19.03.1943
Neðri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. — Ég lýsti yfir því við 1. umr. þessa máls, hve vel þetta frv. var undirbúið og hvaða aðilar stæðu að því og hefðu fyrir sitt leyti samþykkt, að það væri lagt hér fram á þessu þingi. Ég hafði búizt við því, að um þetta mál yrðu nær því engar umr. og brtt. við frv. mundu ekki koma fram. En nú hafa komið fram tvær brtt. við frv., sem menntmn. tók til athugunar á fundi í gær. Mér þykir rétt, áður en frv. er afgreitt út úr hv. d., að fara um það nokkrum orðum.

Þegar fræðslul. voru sett árið 1907 og l. um Kennaraskóla Íslands, voru mörkuð tímamót í menningarmálum þessarar þjóðar, Þó að það skref væri ákaflega mikils vert og fullkomlega tímabært, þá er svo langur tími síðan og þróunin á þeim 30–40 árum hefur orðið svo ör, að ekki er óeðlilegt, að l., sem þá voru sett, þurfi að endurskoða. L. um fræðslu barna hafa líka verið endur skoðuð oftar en einu sinni, síðast árið 1936, og var þeim þá gerbreytt. Um l. um Kennaraskóla Íslands er hins vegar öðru máli að gegna. Þau hafa ekki verið endurskoðuð frá því þau voru sett árið 1907, en aðeins einu sinni verið gerðar á þeim smábreyt. Og sá viðauki fól í sér eingöngu annars vegar þá smábreyt., að taka skyldi upp enskukennslu við skólann og hins vegar að lengja skólatímann úr 6 mánuðum í 7 mánuði á vetri hverjum.

Þegar þessi l. voru sett, voru aðstæður að verulegu leyti ólíkar því, sem nú er orðið í landinu. Þá var byggðin meiri í sveitum heldur en í kaupstöðum og kaupstaðirnir smærri og færri heldur en nú. Og þá voru ástæður á heimilum víðs vegar um land töluvert á annan veg en nú er orðið. Þá var skólaskyldan miðuð við 10 ára aldur og gengið út frá því, að heimilin önnuðust fræðslu barnanna upp að því aldursskeiði. En eftir því sem tímar liðu kom það í ljós, að heimilin áttu æ erfiðara með að fullnægja þeirri skyldu, sem þannig var á þau lögð. Og fyrir 1930 var heimild veitt til þess að færa skólaskylduna niður í kaupstöðum, og var sú heimild notuð þegar í stað og skólaskyldan færð niður í 7 ára aldur. Við þetta skapaðist nokkuð nýtt viðhorf fyrir kennarastéttina. Þá kom til sögunnar ný grein, smábarnakennslan. Og þegar búið var að taka 20–30 börn saman í bekk til að kenna þeim lestur, þá var ekki hægt að knésetja hvert barn og kenna því að stafa, en breyta varð kennsluaðferð, svo að samsvaraði kröfum tímans. Forráðamenn kennaraskólans reyndu að haga kennslunni í samræmi við það, sem nauðsynlegt var vegna þessara aðstæðna, því að það hefur verið og er hlutverk kennaraskólans að búa nemendur hans á hverjum tíma svo vel sem tök eru á undir það að geta innt kennslustarf af hendi. Skólastjórinn og starfsmenn kennaraskólans fóru þá leið að fá kennslumálarh. eftir 1930 til að breyta reglugerð skólans verulega og reyna á þann hátt að ná því marki að samræma starfsemi skólans þeim kröfum, sem nauðsynlegt var að uppfylla. Þessi breyt. á reglugerðinni var gerð 1933 og gekk í gildi 1934. En eftir að þessi breyt. var gerð, hefur ýmislegt það gerzt í löggjöf, sem einnlitt breytir kröfunum og að verulegu leyti eykur kröfurnar á hendur kennaraskólanum. Það má á það minna, að 1936 voru fræðslul. endurskoðuð. Þá var þeim breytt mjög verulega, þá var t.d. skólaskyldan um allt land færð niður í 7 ára aldur og þar með ákveðið, að hver kennari skyldi vera við því búinn að taka að sér smábarnakennslu jöfnum höndum og aðra barnafræðslu. Þá voru einnig gerðar strangari kröfur til náms barna í handavinnu og íþróttum heldur en áður höfðu verið. Nú er það svo, að víðast úti um land er það einn og sami kennari, sem verður að inna af hendi kennslu í öllum greinum, sem krafizt er að kenndar séu í barnaskólum. Og þar sem ekki er nema einn kennari við barnaskóla, og svo er í mörgum skólahverfum úti um land, og sums staðar ekki nema tveir, og þar sem hert var á kröfum til íþróttakennslu með l. frá 1940, þannig að ákveðið er, að í öllum skólum skuli vera iðkaðar íþróttir, og svo fyrir mælt, að öll börn á landinu skuli læra sund og hafa leyst af hendi prófraun í þeirri námsgrein, og gert er ráð fyrir í þeim l., að þar sem sundlaug er svo nærri akólastað, að hægt sé jafnframt öðrum greinum að kenna sund, þá skuli það gert, þó að það sé ekki tekið fram, að kennarar barnaskólanna skuli kenna þessa grein, en þar sem ekki er nema um einn kennara að ræða, þá verða þetta kröfur á hendur barnakennarastéttinni. Þegar þessa alls er gætt, þá liggur það ljóst fyrir; að kröfur á hendur kennarastéttinni hafa aukizt samfara þróuninni í þessum málum undanfarin ár. Og þessar kröfur hafa verið gerðar vegna breyttrar aðstöðu og knýjandi nauðsynjar og með samþykki Alþingis og stundum beint fyrir atbeina þess. Og nú er það svo, að af hálfu jafnvel heilla þingflokka hafa komið óskir um það, að fræðslul. yrðu endurskoðuð og hert á ýmsum ákvæðum þeirra, sem er lofsvert, því að þörf er á, að alþýðufræðslunni í landinu sé komið í sem hagkvæmast horf.

