09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

145. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég þori ekki um það að fullyrða, hvað rétt er í þessum upplýsingum hv. þm. Barð. Ég veit, að hann les rétt úr tollskránni, ég hef aldrei dregið það í efa. En eftir þeim upplýsingum, sem fjhn. fékk, þá er þeirri reglu fylgt, að sá kassapappi, sem er vaxborinn annars vegar eða báðum megin, er yfirleitt settur í 8% flokkinn. Enda er mér ómögulegt að sjá, hvernig annað er hægt. Því að hvernig eiga tollayfirvöldin að segja um það, þegar þessar vörur koma, hvort þær verða notaðar utan um dósir innanlands eða fisk, sem fluttur er út ?

Um dósir er öðru máli að gegna. En um kassana hygg ég, að gildi það, að allur sá pappi, sem ætlaður er til að nota í pappakassa, sé tollaður með 8%. En að sundurliða það, til hvers á að nota þann kassapappa; hygg ég með öllu ókleift fyrir tollayfirvöldin. Ég held því ekki, að það sé ástæða af þessum sökum að samþ. brtt. hv. þm. Barð. viðkomandi pappanum. Hitt er athugandi, hvort ástæða er til þess að taka upp tollaívilnanir á dósum og slíku. En mér virðist minni ástæða vera til þess nú heldur en nokkurn tíma áður, eftir þeim upplýsingum, sem hv. þm. Barð. gefur, því að hann segir, að nú hafi tapazt 90% af markaði niðursuðuverksmiðjanna, því að alveg sé tekið fyrir erlendan markað fyrir þeirra vörur. Mér virðist augljóst, að hverjar ráðstafanir, sem gerðar yrðu viðkomandi tollum á efni til dósagerðar, þá breytti það engu um afstöðu niðursuðuiðnaðarins í landinu, meðan svo er um markaðsmöguleikana. Það er augljóst mál, að slíkt sináræði getur engu munað, ef svo er ástatt um þennan iðnað sem hv. þm. Barð. lýsir og kannske kann að reynast rétt, ég segi það ekki með fullri vissu. Það hefur gengið illa að selja niðursuðuvörur og má vera, að lokist fyrir það um tíma. En ég álít, að þetta atriði um tolla í dósaefni sé svo smávægilegt í því sambandi. að það hafi bókstaflega enga þýðingu.