11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

40. mál, útsvar

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég flyt hér mál, sem búið er að flytja hér nokkrum sinnum áður vegna beiðni bæjarstjórnar Siglufjarðar. Það liggur að vísu ekki fyrir beiðni frá bæjarstj. Siglufjarðar nú, en hún mun láta sig málið miklu skipta.

Það er sem sé farið fram á það, að 8. gr. útsvarslaganna, þar sem teknar eru fram undantekningar frá þeirri höfuðreglu, að maður sé útsvarsskyldur þar, sem lögheimili hans er, sé breytt þannig, að heimilt sé að leggja á hann þar, sem atvinnurekstur hans fer fram. Fyrir 1926 voru útsvarslögin á tvístringi innan um hin og þessi önnur lagafyrirmæli samkv. þeim l., er giltu fyrir 1926, mátti leggja á mann, hvar sem var á landinu. Það mátti leggja á mann í Vestmannaeyjum, sem stundaði sjóróðra þar á vetrarvertíðinni, svo fór hann á síld norður á land, mátti leggja á hann þar, og svo í heimilissveit. Það var alveg rétt, að þetta var óþolandi. Það var lagt á mann á 3–4 stöðum á landinu, og þeir höfðu ekki ástæðu til að fylgjast með því, til þess að þeir gætu kært, því að þeir uppgötvuðu ekki, að það hefði verið lagt á þá fyrr en seint og síðar meir, er þeir höfðu tapað réttinum til að kæra. Það var nauðsynlegt að lagfæra þetta, en það var gengið fulllangt, og hygg ég, að með þeirri breyt., sem hér er lögð til, að gerð verði, sé skrefið stigið til baka til þess að leiðrétta það, sem of langt var gengið 1926.

Á Siglufirði er þannig háttað, að 3–4 mánuði ársins er rekin þar mikil síldarsöltun, og er þá atvinnurekstur í höndum einstakra manna. Nú er þessi atvinnurekstur lítill á Siglufirði, eins og málum er háttað, en þetta hlýtur að breytast strax og stríðinu lýkur. Til Siglufjarðar koma menn, sem stunda síldarsöltun 3–4 mánuði á árinu, en búa annars staðar. Þetta er samt aðalatvinnuvegur þeirra, en það er ekki hægt fyrir Siglfirðinga að fá útsvör af þessum mönnum nema með skiptingu, en skiptingarákvæðin svo ófullkomin, að þau koma ekki að gagni, þegar um atvinnurekstur eins og síldarsöltun er að ræða. Niðurjöfnunarn. geta ekki fylgzt með atvinnurekstrinum, þegar hann er rekinn á öðrum stað en talið er fram, og verða því að láta sér nægja þær skýrslur, sem gefnar eru, en þær eru oft aðeins munnlegar upplýsingar. Bæjarstjórn Siglufjarðar hefur ekki neina möguleika til þess að ná útsvari, sem neinu nemur, af þessum mönnum, því að það eru slíkir smámunir, sem lagt er á þessa menn í heimasveitunum, að það er alveg gagnslaust að fara á skipta því. Það er á hinn bóginn eðlilegt, að hreppsfélögin hyllist til þess að fá stóratvinnurekendur í byggðarlagið og lofi þeim að leggja lítið á þá. Það eru t.d. 2 eða 3 stóratvinnurekendur frá Siglufirði, sem telja sig eiga heimili í Öngulstaðahreppi í Eyjafirði. Þeir geta sannað, að þeir eru þar nokkra mánuði á árinu og að þeir eigi þar bú. Þarna borgaði einn stóratvinnurekandinn eitt árið um 2000 kr. í útsvar, en hefði átt að borga á Siglufirði 20–30 þús. kr. Það er erfitt fyrir niðurjöfnunarn. Siglufjarðar að fylgjast með þessu, þar sem hún hefur ekki leyfi til að leggja á þessa menn, en það er það eina vald, sem niðurjöfnunarn. er veitt til þess að knýja menn til að telja fram. Það er útilokað að beita því eina valdi, sem niðurjöfnunarn. hafði, sem sé því að leggja svo hátt útsvar á menn, að þeir telji sig tapa á því að gefa ekki skýrslu, það er útilokað með menn, sem hafa heimili hingað og þangað úti um land. Ég hygg, að þessi smuga sé einhver mesti galli á útsvarslögunum.

Þetta mál hefur þýðingu fyrir Vestmannaeyjar og fleiri staði. Sá atvinnurekstur, sem þar er, ætti að geta orðið útsvarsskyldur á sama hátt og eins þar, sem svipað stæði á. Ég vil taka það fram hér, vegna þess að ég hef orðið var við það, þegar þetta mál var á döfinni áður, að það hefur vakið mikla andúð, að það hefur verið talið, að línubátar ættu að verða útsvarsskyldir á öllum þeim stöðum, þar sem þeir stunda veiðar. Til þess að fyrirbyggja þetta eru sett hér ákvæði inn í þetta frv., sem alveg útiloka þennan skilning. Það er útilokað, að hægt sé að leggja á skip á þeim stað, þar sem þau leggja upp. Það væri líka óeðlilegt, að hægt væri að leggja á skip, þar sem þau leggja upp afla sinn. Þess vegna hef ég sett inn ákvæði í lok meginmáls frvgr., sem fyrirbyggir þetta. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa frvgr.:

„a-liður 8. gr. laganna orðist svo:

Ef hann hefur heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, eða ef hann hefur rekið atvinnu víðar en í einni sveit, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans. Löndun afla og útgerð línuveiðabáta frá verstöðvum utan heimilissveitar er ekki útsvarsskyld samkv. þessum staflið.“

Það getur nú vel verið, að hægt sé að finna heppilegri aðferð til þess að losna við þessa agnúa heldur en stungið er upp á í þessu frv., og gæti það komið til athugunar í n., sem ætti að vera fjhn., og mætti þá athuga, hvort ekki væri hægt að laga önnur ákvæði útsvarslaganna um leið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta að svo stöddu, en tel nauðsynlegt að athuga útsvarslöggjöfina. Það er óeðlilegt, að menn borgi mismunandi útsvör eftir því, hvar þeir eru á landinu, og meðan svo er, má ætíð búast við, að menn noti brögð til þess að reyna að telja sig annars staðar til heimilis en þeir eru, enda er það orðið viðurkennd regla, að menn reyna að komast í sveitirnar, þar sem minnst útsvör eru greidd, en það er óeðlilegt, að menn, sem ekki geta beitt slíkum brögðum, verði ekki eingöngu að borga útsvar sitt, heldur hærra vegna þessara manna. Þetta var tilfinnanlegt, meðan tímar voru erfiðir, og þá var algengt, að menn flyttu burt úr bæjunum og í sveitir til þess að þurfa ekki að taka þátt í framfærslu fátæklinganna, sem voru í bæjunum. Þetta er eitt að því, sem ekki er mjög aðkallandi problem nú vegna ástæðnanna í bæjunum, en rétt er að gera ráð fyrir, að það ástand, sem var, geti skapazt aftur, og rétt að reyna að fyrirbyggja það, að útsvörin verði eins misjöfn og þau hafa orðið. Það verður að reyna að finna skala fyrir landið allt, þannig að fyrirbyggt verði, að mishá útsvör séu lögð á menn, sem hafa sömu tekjur, eins og nú á sér stað. Ég legg svo til, að málinu verði vísað til fjhn.