25.01.1943
Efri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Frv. þetta fer fram á, að jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarneshreppi og nær helmingur alls Mosfellshrepps verði lagður undir Reykjavíkurbæ.

Meiri hl. allshn. hefur lýst sig samþ. frv., en minni hl., sem er hv. þm. Str. og ég, telur, að eigi sé svo frá frv. gengið, að það verði hægt að afgreiða það að sinni. Mér virðist mál þetta flutt fremur af kappi en forsjá. Það er mikið kappsmál fyrir hv. flm. að fá jarðir þessar lagðar undir Reykjavíkurbæ, en ef maður skyggnist eftir rökum, er þeir hafa að færa fyrir máli sínu, þá er eigi hægt að koma auga á þau.

Eftir allt, sem um þetta hefur verið rætt, veit Alþ. ekkert um þörfina fyrir þessu né heldur, til hvers eigi að nota umræddar jarðir. — Þegar þess er gætt, að fyrir Alþ. liggja mótmæli hlutaðeigandi hreppa, og vafasamt er, hvort þessir tveir hreppar geta staðið áfram hjálparlaust, ef frv. nær fram að ganga, þá finnst mér undarlegt að vera að knýja þetta fram og ábyrgðarleysi af Alþ., ef það samþ. það. Enn fremur gæti það skapað hættulegt fordæmi, hvað viðvíkur öðrum kaupstöðum landsins, og get ég í því sambandi nefnt Hafnarfjörð, sem á jörð í Gullbringusýslu, er ég veit, að ýmsir vildu gjarnan, að hyrfi undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Það yrði þess vegna mjög erfitt fyrir Alþ., ef það samþ. þetta frv., að neita öðrum kaupstöðum um svipaðar kröfur, ef þeir færu þess á leit. Mér virðist hér vera um að ræða ekkert annað en stífni af hálfu Reykjavíkurbæjar. Hann vill hamra þetta fram, hvað sem öðru líður.

