19.12.1942
Efri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Magnús Jónsson:

Eftir stefnuskrárræðu forsrh. og eftir tildrögin að og tilganginn með myndun þessarar stj., þá var óhjákvæmilegt, að brátt kæmi fram till., er snerti dýrtíðarmálin. Ég held, að enginn þm. hafi svo viðkvæmar tilfinningar, að hann hafi hrokkið við, þótt þetta frv. kæmi fram. Hitt gæti orkað meira tvímælis, hvort hv. ríkisstj. hefði átt að koma fram með nokkrar till., áður en þingið fór í jólafrí eða hvort hún hefði átt að doka við og nota tækifærið til að velta málunum fyrir sér, áður en hún kæmi með nokkrar till. á þing. En það var auðvitað hv. ríkisstjórnar að velja hér um, og skal ég ekki áfella hana fyrir valið. Ég heyrði sagt í Nd. í dag, að þetta frv. væri fyrsta sporið og það vær í lítið spor. Það er rétt, það er lítið tekið fyrir og margt, sem vantar í frv. Það er rétt til að sýna stefnu stjórnarinnar og tala fyrir vöruhækkunina, og þó að þetta lánist kannske vel, þá hygg ég að og leyfi hv. ríkisstj. að spreyta sig á þeim víðfangsefnum, sem hún er þegar farin að fást við. Flestir munu búast við, að taka þurfi meira á en hér er ráð fyrir gert, en ég segi fyrir mig, ég vildi ekki óska eftir stærra byrjunarspori. Ég verð að segja um þær brtt., sem komu fram í Nd., um að draga einnig verð á innlendum afurðum svo og kaupgjald undir þessa löggjöf, að ég tel það hæpni að gera það. Hver maður, sem hefur verið á Alþ., veit, að það yrði stöðugur reipdráttur um löggildingu á kaupi og afurðaverði. Það er ómögulegt nú í skyndi að lögbinda annað, en ekki hitt. Ég hef of nýja reynslu í þessum málum til þess að samþ., að út í slíkt hefði verið farið undirbúningslitið. Ég held, að sú löggjöf sé drjúgum hæpnari en gerðardómur inn frægi. Áður en hægt hefði verið að slá föstu verðlagi og kaupgjaldi, hefði meira þurft að fara á undan. Ég álít því, að þetta frv. sé sízt og lítið. Það er meira að segja spursmál, hvort ekki hefði verið gott að velta því lengur fyrir sér. Ég vil virða tilganginn og gefa ríkisstj. færi til að fika sig áfram eftir þessari braut. Það mætti segja, að þarna væri á ferðinni nokkurs konar Kolumbusaregg. Það mætti segja: „Því var ekki búið að gera þetta áður, fyrst ekki þurfti meira til að stöðva dýrtíðina?“. Ég vil sýna velvild til málsins. Mér virðist, að tilgangur ríkisstj. sé að taka betur á, því að það er ekki nóg að stöðva okkur á þeirri braut, sem við erum komin út á. Það þarf að taka nokkur skref til baka. Verðlag er nú komið svo hátt, að þar sem viðskipti með íslenzkar vörur mæta viðskiptum með útlendar vörur, er komið í ógöngur. Við getum skrúfað það nokkuð lengi á innanlandsmarkaðinum, en út á við hefur það sín takmörk, og þegar við komum að útflutningi innlendrar vöru, horfir öðruvísi við.

Samfara þessu frv. hafa komið hér fram yfirlýsingar, ekki bára viðvíkjandi þeim vörum, sem um ræðir í frv., heldur og öllum þorra íslenzkra afurða, og fyrirheit og yfirlýsingar um, að ekki muni heldur verða farið fram á grunnkaupshækkanir. Ef við tökum allt þetta til samans, þá er komið að þeim atriðum, sem mestu varða. Þá finnst manni eftir almennum hugsunarreglum muni dýrtíðin stöðvast við það. Ég vil því segja, að það er mjög góðra gjalda vert, að hv. ríkisstj. hefur komið með þessar till., því að mér finnst hún með frv. og því öðru, sem hún hefur lýst yfir, hafa sett fingurinn á réttan stað, og það sé ekki nema sjálfsagt frá mínu sjónarmiði, að Alþ. sýni þessu máli velvild. En ef ekki þyrfti annað en að setja l. slík sem þessi til þess að koma þjóðarskiptingu á réttan kjöl, þá mætti segja, að það vær í næstum því óforsvaranlega auðvelt, til þess að ekki hefði verið búið að gera það fyrir löngu. En á þessari braut eru áreiðanlega mjög margir örðugleikar framundan. Þá vil ég benda á það, sem hv. þm. Barð. nefndi smáskæruhernað, en ég held ætti heldur að heita skæruhernaður. Ég segi fyrir mitt leyti, að mér finnst það koma úr hörðustu átt frá 3. landsk. að tala um slíkan „hernað“, því að hvað var það annað, sem hans flokkur notaði til að brjóta á bak aftur gerðardómslögin?

