09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

145. mál, tollskrá o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Hv. 8. landsk. efaði, að það væri alveg rétt, sem ég sagði um erfiðleikana á markaðsmöguleikum fyrir niðursuðuvörur. Ég held, að hv. 3. landsk. geti fullvissað sig um þetta, án þess að hafa mikið fyrir því. Það hefur verið lokað fyrir þessar verksmiðjur að selja neitt af framleiðslu sinni til útlanda siðan 1941, nema að því leyti, sem þessar verksmiðjur hafa getað selt niðurlögð hrogn í smáum stíl til Ameríku, sem eru að vísu ekki raunverulega niðursuðuvörur. En allar niðursuðuvörur hefur verið lokað fyrir sölu á til útlanda. Og þessi fyrirtæki hafa farið inn á nýjar leiðir, t.d. að sjóða niður í stórum stíl kjöt, sem þau hafa verið svo heppin að geta selt hér, með sæmilegri afkomu miðað við það að þurfa að loka fyrirtækjunum alveg. Þau hafa kannske ekki haft mikinn hagnað af sölu þeirrar vöru.

En það er ekki rétt hjá hv. 3. landsk. þm., að það sé ekki hægt að flokka pappakassana eftir því, hvort þeir eru notaðir utan um fisk eða aðrar vörur. Ég gæti sýnt úrskurð frá stjórnarráðinu, þar sem neitað er að endurgreiða toll af slíkum kössum, af því að fyrir lágu sannanir um, að þeir hefðu ekki verið notaðir til umbúða utan um útfluttan fisk.

Ég þekki það eins vel og hver annar hér í hv. þd., hve óskaplega erfiðleika við eigum við að etja hjá tollayfirvöldunum, og hv. 3. landsk. þarf ekki að kynna mér neitt í því efni. Ég álít það algerlega ranga stefnu hjá hæstv. Alþ. að gefa hér tollaívilnanir til þeirra fyrirtækja, sem lifa bókstaflega á fyrirtækjum, sem enn er verið að tolla miklu meira. Og ég trúi því ekki, að hv. 3. landsk., að fengnum þessum upplýsingum, greiði atkv. með því, að haldið sé þeirri stefnu. Mér er alveg ómögulegt að trúa því.