Ef maður lítur nú á ýmis undangengin atvik, þá verður þetta þó skýrt að allmiklu leyti. Það er upphaf þessa máls, að þekktur borgari þessa bæjar festi kaup á smábýli í Mosfellssveit fyrir nokkrum árum. Þetta býli var Korpúlfsstaðir. Hann lagði þarna í mikla nýrækt og stórbyggingar, og starfsemin óx svo og dafnaði, að hann festi brátt kaup á fleiri jörðum í hreppnum. Búskapurinn gekk vel fyrst í stað, en strax og mjólkurfyrirkomulagið var sett á laggirnar, þá fór að blása á móti. Þá var það, að hann tók að leita að kaupanda að þessum eignum sínum. Hér í Rvík höfðu heyrzt raddir um, að Reykjavíkurbær þarfnaðist jarða til að reka búskap á. Eftir því sem ég veit bezt, þá kom þessi skoðun aðallega fram hjá minni hl. bæjarstjórnarinnar, en þegar það spurðist, að Korpúlfsstaðir fengjust keyptir, þá vaknaði áhugi meiri hl. bæjarstjórnarinnar. Eigandi Korpúlfsstaða setti sitt stolt í, að jörðunum yrði ekki skipt, heldur seldar í einu lagi. Þegar Reykjavíkurbær festi l:aup á þessum jörðum, þá kom fram í einu dagblaði bæjarins sú hugsun, að kaup á þessari torfu væri sem nokkurs konar minnisvarði yfir fyrrv. eiganda Korpúlfsstaða og þarna bæri að reisa fyrirmyndarbú. — Áður en Reykjavíkurbær fengi eignarrétt þessara jarða, þá bar honum lögum samkv. að bjóða hlutaðeigandi hreppum forkaupsrétt, en þeir voru þrír. En þetta gerði Reykjavíkurbær ekki, heldur fann hann það út, að hér væri um eina torfu að ræða, sem skyldi seljast í einu lagi, enda þótt jarðirnar væru í þremur hreppum. Þetta var algerlega móti öllum lögum, og ég skil ekki, hvernig Reykjavíkurbær hefur hugsað sér þetta í framkvæmdinni. Mosfellshreppur krafðist nú forkaupsréttar á þrem hinna seldu jarða: Lágafelli, Varmá og Lambhaga. Við það gat Reykjavíkurbær ekki sætt sig, heldur hélt því fram, að annaðhvort yrði hann þá að kaupa allar jarðirnar eða enga. Um þetta risu svo deilur milli Reykjavíkurbæjar og Mosfellshrepps, og var ekki annað sjáanlegt en að úr þessu yrðu málaferli, enda eðlilegt, að Mosfellshreppur leitaði réttar síns í málinu. En um þetta leyti birtist grein í Morgunblaðinu eftir Borgarstjórann í Rvík, þess efnis, að hann vildi gjarnan, að málið yrði leyst með friðsamlegum samningum. Þetta varð til þess, að Mosfellshreppur frestaði því, að leggja málið fyrir dómstólana og sendi í þess stað fulltrúa til borgarstjórans til þess að ræða málið. Í bréfi Mosfellshrepps til allshn. Ed., sem prentað er í nál. minni hl., er skýrt frá þessum samningaumleitunum. Hreppurinn lagði áherzlu á að fá áðurgreindar þrjár jarðir, og tók borgarstjórinn því vel, en lagi um leið mikla áherzlu á það, að Reykjavíkurbær eignaðist Grafarholt í Mosfellshreppi. Eigandi Grafarholts, sem var víðstaddur þessar umr., en hann er einn í hreppsnefnd Mosfellshrepps, gat þess, að sér væri jörðin ekki útföl, en til greina gæti komið, að hann léti jörðina af hendi við Reykjavíkurbæ, ef það gæti orðið til þess að greiða fyrir samningum við hreppinn um málin í heild. Úr þessu varð svo það, að borgarstjórinn fékk leyfi eiganda Grafarholts til þess að láta meta jörðina, án þess þó að eigandi jarðarinnar teldi það mat nokkuð bindandi fyrir sig. Viðtal þetta við borgarstjórann leiddi svo til þess, að Mosfellshreppur gerði ekki frekari tilraunir að þessu sinni til þess að fá forkaupsrétt sinn viðurkenndan.

Svo líður sumarið fram yfir tvennar kosningar, og ekkert gerist, en í október tilkynnir borgarstjórinn eiganda Grafarholts, að jörðin hafi verið metin fyrir 150 þús. kr. Strax, þegar eigandi jarðarinnar heyrir um þetta, þá mótmælir hann, vegna þess að um mitt sumar hafði hann fengið fast tilboð í Grafarholtið 600 þús. kr., og taldi 150 þús. kr. ekkert verð fyrir jörðina. Afrit af þessu 600 þús. kr. tilboði var sent allshn. Ed., og er hægt að fullvissa sig um, að það er ekki út í bláinn.

Borgarstjórinn áleit 600 þús. kr. alltof hátt verð, en vildi ekki leggja fram tilboð af bæjarins hálfu, en óskaði tilboðs frá hreppnum. Á þessum grundvelli gerði svo Mosfellshreppur tilboð, sem var í aðalatriðum á þessa leið:

„1. Að Mosfellshreppur tryggi Reykjavíkurbæ eignarheimild á meginhluta Grafarholts, en fái gegn því í sinn hlut jarðirnar Varmá, mikinn hluta Lágafells og Lambhaga.

2. Mosfellshreppur féllist á fyrir sitt leyti, að hreppsmörk breyttust þannig, að Reykjavík fengi inn í lögsagnarumdæmi sitt jarðirnar Grafarholt og Engi, Gufunes og Korpúlfsstaði ásamt landareignunum Eiði og Geldinganesi og auk þess jörðina Keldur, sem er eign ríkisins, en liggur inn á milli áður taldra jarða.

