28.01.1943
Efri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Hermann Jónasson:

Það komu fram hér í umr. hjá hv. 5. þm. Reykv. ummæli á þá leið, að þau rök, sem komu fram gegn þessu frv., væru ekki mikils virði. Hann taldi aðallega vera tvenns konar rök, sem komu fram gegn frv., og hann taldi sig geta auðveldlega hrakið þau.

Í fyrsta lagi var landþörf fyrir Reykjavík. Hann taldi tvímælalaust, að Rvík hefði þörf fyrir þetta land, og í annan stað, að það væri ekki sæmandi, að þingið skipti sér af því, með hverjum hætti Rvík keypti jarðir sínar.

Viðvíkjandi fyrra atriðinu vil ég segja það, þó að vitað sé, hvernig fer um þetta frv., að ég tel, að landþörf bæjarins sé ekki sönnuð. Það er vitað, að bærinn á Gufunes, Eiði með Geldinganesi, Elliðavatn og fleiri jarðir hér nálægt, þar sem ræktanlegt land er alls eigi notað, og vissa mun fyrir því, að það ræktanlega land, sem er ónotað á þeim jörðum, sem bærinn á, er talsvert meira en það, sem hér er farið fram á að halda áfram. Lambhagi er landlitil jörð og Varmá einnig, og svo er sá hluti af Lágafelli, sem á að selja. Það fer því fjarri, að landþörfin sé sönnuð, og held ég, að bærinn ætti að nota þau lönd, sem hann á, áður en hann fer að ásælast þessar jarðir.

Ég tel, að ekki þurfi að ræða það, sem fram hefur komið viðvíkjandi þessu máli frá einstökum hv. þm. Alþingi hefur áður tekið afstöðu til þessara mála og eins Framsfl. sérstaklega. Ég er enn á því máli, að bæir og þorp eigi að fá það land, sem þau þarfnast, enda er þetta ákveðið í l. Þetta er aðeins því skilyrði bundið, að Búnaðarfélag Íslands leggi mat á það, hve þörfin er rík. Og ég tel ekki ólíklegt, að reka muni að því, að bærinn verði að fá þetta land, sem um er að ræða og Mosfellshreppur vill ekki sleppa, en sem borgari og þm. lít ég svo á, að bærinn verði áður að sýna fram á, að hann noti allt það land, sem hann hefur þegar. Og þó að ég hafi alltaf, bæði í bæjarstj. og á öðrum vettvangi, fylgt því, að Reykjavíkurbær fengi það land, sem hann þarfnast, tel ég þetta óheppilegan tíma til jarðakaupa. Það má reyndar segja, að það sé ekki Alþ. að hafa áhyggjur vegna þess, hve tímar til jarðakaupa eru óheppilegir, en ég tel þó rétt að minna á þessa staðreynd. Jarðir og fasteignir eru nú að lækka í v erði óðfluga. Hús, sem kostaði fyrir skömmu 150 þús. kr., er nú komið niður í 120 þús. kr. Jarðir, sem sótzt var eftir fyrir þrem eða fjórum mánuðum fyrir 110 þús. kr., seljast nú ekki fyrir 80 þús. kr. Hver maður hlýtur að sjá, að landbúnaðarkreppa er fram undan, meiri en áður hefur þekkzt, og þess vegna eru jarðir þegar farnar að hrapa í verði. En ég vil láta það koma skýrt fram, að hér er ekki um að ræða óvild í garð Rvíkur eða véfengingu á rétti bæjarins til að fá það land, sem hann þarf, enda hefur verið lýst yfir þeim rétti í l., svo að ekki verður um hann deilt.