17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Eiríkur Einarsson:

Það er líklega bezt, til þess að ákveða þríhyrninginn nú þegar, að ég taki til máls nú strax um þetta mál. Þeir tveir menn úr menntmn., sem hafa talað, hafa gert grein fyrir afstöðu sinni, og mun sá þriðji gera það líka, því að þótt ég hafi skrifað undir nál. með öðrum nm., hefur það orðið svo, að við höfum borið fram brtt. hver um sig.

Það er rétt, sem hv. 7. landsk. þm. tók fram, að það hefur verið nokkuð sein afgreiðsla á þessu máli hjá menntmn. d. N. hefur ekki orðið stórvirk og seinvirk fremur, og kann þm. að þykja það einkennilegt, þar sem sú n. á því láni að fagna, að meiri hl. hennar er skipaður sérstökum áhugamönnum um menntamál, og tveir nm. þekktir að því að hafa unnið mikið að þeim málum, svo að það er erfitt að ætla sér að taka til máls á eftir þeim. Ég mun svo ekki hafa meiri umbúðir um þetta, en víkja að því máli, sem hér liggur fyrir. Ég veit það vel, að það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum, annars vegar að mæla með því, að frv. verði samþ., og hins vegar að bera fram brtt. við það um það, að söngfélög og aðrir, er hafa með höndum tónlistarstarfsemi án þess að þeir taki sérstaka greiðslu fyrir, skuli njóta undanþágu um meðferð skáldverka og tónverka. Það hafa komið fram kvartanir út af þessu, og hef ég að veikum mætti viljað taka þær til greina. Þessar kvartanir hafa komið frá mönnum, sem flutt hafa íslenzk skáldverk og tónverk og þar með stuðlað að því, að almenningur fengi notið þessa, og án þess að ég vilji fara langt inn á það mál, langar mig til að tryggja það, að íslenzkir söngkórar geti starfað framvegis hindrunarlaust, eins og þeir hafa gert áður. Ég játa, að ég þekki lítið inn á þetta, en mér þykir unun að því að hlusta á söng. En ef þetta yrði að l., mundu söngflokkar verða að sækja um leyfi höfunda til að mega flytja þetta eða hitt lagið á hljómleik eða samkomum, og gæti það orðið þeim tilfinnanlegur fjötur um fót. Ef höfundar laganna gerðu sig dýra, gæti það orðið til þess, að söngflokkar yrðu af mörgum góðum lögum og söngskráin yrði því lélegri en ella mundi. Ég geri raunar ekki ráð fyrir, að þessar hömlur yrðu mjög harðar, býst við, að fletir höfundar tónsmiða mundu líta frjálslega á þetta og slík leyfi því oftast verða auðsótt. En eigi að síður er betra að eiga ekki eftirkaupin um þetta fremur en annað.

Ég tel þess vegna, að brtt. sú, sem ég hef flutt á þskj. 537, eigi fullan rétt á sér. Hún er svipuð brtt. frá hv. 7. landsk. þm., en þó er þar munur á. Ég vil hafa beina lagaundanþágu til handa söngfélögunum og öðrum, sem hafa með höndum tónlistarstarfsemi, sams konar undanþágu og veitt er fyrr í sömu gr. Ef veita á söngfélögum undanþágur, er rétt að gera það á samræmilegan hátt. Það er ekki rétt að veita annars vegar undanþágu eins og þá, sem um er að ræða í 2. mgr. 2. gr., en gera svo ráð fyrir, eins og hv. 7. landsk. þm. gerir, að það sé tryggt með reglugerð, er ríkisstj. setur, að ákvæði l. hindri á engan hátt starfsemi söngfélaga eða annarra slíkra félaga.

Ég get svo látið útrætt um þetta. Þó að ég vilji, að frjáls íslenzkur söngur megi njóta sín í framtíðinni sem hömlulausast, hef ég viljað mæla með því, að fullur skilningur sé sýndir á rétti listamanna. Ég fellst á, að þeir eigi að eiga nokkurn rétt á sínum eignargæðum eins og aðrir. Sá heildarskilningur minn hefur leitt til þess, að ég hef treyst mér til að ljá þessu frv. jákvæði mitt, þó að ég telji, að þar mætti ýmislegt betur fara.