15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

145. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar og athugað þau erindi, sem borizt hafa. Nú hagar svo til, að tollur af tilbúnum kössum er 8%, en þegar kassarnir hafa verið smíðaðir hér heima, hefur tollurinn verið endurgreiddur. Af pappakössum er 30—50% tollur, en 8% af pappanum óunnum, sem á samkv. frv. að endurgreiðast, ef pappinn er notaður til fiskumbúða. Nú er það svo, að í tollskránni er á þeim límböndum, sem notuð eru á þessa kassa, 30% tollur, en samkv. frv. endurgreiðast allir tollar af þessum límböndum, ef þau eru notuð á fiskumbúðir, svo að ef frv. verður samþ. óbreytt, gilda hin sömu hlutföll áfram á milli óunninna kassa og þeirra, sem fluttir eru inn tilbúnir, og var það tilgangur fjhn., að hlutföllin á. milli innfluttra kassa og innlendra héldust, þó að skipt væri um efni. Útflytjendur hafa hag af þessari breyt., því að pappakassaumbúðir munu vera um það bil helmingi ódýrari en trékassaumbúðir, og það virðist sanngjarnt, þegar breytt er um umbúðir og keyptar eru vélar til þess að vinna þær, séu tollal. gerð þannig úr garði, aðstaða til framleiðslunnar verði ekki verri en áður. Mér virðist útflytjendur standa vel að vígi með samninga við þetta fyrirtæki, einkum þegar aðeins um eina stofnun er að ræða og þeir geta staðið saman sem einn maður og með aðstoð hins nýja Verðlagsráðs fengið sett hámarksverð á þessa framleiðslu. Að þessu athuguðu vill fjhn. halda sér við það, að tollahlutföllin á milli óunnins efnis og tilbúinnar vöru haldist óbreytt og hinn hái tollur, sem verður að borga af límböndum, haldist, nema þegar þau eru notuð á fiskumbúðir, verði hann 8%. Af þrem aðilum, sem þetta mál snertir, eru tveir aðilar, sem mæli með því, að frv. verði samþ., án þess að gera aukakröfur þær, sem Samband ísl. hraðfrystiúsa gerir, og held ég, að ekki sé hægt að halda því fram, að till. sú. sem við í fjhn. höfum samþ., gangi á nokkurn hátt út yfir útflytjendur.