi ég fá að heyra yfirlýsingu frá hæstv. landbúnaðarráðh. um það, hvort hann muni leyfa nokkra verðhækkun á kjöti á umræddu tímabili. Hins vegar skildist mér það á hæstv. fjmrh., að loforðin frá grænmetis- og mjólkurverðlagsn. væru engum slíkum skilyrðum bundin.

Mér virðist sem þessi löggjöf mundi hafa nokkuð annan svip gagnvart alþjóð, af henni væri beint inn á þá braut að láta lögin ná til allra þeirra aðila þennan stutta tíma, í stað þess að taka hér aðeins fyrir þann eina flokk manna sem verzlar með erlendar vörur.

Mér finnst, að almenningur mundi skilja það, að sett væri slík löggjöf á þessum tímum, ekki sízt, ef allir aðilar hafa samþ., að ekki verði gerðar neinar breyt. á verðlagi eða að fram komi nokkrar kaupkröfur á þessu tímabili.