11.03.1943
Neðri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

148. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég get verið fáorður um þetta frv. og álít, að meðferð þess þurfi ekki að koma í bág við þann fundartíma, sem er ákveðinn hér á eftir.

Þetta frv. á þskj. 500 er um lítilsháttar breyt. á þeim ákvæðum, sem nú eru í l. um gjald síldarverksmiðja ríkisins til bæja og sveita. Í l. er þetta þannig eins og kunnugt er, að verksmiðjurnar greiða hvorki útsvar né tekjuskatt, heldur tiltekið gjald, 1/2% af söluverði framleiðslu sinnar á hverju ári.

Þó er þetta þeim takmörkunum háð, samkvæmt l. frá 1941, að þetta gjald má aldrei fara fram úr samanlagðri upphæð greiddra útsvara í viðkomandi bæ eða hreppi. Það má nema allri útsvarsupphæðinni, en ekki meiru. Nú er það svo, að hingað til hefur þetta hámarksákvæði ekki haft þýðingu, þar eð útsvörin hafa verið miklu hærri viðast en þetta gjald. Á Siglufirði, þar sem flestar verksmiðjurnar eru, eru útsvörin t.d. miklu hærri en gjaldið. Þetta frv. er því af minni hálfu aðallega flutt með tilliti til verksmiðjunnar á Raufarhöfn og Presthólahrepps. Þar háttar þannig til, að komið hefur til mála að skipta hreppnum, þar eð það þykir hentugra, því að hann er bæði stór og fjölmennur, og yrði þá Raufarhöfn út af fyrir sig. Hins vegar yrði svo við skiptinguna, að Raufarhöfn bæri litinn hluta af útsvörum þeim, sem nú eru lögð á í Presthólahreppi, og myndi Raufarhöfn missa mikið af því gjaldi, sem hreppurinn í heild fær nú, það leiðir af hámarksákvæðinu um útsvörin. Þess vegna hef ég hugsað mér, að þó að hreppnum verði skipt, þá skuli miða við samanlagða útsvarsupphæð hins upphaflega Presthólahrepps, þegar verksmiðjugjaldið er reiknað út til Raufarhafnar. Fyrir verksmiðjurnar hefur þetta enga fjárhagslega þýðingu, en fyrir hreppinn gerir það skiptinguna mögulega. Ég sé ekkert á móti þessu af hálfu síldarverksmiðjanna; þeim ætti ekki að vera óljúfara að greiða gjald sitt til Raufarhafnar, þar sem þær hafa aðsetur, en til Presthólahrepps í heild.

Ég tel svo ekki þörf á að orðlengja þetta meira, en vildi aðeins vekja sérstaka athygli á því, að fyrir verksmiðjurnar skiptir þetta engu, en er aðeins til tilhliðrunar, svo að hægt verði að skipta hreppnum eins og æskilegt er.

Að öðru leyti vísa ég til grg. og óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.