En auknar kröfur um störf kennara hafa í för með sér, að það verður að heimta af þeim aukið nám. Og þegar námsgreinum fjölgar í barnaskólum frá því, sem upphaflega var ákveðið, leiðir það af sjálfu sér, að það er ekki hægt að kenna þær að nokkru gagni nema með því að rýra þann kennslutíma, sem notaður var áður til þeirra námsgreina, sem sérstaklega voru kenndar. Kennaraskólinn hefur á hverjum tíma reynt að gera sitt bezta til þess að búa kennaraefnin undir kennarastarfið. Og skólinn hefur reynt að laga starfshætti sína í samræmi við það. Þetta hafa kennarar sjálfir fundið, að nauðsynlegt var. Þeir hafa á ýmsan hátt barizt fyrir því að fá málum sínum komið í betra horf en áður var, og hafa þá farið fram á að fá bætt launakjör sín, og e.t.v. er hv. þm. sá þáttur úr baráttu þeirra hugstæðastur.En á það verður að minna, að kennarar hafa líka barizt fyrir því að bæta sína eigin menntun með því að semja kennslubækur og með því að leggja á sig utanferðir, oft með lítil efni. Nú er svo komið, að allir aðilar, sem þessum málum eru kunnugastir og að þessu vinna, hafa tjáð sig tiltölulega ánægða með þá lausn á þessu máli, sem frv. það, er hér liggur fyrir, felur í sér. Og eins og ég hef áður lýst yfir í þessari hv. d., er frv. þetta undirbúið af starfsmönnum kennaraskólans, sérstaklega skólastjóranum, og um það fullt samkomulag fræðslumálastjórnarinnar.

Sú breyting, sem á skólanum á að verða samkvæmt þessu frv., er í því fólgin, að námið verði aukið að vissu leyti, ekki þó þannig, að námsgreinum verði fjölgað, heldur svo, að kennsla í sumum námsgreinum verði fyllri en verið hefur.

Á þskj. 563 hefur komið fram brtt., þar sem lagt er til, að gagnfræðapróf frá hvaða gagnfræðaskóla landsins sem er verði gert að fullnægjandi skilyrði til upptöku í 1. bekk kennaraskólans, eða þannig má að minnsta kosti túlka brtt. Hins vegar hefur menntmn. talið rétt að taka af öll tvímæli og borið fram brtt. á þskj. 568, sem á að fullnægja öllum óskum, er fram hafa komið í þessu efni. N. telur eðlilegt, að Gagnfræðaskólar hafi þann rétt, sem þar ræðir um, að hún vill láta það vera tvímælalaust, að gagnfræðapróf nægi til upptöku í kennaraskólann.

Þá er brtt. á þskj. 559, ákvæði til bráðabirgða, þar sem lagt er til, að fræðslumálastj. geri ráðstafanir til að útvega kennaraskólanum húsnæði í sveit. Menntmn. lítur svo á, að ekki liggi fyrir að taka afstöðu til þeirrar till. í sambandi við þetta frv., þar sem ekki eru í frv. ráðgerðar neinar efnislegar breytingar á skólanum eða skólahúsinu. Því hefur raunar verið varpað fram, að breyting sú, sem ráðgerð er í frv., leiði það af sér, að smiða verði nýtt skólahús. Það er að vísu rétt, að skólahúsið er gamalt timburhús. en því er sæmilega við haldið, og er ekki annað sjáanlegt en að það geti enzt um sinn. Á það má t.d. benda, að bókasafn skólans er í mjög lélegum húsakynnum, og lesstofan er með minnsta móti. Við þetta hefur þó verið notazt í 30 ár, og svo mun verða enn um hríð. Skólann vantar einnig íþróttahús, og hefur íþróttastarfsemi hans orðið að fara fram annars staðar í bænum. Sama er að segja um eðlisfræðikennsluna. Hún hefur að nokkru leyti farið fram í menntaskólanum. En í sambandi við þetta frv. er ekki um það að ræða að reisa hús yfir kennaraskólann, enda hefur hann enn nægt húsnæði til að koma fyrir þessum eina bekk, sem gert er ráð fyrir, að við verði bætt.

Ég skal að lokum vekja athygli á því, að fyrir vangá hafa fallið niður nokkur orð úr brtt. menntmn. á þskj. 568. Hef ég komið fram með skrifl. leiðréttingu, sem ég bið hæstv. forseta að taka til greina.