15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. — Það má gera ráð fyrir, þar sem frv. þetta er flutt af n., að því verði ekki til n. vísað, en ég vildi þó mega vænta þess, að n. sæi sér fært að athuga það frekar en orðið er, ef tilefni gæfist til, þó að því sé ekki sérstaklega til hennar vísað.

Ég vil á þessu stigi málsins spyrjast fyrir um tvennt hjá n. Í fyrsta lagi, hvort fyrir hafi legið eða n. verið kunnugt um nokkurt uppkast að væntanlegri reglugerð samkv. hinum nýju l., ef frv. verður samþ. l. eins og þessi eru að ýmsu leyti óákveðin, l. um skóla eru það oft að því er við kemur því, hvað kennt skuli og hversu mikið í hverri námsgrein. En um leið og menn gera sér grein fyrir, hvernig stofnunin á að verða, skiptir miklu máli að hafa hjá sér reglugerð, sem formælendur málsins séu búnir að koma sér niður á. Mér skilst eftir því, sem fram kemur í frv., að ætlunin sé að gera kennaranámið að árafjölda hliðstætt menntaskólanámi stúdenta. Gert er ráð fyrir, að nemendur hafi áður í tvo vetur stundað nám í gangfræðaskóla. Það er vitanlegt, að eftir 6 vetra nám ætti að mega gera töluvert miklar kröfur til manna, og í því sambandi væri æskilegt að vita, hvað fyrir formælendum málsins vakir. Það hefur komið fram í blöðum, og að ég hygg einhversstaðar í grg., að um undirbúningsdeild væri að ræða við kennaraskólann með bekkjafjölgun. Mér virðist það ekki vera svo. Að vísu er aldurstakmarkið fært í 17 ár, en þeir, sem koma í 1. bekk, eiga að hafa þann undirbúning, sem nú er áskilinn til gagnfræðaprófs. og kannske meiri. Þess vegna er um lengra framhaldsnám að ræða, en ekki undirbúningsd.

Hitt, sem ég vildi spyrja um, er, hvort n. er kunnugt um, hvort hugsað hefur verið fyrir húsnæði handa skólanum. Það er augljóst, ef kennaraskólinn verður 4 vetra skóli, kemst hann ekki af með það húsnæði, sem hann hefur nú. Telur n., að yfirleitt sé hægt að framkvæma þá breyt., sem farið er fram á, nema með auknu húsnæði? Er þá ekki ástæða til, að upp í frv. séu tekin sérstök ákvæði um byggingu skólahúss og jafnframt ákveða þeirri byggingu stað? Það er ekki tekið fram í frv., hvar skólinn skuli vera, og það er engan veginn sjálfsagt mál, að skólinn yrði áfram í Rvík. Ég mundi telja það að ýmsu leyti heppilegra, ef hann væri á öðrum stað. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, en vil aðeins mælast til, að hv. n. svari fyrirspurnum mínum.