19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurður Kristjánsson:

Ég skal vera stuttorður. Hv. þm. V: Sk. sagði, að þeir, sem réðu verðlagi á landbúnaðarafurðum, hefðu sífellt verið að bjóða fórnir, en hann virðist vera ókunnugur þessum málum. Þetta var þannig, að verðlag á landbúnaðarafurðum hækkaði á meðan lögin um gerðardóm voru að koma út og svo voru landbúnaðarvörur teknar út úr lögunum um dómnefnd, svo að það er ekki undarlegt, þó að þeir, sem standa fyrir sölu landbúnaðarafurða, geti stært sig. En það er bara ekkert undarlegt, þó að þeir, sem kaupa landbúnaðarafurðirnar, séu ekki ánægðir.

Ég get ekki verið að eltast við útúrsnúninga hv. þm. V.-Sk. Hann segir, að ég og hv. 2. þm. Eyf. viljum ekki lögfesta annað verð en verð landbúnaðarafurða. Ég er búinn að segja það, að ég vil ekki, að annað sé lögfest en það, sem samkomulag er um fyrirfram, til þess að tryggja, að lögin verði haldin. Ég get heldur ekki verið að eyða orðum að þeim ummælum hans, að það ætti ekki að hafa leyfi til að tala um landbúnaðarmál. Ég geri ráð fyrir, að ég hafi eins mikið vit á landbúnaði og þessi hv. þm. Sú menntun, sem ég hef fengið, er eingöngu á sviði landbúnaðarins, og ég starfaði að landbúnaði til 40 ára aldurs. Það, sem skilur okkur að í landbúnaðarmálum, er það, að ég lít á þau frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, en hann frá atkvæðaveiðasjónarmiði.