3. Til jafnaðar reikningum þessum öllum greiddi svo Reykjavíkurbær til Mosfellshrepps kr. 100 þús. í eitt skipti fyrir öll, og væru þar með niðurfallnar frekari kröfur af hálfu Mosfellshrepps fyrir það að láta þessi stóru lönd og verðmæti af hendi til Reykjavíkur.“

Þetta tilboð afhenti hreppsnefndin Reykjavíkurbæ, en bærinn svaraði tilboðinu ekki. Hið mesta, sem Mosfellshreppur heyrði frá bænum, er frv. það, sem hér er nú til umr.

Fyrrv. hæstv. forsrh. tjáði sig fúsan til milligöngu og samningaumleitana milli Mosfellssveitar og Rvíkurbæjar um þetta mál, og mun hann aðstöðu sinnar vegna hafa talið líklegt, að það bæri giftusamlegan árangur. Ég spurðist fyrir um það við 1. umr. þessa máls, hvort þetta tilboð hefði verið notað og hvort þessar umleitanir hefðu farið fram undir handleiðslu hans. Mér var þá tjáð, að allar hugsanlegar tilraunir hefðu verið gerðar til að ná samkomulagi. Síðan sú umr. fór fram, hef ég fengið að vita, að þetta tilboð hæstv. fyrrv. forsrh. hefur alls ekki verið notað og af hans hálfu engin tilraun gerð til að koma samningum á. Verð ég að harma, að þessi sáttatilraun skyldi ekki hafa verið gerð, sérstaklega þegar litið er á, hversu ófullkomnar þær sáttatilraunir hafa verið, sem Rvík hefur tekið þátt í fyrir eigin atbeina. Ég verð að harma, að þær skyldu ekki hafa farið fram, vegna þess að fyrrv. forsrh. staðhæfði, að ég hygg með nokkrum rétti, að hann hefði þá aðstöðu, að líklegt væri, að hann gæti komið sáttum á. Ég verð því að vekja athygli á því, að það er alrangt, sem hv. flm. þessa frv. hafa haldið fram, að fullnægjandi tilraunir hafi verið gerðar til þess að leysa málið með samningum. Þvert á móti virðist mér, að þær tilraunir, sem fram hafa farið í þessu efni, hafi eingöngu miðað að því að draga málið vissan hæfilegan tíma til þess að geta síðar, án þess að verulegar samningsumleitanir hefðu farið fram, lagt fram frv. hér á þingi. Mér finnst, að þetta hafi verið eitt höfuðatriði til þess, að mál eins og þetta geti náð fram að ganga hér á þingi, að þeir, sem leggja áherzlu á að koma því fram og beita með því lítinn og veikan nábúa sinn miklu ofbeldi og ofríki, að þeir geti gert grein fyrir því, að þeir hafi ekkert látið vangert í því efni að komast að friðsamlegum samningum í málinu. Mér finnst, að upplýsingar um það verði að liggja fyrir, áður en hægt er að leggja málið fyrir Alþ.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er beinlínis fram komið í þeim tilgangi að svipta Mosfellshrepp forkaupsrétti að þeim jörðum, sem í hreppnum eru. Frv. miðar að því að leggja undir lögsagnarumdæmi Rvíkur því nær helming allra íbúa þessa hrepps og helming allra jarða hreppsins að jarðamati. — Frv. miðar einnig að því að svipta eigendur Grafarholts forráðarétti yfir þeirra eigin jörð um ófyrirsjáanlegan tíma. Reykjavík á að hafa rétt til að taka Grafarholt eignarnámi, hvenær sem henni sýnist, en engin skylda að gera það frekar en henni gott þykir. Ég verð að halda því fram, að til þess að þetta frv. geti náð fram að ganga, verði þeir, sem beita sér fyrir framgangi þess. að sýna fram á, að fyrir hendi sé hjá Rvík knýjandi þörf fyrir að fá þetta land. Ég verð ákveðið að halda fram, að Alþ. geti ekki látið það viðgangast, að Reykjavíkurbær fái að sölsa undir sig þessar jarðeignir án þess fyrst að sýna fram á knýjandi nauðsyn fyrir því, að bærinn fái landið, og það með föstum rökum.

