31.03.1943
Neðri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að viðhafa nema örfá orð til viðbótar ræðu minni hér í gær, en hv. þm. Mýr. færði hér nokkur atriði, sem ég þarf að víkja að. Hann gaf í skyn, að verið væri að knýja málið fram með því að afgreiða það nú, þegar þm. væru fjarverandi. Ég verð að segja, að ég álít þetta mjög ósæmilega aðdróttun, þegar málið er búið að hvíla í 11/2 mánuð, og veit ekki, hvernig hægt er að segja, að verið sé að knýja það fram. Þessu þarf því ekki að svara. Það, sem þm. segir um það, að ný tilboð hafi komið fram á þessum 11/2 mán., er ekki rétt. Eftir því, sem skýrt hefur verið frá, komu ekki nein ný tilboð fram. Hann segir, að boðið hafi verið að láta ný lönd í staðinn og nær en þessi, sem um er að ræða. Mér er kunnugt um, að að ein ný jörð var boðin, en hún gerir ekki sama gagn, og sérstaklega vil ég taka það fram, að sú jörð liggur fjær en þær jarðir, sem um er að ræða, svo að þessi röksemd fær ekki staðizt. Þá sögðu frsm. minni hl. og þm. Mýr., að það væri fjarstæða og rökvilla, að bæjarfélagið þyrfti endilega að fá þær jarðir inn í lögsagnarumdæmi sitt, þar sem hann sækti hlunnindi sin til. Ég bendi aðeins á eina viðbótarástæðu, og hún er sú, að verkfræðingar telja, að vatnsbóli bæjarins sé stofnað í stórkostlegan voða með því, að leyfðir séu sumarbústaðir á því svæði. Hv. )nn. Mýr. seildist vestur á Snæfellsnes og talaði um það land, sem vikurinn væri tekinn úr. Eftir hans skoðun á þá að innlima Snæfellsjökul, því að þaðan er vikurinn tekinn. Ég held, að ekki þurfi að eyða orðum um þetta. Ég held, að rökvillurnar hjá þessum mönnum, bæði þegar þeir segja, að Reykjavíkurbær heimti inn í lögsagnarumdæmi sitt öll þau lönd, sem hann sækir hlunnindi til, t.d. Grímsnes og Grafninginn, þar sem Sogsvirkjunin er, — og með tilliti til þeirrar stórkostlegu hættu, sem talin er búin vatnsbóli bæjarins —-, þurfi ekki svara við.

Hv. þm. Mýr. talaði um, að samningum hefði verið slitið af hendi Rvíkur, en eins og ég tók fram í fyrstu ræðu minni, strönduðu samningar á hinu gífurlega háa verði Grafarholts, sem útilokað var fyrir bæinn að ganga að, nema ef matsnefndin, sem gert er ráð fyrir, felldi þann úrskurð, en kaupverðið átti að vera 600 þús. kr. Að því er snertir verðið, vildi hv. þm. Mýr. halda því fram, að svipað mætti segja um Korpúlfsstaði og þær jarðir, sem bærinn festi kaup á með þeim, að fyrir þá hefði verið goldið margfalt verð. Grafarholt er að fasteignamati 27 þús. kr. og átti að seljast fyrir 600 þús. Korpúlfsstaðir eru að fasteignamati 300 þús. kr., en auk þeirra voru fleiri jarðir í söluverðinu, sem var 18000 kr., svo að verðið hefur ekki verið meira en fjórfalt fasteignamatsverð og er ekki sambærilegt við verð Grafarholts, sem átti að vera tvítugfalt. Hv. þm. Mýr. sagði, að svo væri í pottinn búið, að bærinn fengi Grafarholt aldrei fyrir minna en 600 þús. kr. Það má vel vera, að þeim, sem að þessu standa, hafi tekizt að búa svo í pottinn, að jörðin fáist aldrei fyrir minna. Um það skal ég ekkert segja.

Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt, að andstæðingar þessa frv. gerðu þetta af fjandskap við Rvík. Þetta hef ég ekki sagt, Ég sagði, að ég skildi vel sjónarmið þeirra, sem verið er að taka þetta af, en að hagsmunir hinna fáu yrðu að víkja fyrir hagsmunum almennings.

