18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Rannsókn kjörbréfa

Hermann Jónasson:

Ég mun ekki hreyfa umr. um málið, en ég efa ekki — og vil, að það komi fram —, að þetta sé í samræmi við þingsköp, vegna þess að skv. þeirri gr., sem gerir ráð fyrir rannsókn, er þessi heimild ekki til, nema með því móti, að litið sé á vottorðið sem kæru, en það held ég, að sé ekki hægt. Í 4. gr. er svo ákveðið, að kjósa skuli n. til þess að prófa kjörbréf, sem síðar koma fram en svo, að þau verði prófuð eftir 1. gr., svo og til þess að rannsaka kosningar og kjörgengi, er þ. hefur frestað að taka gilt, og kærur yfir kosningum eða kjörgengi, er þegar eru teknar gildar. Þetta á nú að gera, en til þess þarf að liggja fyrir kæra, og hún hygg ég, að þurfi að liggja fyrir samkv. 140. gr. kosningal., áður en Alþ. kemur saman, og koma frá dómsmrn. Það er vel hugsanlegt, að kærur komi fram og þ. þyki ekki ástæða til að fresta að taka kjörbréf gilt, en vísi til rannsóknar, sem fram fari, og það mun átt við hér. Ég vildi, að þessi aths. kæmi fram.