Af hálfu Reykjavíkurbæjar eru ekki aðrar röksemdir færðar fram fyrir þörf bæjarins fyrir þessu landi en að bærinn þurfi að fá landið til kúabús, til sumarbústaða, til sands- og malartekju og gönguferða fyrir íbúana. Engar frekari röksemdir fylgja þessu frv. Ekki er minnzt á það einu orði, hvort bærinn hafi tök á að útvega íbúunum sands- og malartekju. Ekki er heldur minnzt á það einu orði, hvaða tök bærinn hafi á að útvega íbúum sínum land til sumarbústaða, kúabús eða gönguferða, sem mér virðist ekki lítil áherzla lögð á í frv. Í fáum orðum sagt, það er ekki með einu orði sýnt fram á, að bæjarbúum sé nauðsyn á að fá þetta land. Ég er ekki að draga í efa þörf bæjarins fyrir einhverju landi. Það má vel vera, að þörf sé á því. En fyrr má rota en dauðrota. Fyrr má leggja jarðir undir Reykjavíkurbæ en hrifsa undir hann hálfan hrepp og hluta af öðrum.

Í bréfi, sem hreppsnefnd Mosfellssveitar hefur sent allshn., er skýrt frá því, að Reykjavík hafi nú til umráða þó nokkrar jarðir utan bæjarins, Gufunes, Eiði, Geldinganes, Árbæ, Ártún, Breiðholt og Elliðavatn. Allar þessar jarðir hefur bærinn til sinna umráða og getur notað þær fyrir íbúa sína. Af hálfu hv. flm. er ekki vikið að þessu einu orði og engin grein gerð fyrir því, hve mikið af þessu landi bærinn notar fyrir bæjarbúa og hve mikið á annan hátt, hvað þá að þinginu sé skýrt frá, hversu stórt land bærinn hafi, sem að sjálfsögðu hlýtur að vera eitt grundvallaratriðið, þegar meta skal, hve mikið bærinn þarf að fá til viðbótar. Ég vil vekja athygli á, að í bréfinu frá hreppsnefnd Mosfellshrepps segir, að Grafarholtsland eitt sé það stórt, að ef bærinn fengi það land til sinna umráða, gæti hann látið hverja 5 manna fjölskyldu fá 1000 m2 land, miðað víð, að íbúar bæjarins séu 40 þús. Þetta Grafarholtsland vill nú bærinn fá auk þeirra 7–8 jarða, sem hann á og áður voru nefndar, og auk þess alla hina svonefndu Korpúlfsstaðatorfu. Þetta vill bærinn fá samþ. á Alþ. án þess svo mikið sem gera grein fyrir með einu orði, hve mikið land bærinn hefur nú fyrir bæjarbúa. Ég leyfi mér að efast um, að hv. flm. viti sjálfir, hvað það er mikið land, sem bærinn hefur fengið til umráða handa bæjarbúum, ef frv. nær fram að ganga. Mér þætti ákaflega skemmtilegt, ef þeir síðar við þessa umr. vildu skýra mér frá því.

