19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Ég mun aðeins segja örfá orð, þar sem þessum umr. þarf að hraða, til þess að málið fái fulla afgreiðslu í dag.

Ég vil láta það koma fram, að ég tel það vel ráðið að setja ákveðið tímatakmark í lögin um það, hve lengi verðlaginu skuli haldið í sömu skorðum. Það eru aðallega tvær stoðir, sem hníga undir þetta frv.

Í fyrsta lagi tel ég það hyggilega ráðstöfun gagnvart þeim, sem eiga nú að byrja að færa fórnir og venja sig við að hugsa um almenningsheill, og í öðru lagi markar það dýrtíðinni þrengri bás á meðan hafizt er handa um að koma fram löggjöf, sem miðar til lausnar á núverandi erfiðleikum.

Þetta frv. er því aðeins undanfari þess, að sett verði löggjöf, þar sem ráðizt verði á dýrtíðina og verðbólguna með öllum ráðum. Þess vegna álít ég hyggilegt að fara svona að, þar sem það þolir enga bið, að gerðar verði róttækar ráðstafanir í þessum efnum. Hér þarf mjög skjótra ráða við, ef baráttan á ekki að verða gagnslaus, og Alþ. og ríkisstjórn verða að gera sér grein fyrir því, að þær ráðstafanir, sem gera þarf, verða að leysa atvinnuvegina úr þeim læðingi, sem þeir eru nú fjötraðir í. Ég tel það ekkert aðalatriði, hvernig frá þessu frv. er gengið, bæði af því, að hlutverk þess er lítið og af því, að það á aðeins að verða til bráðabirgða. Þetta frv. er byggt upp á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er því ætlað að lögfesta verðlag á sumum verzlunarvörum og í öðru lagi er það byggt á þeim frjálsu till., sem um hefur verið rætt hér. Þó að farið yrði að binda hendur bænda um mat á framleiðslu þeirra, verður vart hjá því komizt að leyfa þeim að hækka verð fyrir geymslukostnaði varanna, enda væri það bein nauðungarverðlækkun til þeirra, ef því væri neitað. Með þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstj. hefur nú fengið hjá formanni kjötverðlagsnefndar um óbreytt verð, þótt vitað sé, að um áramót verði bændur að taka á sig hækkað kaupgjald samkv. vísitölu, er ljóslega sýnt, að það er síður en svo, að bændur skjótist undan að taka hluta sinn af þeim þunga, sem einhverjir verða að bera, ef takast á að stöðva dýrtíðina. Þungi þeirra byrða mun verða mikill. Mönnum er bezt að gera sér ljóst, að ekki er hægt að reka hér lífvænlegan atvinnurekstur, sem hvíli á sölu á erlendum markaði, nema tilkostnaður verði mun lægri en nú er við framleiðslu hér á landi.