09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

148. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Í grg. fyrir þessu frv. er skýrt allvel frá ástæðunni til þess, að það er fram komið, en hún er sú að auðvelda skiptingu Presthólahrepps, þannig að Raufarhöfn ásamt tveimur jörðum verði sérstakur hreppur. Í grg. skýrir flm. nánar frá nauðsyn þessa máls.

N. hefur nú athugað frv. þetta og ekki getað orðið á eitt sátt um það. Meiri hl. vill mæla með því, en minni hl. vill vísa því frá með rökst. dagskrá, og skilst mér það einkum vera af því, að honum þyki ekki liggja fyrir nógu greinileg ósk um þessa skiptingu. Viðvíkjandi þessu hef ég nýlega fengið skeyti frá oddvita hreppsins, er á heima á Kópaskeri, og verður ekki í hinum tilvonandi Raufarhafnarhreppi. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Óska eindregið eftir frumvarpi Gísla Guðmundssonar um breyting á síldarverksmiðjulögunum nái fram að ganga til þess gera mögulega skiptingu Presthólahrepps.

Oddviti Presthólahrepps.“

Með skeyti þessu er staðfest skýrsla flm. í grg. um það, að hreppsn. líti svo á, að ákvæðin í síldarverksmiðjulögunum um útsvör verksmiðjanna standi í vegi fyrir skiptingu hreppsins.

Mér virðist því, að mótbára minni hl. sé fallin með þessu skeyti.

Þá er að líta á nauðsyn Raufarhafnar á þessari skiptingu. Ég skal upplýsa það eftir góðum heimildum, að ræktunarástand þorpsins er óviðunandi. Veldur þar nokkru um, að núverandi hreppur er tregur til ræktunar á þessum stað. Aftur á móti hefur Pálmi Einarsson ráðunautur rannsakað ræktunarskilyrðin þarna, og hefur sú rannsókn leitt í ljós, að nóg ræktunarland er fyrir hendi, en þarf mikla framræslu, og verður því að stofna til samtaka um framkvæmd þess verks. Eins og nú er, hefur Presthólahreppur ekki fundið ástæðu til að beita sér fyrir þessum framkvæmdum, er íbúar Raufarhafnar telja sér nauðsynlegt að fá fljótt og vel af hendi leystar, þar eð aðalatvinna þorpsbúa varir ekki nema svo stuttan tíma úr árinu, að þeir telja sér jafnframt nauðsyn að öðrum atvinnuvegi til að byggja á. Og þar sem land er nægilegt og gott, þótt vinnsla þess kosti nokkuð, sjá allir, hver nauðsyn er að kippa þessu í lag. En líkur benda til, að þetta verði ekki upp tekið með þeim hætti, sem þörf er á, meðan hreppurinn er óskiptur. Þetta er því ærin ástæða með frv.

Í annan máta vil ég benda á það, að vatnsleiðsla þorpsins er ófullkomin, og er það mjög bagalegt fyrir þorpsbúa, en þó engu síður fyrir fiskiskipin. Þarna er því annað nauðsynjamál, sem bíður úrlausnar, því að sæmilegur vatnskostur í þéttbýli er fyrsta skilyrðið fyrir heilbrigði þeirra, er þar búa. Þetta mál liggur því þannig fyrir, að ekki er þörf á langri ræðu. Í grg. er það skýrt tekið fram, að gagnvart verksmiðjunum hafi þessi breyting engin áhrif. Er miðað við útsvör í Presthólahreppi, og svo mun áfram.

Meiri hl. n. leggur eindregið til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.