Það er upplýst, að þetta mál er af hálfu Rvíkur mjög illa undirbúið, og vantar mjög mikið á, að gerð hafi verið næg grein fyrir þeirri þörf, sem Rvík reisir frv. á. Hins vegar hefur komið fram í bréfum frá Mosfellshreppi, Seltjarnarneshreppi og sýslunefnd Kjósarsýslu, að það er hið mesta ofbeldi, ef á að svipta þannig nær helmingi landsverðs allra jarða í hreppnum og helming íbúa hans og þar að auki að taka tvær stórar jarðir úr Seltjarnarneshreppi. Auk þess ætlast frv. til þess, að með þessari innlimun í Reykjavíkurbæ fylgi hið myndarlega skóla- og samkomuhús Mosfellssveitarmanna á Brúarlandi ásamt þingstað sveitarinnar, skólastjóra, hreppstjóra, oddvita, svo og íþróttaskólanum á Álafossi og hluta af verksmiðjuhverfinu. Í umsögnum, sem borizt hafa Alþ., er beinlínis sannað, að mjög er vafasamt, að Mosfellshreppur og Seltjarnarneshreppur fái staðizt sem sjálfstæðir hreppar, ef frv. nær fram að ganga, svo að óhjákvæmilegt er að athuga, áður en frv. kemst fram, ef það á að komast fram, hvort ekki er nauðsynlegt að gera þegar í upphafi einhverjar ráðstafanir út af þeirri röskun, sem af þessu mundi leiða fyrir hreppana. Og að mínu viti er óhugsandi, að þetta frv. geti fengið framgang hér á þingi, án þess að þetta sé athugað jafnframt. Alþ. hefur með l. frá 1941 sýnt nokkuð, hver vilji þess er í hlutum svipuðum þeim, er hér liggja fyrir. Í l. um jarðakaup ríkisins handa kaupstöðum og sjávarþorpum er svo ákveðið, að lönd frá nærliggjandi sveitarfélögum skuli ekki lögð undir kauptún og sjávarþorp, nema því aðeins, að málið hafi verið ýtarlega rannsakað og leitað umsagnar og álits Búnaðarfélags Íslands og búnaðarfélagið hafi mælt með, að málið næði fram að ganga. Alþ. hefur sett þessi l. og tekið þetta ákvæði upp í þau vegna þess, að þinginu hefur verið ljóst, hversu mikil hætta er á því fyrir sveitarfélög, að kaupstaðir seilist um of til landa hjá sveitunum. Þingið hefur þess vegna talið nauðsynlegt að setja l. til að vernda hreppana fyrir ágangi kaupstaðanna. Ég skal að vísu viðurkenna, að eftir orðum þessara l. taka þau ekki beinlínis til Rvíkur, en hinu verð ég afdráttarlaust að halda fram, að samkv. eðli sínu hljóta þau einnig að taka til Rvíkur. Það er ekki hægt með rökum að benda á neina ástæðu fyrir því, að önnur fyrirmæli skuli gilda í þessu efni um Rvík en aðra kaupstaði landsins, nema síður sé. Hrepparnir kringum Rvík þurfa áreiðanlega á sömu vernd að halda af hálfu löggjafans eins og hrepparnir kringum aðra kaupstaði og sjávarþorp á Íslandi. Mér er nær að halda, að í sambandi við Rvík sé frekar þörf á aðgæzlu af hálfu löggjafarvaldsins í þessu efni en annars staðar, því að einmitt vegna þess, hve stór Rvík er orðin, er ástæða til að óttast, að bærinn sýni nágrönnum sínum yfirgang og leiti til landa hjá nágrannahreppunum að óþörfu. Ég verð því ákveðið að halda fram, að eðlilegt sé og sjálfsagt, að Mosfellshreppur og Seltjarnarneshreppur eigi beinlínis kröfu til þess, að Alþ. láti þá njóta sömu réttinda og verndar og öðrum hreppum er veitt í þessum l., og sú rökst. dagskrá, sem minni hl. hefur borið fram, byggir ekki hvað sízt á þeirri hugsun.

Það var af hálfu hv. 1. flm. þessa frv. gefið í skyn, að till. okkar í minni hl., að vísa málinu til Búnaðarfélags Íslands, væri fram komin til að tefja málið og torvelda framgang þess. Þetta er algerlega rangt, málinu gersamlega snúið við. Þessi krafa okkar minnihlutamanna er beinlínis fram komin til þess, að málið geti fengið greiðari afgreiðslu og um leið öruggari afgreiðslu, því að það er alveg víst, að jafnilla og þetta frv. er undirbúið undir þingið, þá mun það tefjast svo mikið, að óhugsandi er, að hægt sé að afgreiða það. En ef málið væri sent búnaðarfélaginu og fengin um það rökstudd umsögn, er mér nær að halda, að það fengi fljótari afgreiðslu, að ég nú ekki tala um, hversu miklu meira öryggi fengist fyrir því, að fullt tillit væri tekið til allra aðila.

