18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Flm. þessa frv. var vel ljóst, að hér var um tvennt að ræða. Sömu menn stóðu að þessu frv. og þeirri þáltill., sem samþykkt var í Sþ. Þeir bjuggust sem sagt við því, að undirbúningur heildarlöggjafar um þetta efni mundi taka alllangan tíma. Þess vegna báru þeir samtímis fram frv. svo sem bráðabirgðalausn til þess að taka verstu annmarkana af l.

Það hafa komið fram grunsemdir um, að frv. mundi vera varhugavert. Ég er enginn sérfræðingur í lögum, en tveir af flm. eru það. Annar er hæstaréttarmálaflm., en hinn prófessor í lögum við háskólann. Þetta eru tveir af þeim, sem standa að frv., og ég geri ekki ráð fyrir, að þeir hafi rasað um ráð fram, Þeir hafa athugað, að hverju leyti gömlu l. er ábótavant, og hvað nýtt þurfti að koma og hafa borið það saman við löggjöf annarra landa, og þessi ákvæði, sem hv. þm. þessarar d. finna að, eru í erlendri löggjöf, og hefur ekkert þótt við það að athuga. Ég held líka, að mikils misskilnings gæti í sambandi við takmörkun á eignarrétti manna á málverkum. Þessi takmörkun felst í því einu, að menn mega ekki sýna þau opinberlega án leyfis listamannsins, að öðru leyti er eignarrétturinn ótakmarkaður. Menn geta selt öðrum þau o.s.frv. Þetta þykir nauðsynlegt að hafa í erlendri löggjöf til að hindra, að menn fari að halda opinberar sýningar á málverkum, meðan listamennirnir eru sjálfir lifandi og þurfa sjálfir að halda sýningar á listaverkum sínum og selja þau, sem er þeirra eina tekjuvon. Ég held satt að segja, að ekkert sé við þetta að athuga og öðrum þjóðum hafi ekki þótt það, og eins hygg ég, að sé með aðrar aðfinnslur, sem hafa komið fram móti þessu frv.

Ég vil enn fremur segja það, að fyrst þessi þáltill. hefur verið samþykkt og ríkisstj. ber að undirbúa allsherjarlöggjöf um rithöfundarétt og menn virðast sammála um, að ekki muni dragast lengi, þar til hún komi fram, þá er gott að fá til bráðabirgða dálitla reynslu, eins og ætlazt er til, að þessum málum verði skipað samkvæmt þessu frv. Þess vegna sýnist mér ekkert athugavert við það, að frv. verði samþ. nú þegar, en rökst. dagskráin felld. Ég óttast sem sagt í þessu sambandi, að undirbúningur löggjafarinnar, sem verður miklu viðtækari og sennilega ekki aðeins um það, heldur líka rétti íslenzkra listamanna út á við, en út á við eru þeir réttlausir, t.d. viðvíkjandi þýðingum rita eftir sig, að þetta taki svo mikinn tíma, jafnvel að það geti dregizt í mörg ár þar til slík lög yrðu samþ. Ég vil því eindregið mælast til, að þetta frv. verði samþ. En komi í ljós annmarkar á þessari löggjöf, þá er auðvelt fyrir stj., sem á að sjá um þennan undirbúining, að setja l., sem koma í veg fyrir það.

Það var ýmislegt í ræðu hv. þm. S.-Þ., sem ástæða hefði verið til að svara. Hann sagði, að með þessu frv. væri verið að leggja starf söngkóranna í rústir. Slíkt er ekki svaravert. Frv. hefur verið borið undir félag tónlistarmanna í bænum. Ég hef t.d. talað við Pál Ísólfsson, og fer því fjarri, að hann álíti söngstarfseminni í landinu geti stafað hætta af frv., og er þó vitað að maður eins og hann lætur sér allra manna mest annt um þessa starfsemi. Í öðru lagi er það, að gert er ráð fyrir, að settar verði ýtarlegar reglugerðir, samþykkar af dómsmrn., svo að ég held, að tortryggni út af þessum málum sé alveg ástæðulaus og ekki sé rétt af Ed. að hindra framgang þessa frv., sem hefur fengið eindregið fylgi í Nd. og er flutt af jafnmörgum mönnum, sem treysta má til að hafa unnið samvizkusamlega að samningu frv.