11.03.1943
Neðri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

145. mál, tollskrá o.fl.

Finnur Jónsson:

Það er um þetta frv. að segja, að nokkrir menn úr stjórn sölusambands hraðfrystihúsanna hafa rætt við sjútvn. þessarar hv. d. og bent á, að þetta frv. mundi ekki verða til að bæta úr fyrir hraðfrystihúsunum, þó að það næði fram að ganga, þar eð tollur á tilsniðnum pappakössum er svo hár, þótt Kassagerðin fengi þær ívilnanir, er felast í þessu frv., þá telja þeir ekki, að hraðfrystihúsin nytu nokkurs í við það.

Kassagerðin hefur nú fengið nýjar vélar og hefur nokkurs konar einokunaraðstöðu, og eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur af trékössunum, þá telja þeir ekki betur farið, þótt þetta frv. væri samþ.

Það hefur verið bent á það, að samkv. tollskránni er 30–50% verðtollar á pappakössum en 8% á óunnum pappa. Mismunur þessara talna er hagnaður Kassagerðarinnar eða það, sem hún gæti tekið. Það hefur sýnt sig, að það hefur borgað sig að flytja inn efni í trékassana og búa kassana til í landinu. Þeir hafa einnig reynzt betur. Gera má ráð fyrir, að það sama verði upp á teningnum með pappakassana.

En vegna einokunaraðstöðu fyrirtækisins, sem fékk hv. fjhn. til að flytja þetta frv., vildi ég skjóta því að n. að athuga þetta mál nánar með hliðsjón af hagsmunum hraðfrystihúsanna.