07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér er til 3. umr., hefur verið mikið rætt á Alþ., bæði hér í þessari hv. d. og í Ed. Þó að ég sé þm. fyrir það kjördæmi, sem hér á hlut að máli, hef ég ekki haft mig þar mikið í frammi, e n ég boðaði það við 1. umr. málsins, að ég mundi leita hófanna um sættir, og mér er ljúft að geta tilkynnt, að þær hafa nú tekizt, milli Mosfellshrepps annars vegar og bæjarstjórnar Rvíkur hins vegar. Þess vegna flytjum við hv. þm. Mýr. hér saman á þskj. 672 brtt., sem munu, ef þær ná fram að ganga, fullnægja þeim vilja, sem fram kemur í því samkomulagi, sem gert hefur verið milli Reykjavíkurbæjar og Mosfellshrepps.

Aðalatriðið, sem kemur fram í sættinni, er það —, að þegar þessar brtt. hafa verið samþ., er ætlazt til, að í hreppnum verði eftir allt það land, sem áður heyrði undir Lágafell, ásamt Varmá, en af jarðeignum Thors Jensens verði í lögsagnarumdæmi Rvíkur Korpúlfsstaðir og Lambhagi. Þá er og bætt imi í frv. jörðinni Reynisvatni. Þetta eru aðalbreyt., og frá sjónarmiði hreppsins ákaflega miklu aðgengilegri en frv. upphaflega var.

Hreppurinn hefur ekki óskað eftir forkaupsrétti að Korpúlfsstöðum, en hins vegar að Lambhaga, og er hann ekki innlimaður í lögsagnarumdæmi Rvíkur. Og þótt það sé kannske rétt, að það sé bitamunur en ekki fjár, þá hefur hreppurinn ekki talið rétt að láta samkomulagið bresta á því atriði. Þá eru fyrirmæli um, að að 10 árum liðnum skuli sá hluti Grafarholtslands, sem Rvík nú ekki fær, lagður undir lögsagnarumdæmi bæjarins. Þetta er gert með sérstakri hliðsjón af því, að þar dvelur nú gamall landskunnur heiðursmaður, sem hefur lengi búið þar og kann betur við að dvelja í þeim hreppi, sem jörðin hefur tilheyrt, þessi fáu ár, sem hann kann að eiga eftir að dvelja á meðal okkar. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu, að jörðin falli þá, — eða síðar, ef gamli maðurinn lifir lengur —, undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Hins vegar liggur það milli hluta, hvort Rvík muni telja nauðsynlegt að fá þá eignarheimild yfir þessu landi, en um það hef ég engar sannanir.

Fyrirmæli frv. eru óviðeigandi, og það er ekki tilgangur Alþ. að leggja kvaðir á bóndann í Grafarholti, án þess að bærinn taki á sig skyldur á móti. Ég veit, að bóndinn í Grafarholti er ekki hræddur við að eiga jörð sína, ef hann ræður, hvenær sala fer fram, og ef hann er skyldaður til þess að selja jörðina, þá á Reykjavíkurbær ekki að ráða hvenær hann gerir það. Hér er svo smávægileg brtt. við 3. gr. Það er 3. töluliður b. á þskj. 672, að í stað „Norðurlandsbraut“ í niðurlagi greinarinnar komi: „Vesturlandsbraut.“

Svo er 4. tölul. á sama þskj. við 4. gr., um, að greinin falli niður og greinatalan breytist samkv. því.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar. Ég tel hér um að ræða allsherjarsætt, þar sem báðir aðilar hafa gert samning sin á milli. — Ég veit, að innan bæjarstjórnar er samkomulag um þetta, því að ég hef rætt bæði við borgarstjórann og hv. 8. þm. Reykv., en þeir hafa samið í umboði meiri hl. bæjarstj.

Svo vona ég, að hv. Alþ. sjái sér fært að verða með þessum brtt., sem fram eru komnar.