08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Gísli Jónsson:

Hv. 3. landsk. þm. hefur líklega ekki haft tíma til að kynna sér málið. Ef hann hefði gert það, veit ég, að hann hefði skilið jafneðlilegan hlut og hér ræðir um.

Aðalatriðið er, að nemendurnir séu ekki haldnir smitandi sjúkdómum, en þótt þeir séu bæklaðir líkamlega, skiptir það engu máli.

Þá er á það að líta, að sumir fara í kennaraskólann með það fyrir augum að stytta sér leið gegnum menntaskólann, því að margir hafa ekki efni á að ganga í gegnum menntaskólann frá byrjun. Ég þekkti bæklaðan pilt, sem fór þessa leið og er nú kominn í háskólann. Menntaskólann tók hann á mjög stuttum tíma, og hefur honum gengið ágætlega. Vil ég nú spyrja hv. þm., hvort þeir áliti rétt að útiloka menn frá námi, þótt eitthvað sé athugavert við útlit þeirra. Þar getur margt komið til greina. Ég get hugsað mér, að verið gæti að hv. 7. landsk. yrði dæmdur of stuttur eða of líkur Japana.