06.04.1943
Efri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Þetta frv. er komið frá menntmn. Nd., en er undirbúið til hennar af fræðslumálastjóra. Þetta mál hefur verið undirbúið í nokkur ár, bæði af kennurum kennaraskólans og fræðslumálaskrifstofunni, og það hefur nokkrum sinnum verið tekið upp á kennaraþingum og rætt þar. Aðalatriði þessa frv. er það, að lengja skuli nám í kennaraskólanum um eitt ár. Það er gerð ýtarleg grein fyrir þessu í grg., sem fylgdi frv. frá menntmn. Nd. Ef hv. þm. hafa lesið þá grg., þá sjá þeir, hversu mikil nauðsyn hlýtur að vera á því að fá þessu breytt í það horf, sem hér er farið fram á. Er í því að kennaraskólinn var stofnaður, hafa orðið á honum nokkrar breytingar. Í fyrsta lagi var honum breytt 1924 með lagabreyt. Þá var tekið upp enskunám og námstíminn lengdur um einn mánuð á vetri. Síðari breyt. var gerð árið 1933, þá voru inntökuskilyrðin þyngd og aukin kennsla í uppeldisfræði og fleiri greinum, og síðan hefur enn verið aukin kennsla í skólanum, bæði handavinnukennsla o.fl. Söngur hefur verið gerður að skyldunámsgrein, og auk þess hafa komið fram till. um að auka íþróttanám. Ég og menntmn. Ed. hef átt tal við fræðslumálastjóra og skólastjóra kennaraskólans um þetta mál, og hafa þeir tjáð mér, að þessi breyt. væri orðin óhjákvæmileg vegna þess, hve námsgreinum hefur fjölgað, og annars verið aukinn kennslutími í öðrum einstökum námsgreinum, þannig að ekki er hægt lengur að komast yfir þessa kennslu, nema því aðeins, að kennslutíminn sé aukinn, a.m.k. eins og hér er farið fram á, um eitt ár. Í hv. Nd. fékk þetta frv. mjög greiða afgreiðslu, og var aðeins ein lítilfjörleg breyt. gerð á því, sem í rauninni er til bóta, og hefur meiri hl. menntmn. Ed. ekki séð ástæðu til þess að koma fram með neina brtt. við frv. og leggur til, að það verði samþykkt óbreytt. Hins vegar hefur minni hl. n., hv. þm. S.-Þ., komið fram með sérstakt nál. og leggur til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá. Rök hans eru aðallega þau, að sú breyt., sem stefnt er að með þessu frv., sé ekki nægileg, — hann vill lengja námstímann enn betur. Þess má geta í þessu sambandi, að undanfarin ár hafa oft komið fram till. um það, að krafizt verði stúdentsprófs fyrir kennaraefni, og hefur þetta mál verið rætt á kennaraþingum undanfarið og jafnvel hér á Alþingi. En ég held, að þeir menn, sem um þessi mál hafa fjallað, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri alls ekki tími til þess kominn að krefjast svo margra ára menntunar fyrir kennaraefni, sem eiga síðan að taka upp farkennslu úti um sveitir landsins, við þau launaskilyrði, sem kennarar eiga þar við að búa. Því að auðvitað yrði því erfiðara fyrir þessi kennaraefni að búa sig undir slæm launaskilyrði, sem lengri tíma hefur verið varið til námsins. Það má geta þess, að nemendum við háskólann hefur verið leyft undanfarin ár að stunda nám við kennaraskólann einn vetur, en hafa síðan fengið að ljúka prófi í kennaraskólanum. Í grg. er sagt, að 20 síðustu ár hafi 40 stúdentar lokið þar kennaraprófi, en af þessum fjörutíu mun ekki vera nema fjórði hver maður starfandi við barnakennslu. Þannig er þá reynslan af þessu langa námi. Sú millileið, sem hér er farin, virðist því vera hin æskilegasta, þ.e. að lengja skólatímann um eitt ár. Það er enn fremur í grg. vitnað til þess, að það hafi farið fram athugun á endurbótum kennaramenntunar á Norðurlöndum og það hafi þar verið rætt um að lengja námstímann og heimta stúdentspróf fyrir kennara. En á fjölmennum fundi kennaraskólastjóra, sem haldinn var í Hindsgavl sumarið 1936, fór fram atkvgr. um þetta atriði, og greiddu allir atkvæði á móti þeirri breyt.

Ég vildi leggja sérstaka áherzlu á að flýta afgreiðslu þessa máls í þessari hv. d., enda ætti að vera auðvelt úr þessu að afgreiða málið. Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að hv. dm., eftir að þeir hafa kynnt sér málið, verði sammála um það, að þessi ráðstöfun sé réttmæt, og samþykki því þetta mál eins og það liggur fyrir.