16.02.1943
Neðri deild: 59. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Ég þarf ekki að vera langorður. Hv. 1. þm. Árn. hefur fært þau rök fyrir afstöðu okkar. Aftur hafa engin rök komið fram á móti, nema hjá hv. þm. Siglf., ef rök skyldi kalla, og kem ég að þeim síðar. Hv. frsm. meiri hl. taldi þörfina á landrými fyrir bæinn fyrstu ástæðuna fyrir þessu frv. Þetta er aðeins órökstutt slagorð. Hann minntist ekki á það land, sem bærinn á nú þegar, eða hvernig það er notað. Hann minntist ekki á Gufunes, að það hefur ekki verið notað til annars en leigja það ábúandanum. Þá er það Geldinganesið. Það tilheyrir Gufunesi og er notað til hagagöngu fyrir hesta. Það er e.t.v. nauðsynlegt. En ef þörf bæjarins er svo mikil fyrir land eins og af er látið, þá mundi þetta land ekki vera notað undir stóð. Ártún og Árbæ veit ég ekki til, að bærinn noti neitt nema til sandnáms. Annars er það land ónotað.

Það er tekið fram í nál., að auk þess að fá yfirráð yfir ræktuðu landi þurfi Rvíkurbær og að ráða yfir óbyggðu landi vegna Reykvíkinga, sem vilji ferðast gangandi að sumarlagi, og er því haldið fram, að vegna lögreglusamþykktar um lokun Mosfellshrepps sé Reykvíkingum það torvelt nema með sérstöku leyfi. Þessi lögreglusamþykkt hefur verið felld úr gildi og var aldrei framkvæmd eftir bókstaf laganna. Reykvíkingar taka sér það leyfi að ganga um óbyggð lönd, enda er ekki amazt við þeim eða því, að þeir séu við berjatínslu. T.d. er mitt land oft heimsótt af hópum barna, sem eru í berjamó, og gegnir sama máli um flest lönd í Mosfellssveit. Sú ástæða, að slík ferðalög hafi verið torveld vegna harðstjórnar Mosfellssveitarmanna, er því einskis virði. Frsm. meiri hl. taldi verð það, sem farið var fram á fyrir Grafarholt, vera of hátt, hvort sem tekið er tillit til mannvirkja á jörðinni eða metið gildi hennar sökum legu í nágrenni bæjarins. Ég vil spyrja hv. frsm., hvort hann álíti unnt fyrir bæinn að fá síðar jörð fyrir miklu minna verð en nú. Ég tel ástæðulaust, að bærinn fái Grafarholt fyrir lægra verð en boðið er, og væri æskilegt, að fyrir lægi rökstutt álit um það, hvernig Rvíkurbær ætlar að nota þessi miklu lönd, sem hann seilist eftir. Hér er verið að grípa til örþrifaráða, og er athugavert að gera lög um að taka lönd þessi eignarnámi, ekki sízt að órannsökuðu máli og auk þess gegn mótmælum Kjósarsýslu og án þess að gerð sé grein fyrir, hvers vegna málinu er hraðað svo gegnum þingið. Mér virðast Nd. mislagðar hendur, ef hún krefst ekki frekari umsagnar, eins og farið er fram á af minni hl. n.

Hv. þm. Siglf. taldi það höfuðatriði að tryggja bænum þarna aðgang að landi, í stað þess að það gengi til stríðsgróðamanna. Maður, líttu þér nær. Ég held, að fyrst ætti að taka lönd úr lögsagnarumdæmi bæjarins, áður en farið er að sölsa undir yfirráð bæjarins lönd frá einstaklingum og sveitarfélögum í öðrum sýslum. Því er haldið fram, að æskilegt sé, að bærinn eigi lönd þau, sem hann stendur á. En ef þetta er aðalástæðan fyrir landaaukningu bæjarins, er hún mjög handahófsleg, því að Rvík á næg lönd, sem ekki er hreyft við og liggja ónotuð. Sýnist því engin nauðsyn á því að eyðileggja á þennan hátt þau sveitarfélög, sem byggja framtíð sína á því, að þessi lönd verði áfram innan lögsagnarumdæma þeirra. Virðist eigi liggja svo lífið á að koma málinu í gegnum þingið, að eigi megi bíða þar til fyrir liggja þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru til glöggvunar á öllum aðstæðum.