07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Gísli Jónsson:

Það er eitt orð í 5. gr., sem ég get ekki fellt mig við, að Alþingi láti frá sér fara óbreytt, það er orðið „lýti“, þar sem m.a. segir, að almenn inntökuskilyrði í skólann séu þau, að nemandi hafi engan næman kvilla eða önnur lýti. Mér skilst, að samkvæmt þessu ákvæði sé engum manni heimill aðgangur að skólanum, ef hann hefur líkamslýti. Í sambandi við þetta vil ég minna á Morten Hansen. Hann var kýttur í herðum, en ég tel engan vafa á því, að þeir hefðu farið mikils á mis, sem nutu kennslu hans, ef honum hefði verið bægt frá starfi sínu af þeim orsökum, eins frábær kennari og hann var.

Ég hef farið nokkuð rækilega í gegnum þskj. í þessu máli, og ég tel ekki rétt, að ekki megi breyta neinu í frv. frá því, sem nú er, og vitna ég þar um til gildandi laga og reglugerða fyrir aðra skóla. Ég leyfi mér því að flytja skrifl. brtt. við frv., sem ég les hér, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Í stað 5., 6., 8. og 11. gr. kemur ný gr., sem verður 8. gr., svo hljóðandi:

Ráðuneytið setur reglugerð í samráði við fræðslumálastjóra, um inntökuskilyrði, próf, umsjón og annað, er að rekstri skólans lýtur.

2. 7., 9., 10 og 12. gr. verða 5., 6., 7. og 9. gr.“ Allar þessar greinar heyra undir það, sem ráðh. mundi setja reglugerð um, og tel ég eðlilegt, að reglugerðin sé sett af ráðuneytinu og yfirumsjón skólans heyri undir það, en ekki fræðslumálastjóra, eins og skýrt er þó tekið fram í 11. gr.

Ef þessar brtt. verða felldar, þá mun ég flytja brtt. við 3. umr. þess efnis, að orðið „lýti“ falli burt.

Sé ég svo ekki ástæðu til frekari umr. í bili.