Um forkaupsréttarákvæðið skal ég ekki segja. Um það verður að bíða eftir úrskurði forseta. Skaðabótarákvæði er ekki í frv., vegna þess að það er umdeilt, hvort Mosfellshreppur hafði forkaupsrétt, vegna þess að hreppurinn vildi ekki á sínum tíma ganga inn í kaupin. Þetta er umdeilt lögfræðilegt atriði, sem ég skal ekki segja um. Ef forkaupsrétturinn er til, kemur það til athugunar, hvort hann nýtur sömu verndar og eignarrétturinn, og kemur það til mats dómstólanna. Hitt kemur ekki til mála, að vísa málinu frá. Ég vil minnast á annað frv., sem ekki hefur komið til mála að vísa frá. Það er frá hv. þm. Borgf. og er um það að drepa alla minka á landinu. Ef þetta yrði að l., yrði að bæta minkana, og það hefur ekki komið til orða að vísa málinu frá. Ég vil benda á þetta sem hliðstæðu, því að í hvoru tveggja frv. er gert ráð fyrir að bæta, en þó er meiri ástæða til að vísa minkafrv. frá, þar sem þar er um skýlausan skaðabótarétt að ræða, en hér er það vafi.

Frsm. minni hl. minntist á, að málið væri illa upplýst og illa undirbúið. Ég þarf ekki að svara þessu. Ég hef bent á það, að grg. og álit um málið er ýtarlegri en gerist. Það er aðeins eitt, sem ekki er upplýst, og það er, hve mikill fjárhagslegur hnekkir þetta er fyrir Mosfellssveitina, en eins og ég sagði áður, er gert ráð fyrir, að fjárskipti fari fram, og þá upplýsist þetta, þótt ekki sé hægt að leggja það fram á þessu stigi málsins. Það er sjálfsagt rétt, að þetta sé mikill fjárhagslegur hnekkir fyrir sveitarfélagið. Það er ekki nýtt, að sveitarfélögin verði fyrir því. Það er algengt, að kauptún eða þorp vaxi upp, og þegar þau eru orðin stór, eru þau gerð að sérstökum hreppi. Vitaskuld er það stórkostlegur hnekkir, þegar búið er að nema burt aðaltekjustofninn, en þó er þetta gert, og það er það sama, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég skal minnast á eina röksemd, sem hv. frsm. er að belgja sig upp með. Það er, að þetta sé afleiðing kjördæmamálsins. Þeir sjá kjördæmamálið á öllum málum, og nú á það að vera afleiðing þess, að lagt er út í þessa svívirðilegu herferð á hendur nærsveitunum. Þetta stangast nokkuð við kenningar Framsfl., að það sé brýn nauðsyn fyrir kaupstaðina að hafa nægilegt af ræktanlegu landi. Nú vilja þeir ekki, að Rvík hafi þetta. En ég vil benda þeim á, að eftir 15 ára viðleitni þessa flokks til að stöðva flóttann úr sveitunum, sem hefur tekizt svo vel, að íbúar Rvíkur hafa allt að því tvöfaldazt, er það alveg nauðsynlegt, að kaupstaðirnir fái land til ræktunar, og eins og búið er að benda á, liggja stöðugt fyrir umsóknir um land, m.a. um erfðafestulönd, sem bærinn getur ekki fullnægt vegna vöntunar á ræktanlegu landi. Ég vil benda á það, að fyrir 12 árum, eða 1931, var hér mikil deila um lögsagnarumdæmi Rvíkur, sem endaði með því, að umdeildur sveitarhluti var innlimaður í Rvík, en á þessu þingi var Framsfl. í hreinum meiri hl.

Ég þarf ekki að svara fleiru og býst ekki við að taka oftar til máls í þessu máli. Það má vera, að við 3. umr. málsins náist samkomulag um brtt., hvort sem þær eru frá hv. þm. Mýr., 1. þm. Árn. eða öðrum. Það er ekki svo að skilja, að við krefjumst þess, að frv. verði samþ. óbreytt, heldur erum við tilbúnir til að taka til athugunar þær brtt., sem möguleikar eru til, að samkomulag náist um.