19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það er þrennt, sem ég vildi segja. Ég vil þakka hæstv. ríkisstj. þetta frv. og tel það spor í rétta átt og fyrirheit þess, að hún ætli að lagfæra eitthvað af þeim ólestri, ósóma og óstjórn, sem fyrrverandi ríkisstj. leiddi yfir þetta land.

Hv. fyrrv. forsrh. (ÓTh) dylgjar um það, að verðlagsnefndum megi ekki treysta, og hefur talið mig hafa skýrt sér rangt frá, er hann hafi spurt mig um væntanlegar gerðir n. þeirrar, sem ég er í. Þetta eru ósannindi hans. Frá því 23. ág., að ég minnti hann á, að hann þyrfti að endurskipa kjötverðlagsnefnd fyrir sept., — því sinnti hann ekki og lét vera nefndarlaust nokkra daga —, frá þeim ágústdegi og þangað til nú fyrir fáum dögum hef ég ekki talað orð við þann háa herra, hvað sem hann segir þar um. Hitt var það, að fjmrh. hringdi til mín, þegar síðast var hækkað verð á mjólk, og fór þess á leit, að frestað yrði að taka ákvörðun um hækkunina, þar til Alþingi væri komið saman, því að .það mundi strax taka dýrtíðarmálin föstum tökum. Og er ég trúði því ekki og vildi ekki bíða, bauðst hann til þess að láta ríkisstj. greiða þá hækkun, sem við ákvæðum, en útsöluverð yrði óbreytt. Líka því neitaði ég. En þótt náið sé samband milli fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætismíðherra, eru það ólíkar persónur og getur Ól. Th. varla talið, að hann hafði við mig talað, þótt Möller gerði það, og Möller sagði ekki orð um, að hann talaði í nafni Ólafs.

Mig furðar ekkert á þessari till. hv. l. landsk. En menn hafa ekki skilið, að hún er miklu lævísari en af var látið. Þarna vill þm. búa í haginn fyrir framtíðina og taka frá verðlagsnefndunum allar tillögur um verðlagsmálin.

Það er breyt. á 5. gr. l., sem nú undanskilur þessar vörur, svo að vald dómnefndar í verðlagsmálum nær ekki til þeirra. Það vill hv. 7. þm. Reykv. ekki. Hann vill láta allt heyra undir verðlagsnefnd, eina og sömu n. Þetta er ekkert nýtt. Þetta hefur heyrzt áður hér á þingi, og þessi hv. þm. hefur æfinlega borið þá von í brjósti, að svo yrði. Það er rétt, sem fyrrverandi forsætisráðherra sagði, þó að það sé sjaldan, sem hann segir það, sem rétt er, að það verður erfitt að ráða þessum málum til lykta þannig, að allir verði ánægðir með það.