18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég þarf að bera af mér sakir út af orðum hv. frsm. hér. Hann virðist beina þeim orðum til mín, að ég legði mig fram til að fjandskapast við listamenn hér á landi, þar sem ég fann ýmislegt að þessu frv., sem fyrir liggur. En ég held, að aðrir hafi ekki haldið betur á málefnum listamanna heldur en ég.

Ég man ekki betur en að snemma á þessu þingi væri vísað til n., sem hv. 7. landsk. þm. á sæti í, frv. til l. um breyt. á skipun menntamálaráðs. Og ég hef ekki ennþá séð nál. frá þeirri hv. n. Nú kynni að vísu hv. 7. landsk. þm. að segja, að hann væri þar í minni hl. En hann hefur alltaf átt þess kost að gefa út minni hl. nál., ef hann hefði haft sérstaka löngun til þess. En ég hygg, að hv. frsm. sé ekki ámælisverður í því máli. Frv. það var flutt af nokkurri hvatvísi, það var miðað við bráðabirgðaskipun menntamálaráðs, eins og þá var. En eftir að búið var að breyta skipun ráðsins, þá var þessi hv. þm. alveg búinn að missa áhugann fyrir því máli. (KA: Það er búið að framkvæma það atriði). Við hentum honum á það undir þeim umr., að hyggilegast væri fyrir hann að bíða og sjá, hvernig færi um skipun ráðsins, heldur en að hafa það offors, sem hann vildi hafa. Og þá taldi hann það að fjandskapast við málefni listamanna. En hann hefur viðurkennt, að við höfðum rétt fyrir okkur þá. Alveg sama máli gegnir um þetta mál. Hjá mér er enginn fjandskapur gegn málefnum listamanna. — og ég hef ekki heyrt neitt slíkt koma fram í umr. um þetta frv. hér, — né heldur þeirri hugmynd, sem liggur bak við þetta frv. Ég get játað, að frv. þetta er af vissri nauðsyn fram borið. En ég tel, að frv. hafi ekki fengið þann undirbúning, sem slíkt mál þarf að fá, og hið sama sagði hæstv. dómsmrh. hér í gær, einhver hinn færasti og reyndasti lögfræðingur í landinu. Hann taldi, að málið hefði ekki fengið þann rétta undirbúning. Og það er það, sem við höfum haldið hér fram.

Ég leyfði mér að bera hér fram í dag fyrirspurnir um það, hvað lægi í þessu frv. Ég taldi, að ósamræmi væri í frv., eins og það lægi fyrir. Ég hef nú ekki heyrt hv. frsm. geta svarað einni einustu af þeim spurningum eða skýrt óljós atriði frv. Ég veit, að frv. er ekki borið fram í illu skyni fyrir neina listamenn. Það er borið fram í bezta sk3wi. En það er ekki nógu vel undirbúið. Og hv. frsm. sjálfur viðurkennir, að það þurfi ýtarlegrar endurskoðunar við á þessu máli. Og það, sem við viljum, er, að þetta verði tekið upp þannig, að löggjöfin um þetta efni verði endurskoðuð, og ef því verður ekki lokið fyrir næsta haust, þá verði kjarninn úr þessu frv. tekinn og fluttur í frv. -formi á þann hátt, sem aðgengilegt má kalla að samþ. Það er ekki annað, sem fram á er farið af þeim, sem ekki vilja samþ. þetta frv., eins ófullkomlega og það er undirbúið. Og ég er viss um. að hv. flm. verður okkur jafnþakklátur fyrir, að við höfum haft vit fyrir honum í þessu máli eins og við höfðum vit fyrir honum fyrr á þessu þingi viðkomandi málinu um skipun menntamálaráðs.

Ég sagði alls ekki, að hans flokkur væri eini stuðningsflokkur hæstv. núv. ríkisstj. Hins vegar sagði ég, að sú ríkisstj. hefði verið mynduð að hans hvötum, og þess vegna væri sá flokkur aðalstuðningsflokkur ríkisstj. En að hans flokkur væri eini stuðningsflokkur ríkisstj., sagði ég ekki. Ríkisstj. stendur á fastari fótum en það.