07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Eiríkur Einarsson:

Það er nú búið að ræða þetta mál af frsm. menntmn. og öðrum, og hef ég ekkert að athuga við það. Ég stóð aðeins upp vegna eins atriðis í ræðu hv. þm. Barð. Hann hefur nú flutt hér brtt., en ég kem ekki inn á þær, heldur vil ég minnast á ágallann á orðalagi 5. gr., sem hann gerði að umræðuefni. Eftir þeirri meiningu, sem hann leggur í orðalagið, og ef það á að skýrast stranglega, þá er ég honum sammála um, að ákvæðið eigi ekki heima í l. óbreytt. Við gerðum að vísu enga brtt. við þetta í n., en það er oft látið eiga sig óbreytt, sem ætti þó að breyta, ef fylgt væri strangri málhreinsun.

En mér finnst vera hægt að lagfæra þetta óljósa orðalag með því að skjóta aðeins einu orði inn. Ef í gr. stæði „eða önnur þau lýti“, þá væri fram komin ákveðnari skilgreining á því, sem við væri átt. Með svo breyttu orðalagi væri fyrirbyggður sá misskilningur, að verið væri að útiloka menn frá námi vegna líkamslýta.

Ég vildi aðeins segja þetta, að tekið sé upp í gr. þetta eina innskotsorð.