18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Bjarni Benediktsson:

Ég verð að segja, að það sýnist koma fram mikið vantraust á hæstv. stj. hjá hv.-frsm. meiri hl., og er það því einkennilegra, þar sem vitað er, að hann tilheyrir þeim flokki, sem þessi stj. var sett upp að hvötum frá og hefur síðan reynzt aðalstuðningsflokkur stj. Það er einkennilegt, að hann heldur, að stj. muni ekki hlíta jafnskýlausri fyrirsögn og samþykkt var í Sþ. og nú á að ítreka með till. hv. þm. Barð.

Viðvíkjandi því, að málið sé vel undirbúið, þá sagði hv. þm., að frv. hefði verið borið saman við núgildandi íslenzka löggjöf og sams konar löggjöf erlenda. Ég skal ekki véfengja, að n. muni hafa borið frv. saman við l. um rithöfundarétt, sem gilt hafa frá 1905. Það er lágmarkskrafa, að slíkt hafi verið gert, og skal ég ekki véfengja það. En mér skilst, að það hafi ekki verið borið saman við erlenda löggjöf, og einn af flm. í Nd. sagði mér, að frv. væri ekki í samræmi við núgildandi löggjöf erlendis, a.m.k. ekki á Norðurlöndum. Ég skal ekki fullyrða, hvað rétt er í þessu, hvort hv. frsm. meiri hl. hefur rétt fyrir sér eða hv. flm. Þeir segja, að það sé í samræmi við þá löggjöf, sem ætti að koma, en það er allt annað mál en sú löggjöf, sem nú þegar er í gildi. Ég verð að halda fast við, að frv. er ekki svo vel úr garði gert sem skyldi. Það er ljóst, að margir af hv. þm., hafa verið fengnir til að flytja frv. í þeirri trú, að það væri almennur vilji listamanna, að það næði fram að ganga. Aftur á móti hefur komið í ljós, að a.m.k. sumir listamenn, sem við söngmennt fást, ef til vill ekki Páll Ísólfsson, en margir aðrir, telja, að frv. gangi freklega á rétt sinn. Hv. frsm. hefur af þeim sökum flutt till. um að bæta með regluger ð úr þeim ójöfnuði, sem felst í l., en ég efast um, að með reglugerð sé hægt að breyta fyrirmælum l., nema þau séu svo óákveðin, að lítið gagn sé í þeim hvort sem er. Hér er um að ræða svo veigamikil atriði, sem á að skjóta til reglugerðar, að ég tel eðlilegt, að lagðir séu í frv. höfuðþættir þeirrar reglugerðar, svo að þingið geri sér ljóst, hvaða fyrirmæli er verið að setja um þetta, en ekki, að öllu sé skotið á frest, allra sízt þar sem ég skil ekki afstöðu hv. frsm. meiri hl., þar sem hann vill skjóta því undir þá stj., sem hann að vísu öfluglega styður, en treystir þó ekki til að sinna þessu máli eftir að hafa fengið um það eindregnar óskir þingsins.

Hér er ruglað saman tveimur ólíkum atriðum, annars vegar er það, sem er allsherjarréttlæti gagnvart rithöfundum og listamönnnum. Það er ekki ætlazt til þess, þegar þeir selja rit sitt til að gefa það út einu sinni eins og slíkir samningar munu yfirleitt vera, að þar í felist réttur til að dreifa því út yfir allt land með allt öðrum hætti, t.d. í gegnum útvarp. Þetta finnst mér sanngjarnt, að sé leiðrétt. En það er gersamlega ólíkt hinu, og fram hjá því gat hv. frsm. ekki komizt, ef listamaður selur einstaklingi listaverk, sem er ætlazt til, að sé látið hanga uppi á vegg og sé þar horft á það og á að takmarka rétt eiganda yfir því. Það væri t.d. óheimilt eftir frv., ef barn eigandans færi að teikna eftir myndinni, sem hangir uppi á vegg föður þess. Það gæti verið ástæða til að banna sölu á slíkri eftirmynd. Það er allt annað mál, en því er ekki heldur haldið sér að því í staðinn fyrir að banna hitt? Ef maður á málverk, sem hann hefur keypt samkvæmt núgildandi l., er þá heimilt skaðabótalaust að takmarka rétt hans svo greypilega yfir listaverkinu sem hér er gert? Hefur hv. frsm. meiri hl, gert sér grein fyrir því? Mér skilst t.d., að eiganda málverks væri eftir þessu frv. óheimilt að lána listaverkið til sýningar, sem sjálft ríkið gengist fyrir, og þá er hæpið, að mætti lána það til að hanga uppi í sölum Alþingis, af því að það hefur verið kallað, að þar væri listaverkasafn. Og ef má afhenda listaverk þannig til láns, þá er ólíklegt, að megi afhenda það til eignar á listaverkasafn. Hér er eitthvert vanhugsað vansmíði. Ég held, að hv. frsm. meiri hl. ætti að verða manna glaðastur, ef sú heilbrigða hugsun, sem felst í þessu frv., væri tekin af hans ágætu stj., málið undirbúið og lagt síðan fyrir Alþingi, svo fljótt sem auðið væri, og ef það tæki svo langan tíma að undirbúa þennan lagabálk, þá mætti bera fram nauðsynlegustu breytingarnar á haustþinginu, en láta ekki svo lítt hugsað frv. sem þetta ná fram að ganga. Það er listamönnunum sízt til gagns, en öllum til vansæmdar, sem þar nærri koma. Hv. frsm. meiri hl. segir, að hæstaréttarmálaflm. og prófessor við lagadeildina hafi unnið að undirbúningi frv. Þessir menn væru þá vel fallnir til þess að vera í þeirri n., sem skipuð væri til að undirbúa málið. En þrátt fyrir vantraust hv. þm. á stj., þá trúi ég því ekki, að hún finni ekki skelegga menn til að ljúka þessu starfi svo fljótt, að málið gæti komið a.m.k. í betra formi en það hefur nú fyrir haustþingið.