Þá held ég, að öllum hljóti að vera ljóst, að það er ekki á okkar valdi né annarra að koma í veg fyrir, að slík l. sem þessi mæti andúð og þeir, sem þá andúð hafa, reyni að fara í kringum þau. Löggjöfin verður að taka almennt eðli eins og það er. „Agitatorar“ geta komið og gert menn óvinsæla. En löggjafar verða að taka mannlegt eðli eins og það er. Þegar á að binda menn þannig, má að sjálfsögðu búast við, að þeir verjist með einhverjum þeim brögðum, sem þeir sjá sér fært. Undanfarin reynsla hefur sýnt, hve margar leiðir er þar um að velja.

Það er allt í lagi með þessar ráðstafanir til febrúarloka. En það er ekki víst, að þá sé heimsendir. Við getum þurft að lifa í marz og apríl og lengur og ráða við það ofurefli, sem þungi skriðunnar kann þá að vera orðinn, eftir þessa stöðvun. Það er meira virði, að sporin séu raunveruleg spor í áttina en að það séu mjög stór spor. Ég segi þetta aðeins til varnaðar, vonandi er stjórnin fær um að mæta örðugleikum og viðbúin þeim.

Yfirlýsing fjmrh., að ríkisfé muni ekki þurfa að verja til þessara ráðstafana, hefur fengið einróma lof frá þrem flokkum þingsins, og víst er gott eitt um hana að segja. En ef verðlag fer hækkandi erlendis, hvernig er það þá hægt án þess að halda hér óbreyttu verði. Það getur staðizt til 28. febr., en hvað tekur þá við? Til mun vera 4–7 mánaða forði af matvöru. En nýja kolafarma, sem við þurfum, verður varla hægt að selja sama verði og nú. Við vitum, að kolaverzlun er ekkert stórgróðafyrirtæki, aðeins ber sig, kolin verður að selja eins og þau kosta raunverulega eða borga í milli af ríkisfé. Eignar námi yrði varla hægt að taka kolin nema fyrir kostnaðarverð. Þá er sama að segja um olíuna. Nú er talið, að betur líti út með hana en var fyrir nokkru og skal ég ekki fjölyrða um það. Enn er timbur eitt af því, sem mun fara hækkandi. Varla getur ríkisstj. selt það fyrir minna en það kemur til að kosta. Væri lagt út á þá braut með ýmsar vörur, er það ekki þannig, að kaupmannastéttinni yfirleitt blæði, heldur er það tíðast hending ein, sem ræður, hvaða innflytjendur eru féflettir og hverjir sleppa.

Ég er hræddur um, að hv. 3. landsk. hafi farið í rétta átt, þegar hann talaði um, hve allt þetta væri „lítið hættulegt“. Hann vill ríkisverzlun, og niðurstaðan af þessu getur einmitt orðið ríkisverzlun. En mér lízt ekki á að stefna að því — og það blindandi — og efast um, að hæstv. fjmrh. litist á það heldur, ef hann sæi fram á það. Ekki veldur sá, er varar.

Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Str., að dýrtíðin væri orðin svo mikil, að illa yrði við hana ráðið, það hefði verið léttara að stöðva fyrr. Ég álít fremur vafa á, hvort hún sé enn orðin nógu mikil til þess, að hægt sé að stöðva hana, enn er e.t.v. ekki kominn rétti tíminn til þess. Enn er varla nógur skilningur, en kemur á sínum tíma.

Ég óska þess af hjarta, að ríkisstj. takist að vinna eins mikinn bug á dýrtíðinni og aðstæður frekast leyfa, — um meira getur ekki verið að ræða. Ég virði kjark hennar að setja fram þessar tillögur nú þegar. Framkvæmd þeirra kostar fórnir, fyrr eða síðar fórnir allra stétta landsins. Það er athyglisvert og gæti verið tímanna tákn, að það er einn úr hópi kaupsýslumanna, hæstv. fjmrh., sem beitir sér fyrir því, að byrðarnar skuli nú einmitt lagðar fyrst á hans stétt, og hefðu víst sumir menn og blöð fyrr vænt annars af þeirri stétt en slíkrar ósérplægni.