30.03.1943
Neðri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég vil mjög taka undir það, að hæstv. forseti taki málið af dagskrá. Ég vildi svo inna eftir því við hv. frsm. meiri hl., að hann svari þeim fyrirspurnum, sem ég hef hér borið fram viðvíkjandi málinu, og ég get ekki skilið, að meiri hl. ætli sér að knýja málið fram án þess að svara þessum fyrirspurnum. Það er skiljanlegt, að hæstv. forseti hefur tekið málið á dagskrá. Það er ekki ámælisvert. En hitt er öllu lakara hjá flm. málsins, að nú er ekki viðstaddur sá maður, sem málið varðar mjög mikið, þ.e. hv. þm. G.-K. Nú stendur einnig svo á, að þrír hv. þm. a.m.k., sem mundu telja mikilsvert að fá málið betur upplýst, áður en til atkvgr. kæmi, eru fjarstaddir. Ég vil því taka undir þær óskir, sem fram hafa komið um það, að hæstv. forseti sjái sér fært að fresta frekari umr. um þetta mál í dag.