Einhvers staðar var að því vikið, að ekki væri hægt að treysta umsögn búnaðarfélagsins um þetta mál, vegna þess að í stjórn þess ætti sæti einn hreppsnefndarmaðurinn úr Mosfellshreppi. Ég verð að segja, að mér finnst þessi fullyrðing koma úr hörðustu átt, sérstaklega þegar þess er gætt, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki byggt á neinu öðru en umsögn frá forráðamönnum Reykjavíkurbæjar, og geta allir séð, hvort þeir muni ekki vera miklu vilhallari en stjórn Búnaðarfélags Íslands, jafnvel þó að þar sé einn hreppsnefndarmaðurinn úr Mosfellshreppi. Þessi ástæða af hálfu flm. frv. er því ekki nema tylliástæða ein.

Ég get ekki skilizt svo við þetta mál, að ég minnist ekki sérstaklega með nokkrum orðum á þau hörðu tök, sem hv. flm. frv. ætla sér að beita eiganda Grafarholts í sambandi við þetta mál. Jörðin Grafarholt hefur a.m.k. nú um nokkurn tíma verið í eigu sömu ættar. Eigendur Grafarholts hafa búið þar sérstaklega um sig, stofnað þar heimagrafreit fyrir ættina og hugsað jörðina sem framtíðaróðal hennar, a.m.k. að einhverju leyti. Það er rétt, að síðan skriður komst á þetta mál, hefur eigandi Grafarholts litið nokkuð í kringum sig um sölu á hluta af Grafarholti, en alls ekki um sölu á því öllu. Ég er viss um, að ef eftir því væri leitað að fá Grafarholt keypt að einhverju leyti, mundi það vera framkvæmanlegt með sanngjörnu verði fyrir báða aðila, en með þessu frv. er eigandi Grafarholts þannig settur, að afhenda á Reykjavíkurbæ skilyrðislausa heimild til að taka þessa jörð eignarnámi, hvenær sem bænum þóknast, en engin skylda hvílir á bænum að gera það fremur en honum sjálfum gott þykir. Með þessu lagaákvæði er eiganda Grafarholts sköpuð sú sérstaða í þjóðfélaginu, að eign hans er algerlega fryst. Hann er sviptur öllum möguleikum til að ráðstafa henni eða gera sér hana verðmæta á nokkurn hátt, því að það er vitað mál, að með slíka hengingaról dinglandi yfir höfði sér mun Enginn vilja festa kaup á neinum hluta Grafarholts, hversu lítill sem hann er, hvað þá stórum hluta jarðarinnar. Eiganda Grafarholts er því með frv., eins og það liggur fyrir þinginu, sköpuð sú sérstaða, sem hvergi á sinn líka, að vera sviptur umráðarétti yfir landi sínu, svo lengi sem Reykjavíkurbæ þóknast. Og svo kórónar flm. afstöðu sína gagnvart eiganda Grafarholts með því að viðhafa þau ummæli, að þá kröfu verði að gera til hans, að hann verði að lúta landslögum eins og aðrir menn. Slík ummæli eru höfð um hann á sama tíma, sem verið er að koma með frv. til þess eins, að eigandi Grafarholts fái ekki að njóta þess réttar, sem landslög veita öllum öðrum borgurum þessa lands. Mér finnst, að þessi ummæli grg. séu hin ómaklegustu og hv. flm. hefðu vel getað sparað sér þau, þegar tekið er tillit til þess hvaða aðförum er verið að beita gegn varnarlausum sveitabónda í nágrenni bæjarins.

Í þeirri grg., sem fram hefur komið af hálfu minni hl. fyrir þeirri niðurstöðu, sem hann kemst að, er höfuðatriðið það, sem minni hl. vill greinilega undirstrika, að við viljum ekki, að þetta mál sé afgr. frá þinginu, fyrr en fyrir liggur ýtarleg og rökstudd umsögn um það, hver þörf Rvíkur er í þessu efni, og málið ekki afgr., fyrr en fullnægjandi sáttaumleitanir hafa farið fram milli beggja aðila á grundvelli þeirrar umsagnar, sem búnaðarfélagið og jafnvel einhverjir hlutlausir aðilar láta í té.