16.02.1943
Neðri deild: 59. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Áki Jakobsson:

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Árn., að málið hafi ekki verið athugað lengi í allshn. Hins vegar var það svo vel athugað fyrir, að ég fyrir mitt leyti var búinn að gera upp við mig að fylgja því, eins og það kom frá hv. Ed. Hinir 4 nm. voru sömu skoðunar.

Aðalefni frv. þessa er það, að bærinn fái yfirráð fyrir þeim löndum, sem kringum hann eru. Bærinn er í hröðum vexti, og úthverfi hans hafa dreifzt svo út, að það er aðeins tímaspursmál, hvenær þessi lönd verða innanbæjar. T.d. er nú þegar farið að selja og leigja lóðir frá Grafarholti, og sækja menn vinnu þaðan í bæinn með strætisvögnum. Hins vegar er reynsla fyrir því, að jarðir, sem lenda í útjöðrum borga og bæja, verða hin mesta féþúfa fyrir gróðabrallsmenn, og það er eftirkektarvert, að þeir hafa ekkert til gróðans unnið, heldur komizt yfir löndin af tilviljun eða sölsað þau undir sig. Síðan pranga þeir með lóðir og draga til sin arð af vinnu manna þeirra, er verða að neyðast til að kaupa eða leigja af þeim lóðir á uppsprengdu verði. Þetta er óeðlilegt brall, og ég tel gæfuríkt fyrir bæinn, hve snemma honum tókst að komast yfir mestan hlutann af því landi, sem hann stendur á. Þó er miðbærinn hér undanskilinn, og hefur það verið til stórtjóns. E.t.v. hefur gróðabrallið með lóðirnar þar orðið til þess að opna augu bæjarstjórnar og bæjarbúa fyrir því, að rétta leiðin væri að komast yfir löndin í kringum bæinn, áður en þau kæmust á toppinn sem verzlunarvara. Sjónarmið Mosfellssveitar í þessu máli er sjónarmið gróðabrallsins. Það er háð kapphlaup til að selja landið eða leigja eða nota það í gróðaskyni á einhvern hátt. Engin önnur sjónarmið hafa verið færð fram.

Ég álít það sé bæði knýjandi nauðsyn og rétt að hraða málinu sem mest. Mosfellssveit er augsýnilega að misnota rétt sinn með því að ætla sér að neyta forkaupsréttar án þarfar. Ég tel því rétt að hraða þessu máli, svo að sveitin komi ekki fram forkaupsréttarákvörðun sinni.

Bærinn keypti Korpúlfsstaði til þess að hafa ræktað land fyrir sig. Það er vitanlega óviðunandi ástand í mjólkurmálunum hér. Mjólkin kemur hálfskemmd austan úr sveitum og oft mjög gömul. Með því að koma upp kúabúi á Korpúlfsstöðum, þá gætu bæjarbúar fengið glænýja mjólk á hverjum morgni og losnað við vankanta mjólkursölulaganna. Þessi l. gerðu það að verkum, að ýmis fyrirmyndarstórbú í nágrenni bæjarins, einkum Korpúlfsstaðabúið, voru lögð í rústir. Þetta var gert til ágóða fyrir bændur austan fjalls til þess að gefa þeim markaðinn. Mjólk þaðan er þó oft ónothæf. En þetta jók fylgi Framsfl., þótt það færði ekki Reykvíkingum neinn gróða. Ég tel því rétt frá mörgum sjónarmiðum, að nál þetta fái sem fljótasta afgreiðslu. Á því byggist lífsafkoma og framtíð rúmlega þriðjungs þjóðarinnar.

Ég vil benda á síðustu orðin í ræðu hv. 1. þm. Árn. Þar var hann að brýna fulltrúa Sjálfstfl. á því, að ef þeir ætluðu að fara að beita sér fyrir bolsévisma, þá skyldu þeir bara bíða rólegir. Hann gaf í skyn, að framsóknarmenn mundu þá gjarnan snúast með bolsévikkum á móti sjálfstæðismönnum, er þeim byði svo við að horfa. Ég veit, að það er rétt, að Sjálfstfl. er fulltrúi gróðabrallsins, en í þessu máli miðar hann meira við framtíðina og hag almennings en Framsfl. gerir.

Ég vil enn þá endurtaka, að ég álít, að með þessu frv. sé stefnt í rétta átt og afgreiðslu þeir beri að hraða sem mest.