11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

40. mál, útsvar

Flm. (Áki Jakobsson):

Það var engan veginn ætlunin með flutningi þessa frv. að breyta þeirri höfuðreglu, að útsvör séu lögð á þar, sem menn eiga lögheimili. Ég tel, að það væri afturför. En hér er aðeins um það að ræða, að atvinnurekendur, sem hafa skrifstofuhald og ráða til sín starfsfólk utan heimilissveitar sinnar, séu útsvarsskyldir þar. Hér er alls ekki átt við fólk, sem ferðast milli staða til þess að vinna hjá þessum atvinnurekendum. Það er rétt, að fyrir mér vakir einkanlega síldarsöltun á Siglufirði og annar iðnaður, sem er rekinn á sumrin, þegar bærinn er fjölmennastur. Ég gat þess áður, að líkt mundi að sumu leyti vera ástatt í Vestmannaeyjum, en það yrði n. að athuga nánar. Hún mundi þá væntanlega einnig gera ráðstafanir til að fyrirbyggja þær afleiðingar, sem hv. þm. Borgf. óttaðist. — Mér er ekki kunnugt um, hvort kvartanir hafa komið frá fleiri stöðum en Siglufirði, en ég veit, að þar hefur núverandi fyrirkomulag reynzt mjög óheppilegt og sum árin komið ákaflega illa niður.

Um skattaframtölin er það að segja, að þau eru mjög léleg heimild um tekjur manna, nema jafnframt sé til að dreifa hjá niðurjöfnunarn. þekkingu á staðháttum og kunnugleika, að því er snertir atvinnurekstur hlutaðeigenda. Í sveitahreppum fer að jafnaði ekki fram nein rannsókn á framtali manna, að því er snertir atvinnurekstur utan hreppsins, og í skattan. til sveita eru oftast menn, sem hafa enga þekkingu á þessum atvinnurekstri. Ég varð þess t.d. aldrei var í minni bæjarstjóratíð, að skattan. í sveit gerðu athugasemd við framtöl, sem voru þó stundum þannig úr garði gerð, að engin skattan., sem haft hefði einhvern kunnugleika á málunum, hefði tekið við þeim athugasemdalaust. Auk þess hafa skattan. ekki áhuga á því að hækka skatta á mönnum, ef það hefði aðeins þau áhrif, að meira félli með skiptingu í hlut annars bæjar- eða sveitarfélags, og hef ég orðið var við hneigð til þess að halda heldur hlífiskildi yfir mönnum, þegar svo er ástatt.

Hv. þm. Borgf. sagði, að þeir, sem hafa allar tekjur sínar af síldarsöltun á Siglufirði, hefðu ekkert eftir handa heimilissveitinni, þegar búið væri að leggja á atvinnurekstur þeirra á Siglufirði. Þetta er rétt, en hér er þá líka að jafnaði um að ræða menn, sem eru að mestu leyti heimilisfastir á Siglufirði. Þyrfti í þessu sambandi að endurskoða íslenzka löggjöf um heimilisfesti, sem er í mörgum atriðum óljós og ófullkomin.

Það er ekki hægt að gera þá kröfu til verkafólks, að það geti fylgzt með útsvarsálagningu á sig utan heimilissveitar og þar með neytt þeirra réttinda, sem lögin áskilja þeim, til að verja sig óréttmætum álögum. En það er hægt að gera þá kröfu til atvinnurekenda, að þeir fylgist með álagningum á sig á þeim stöðum, þar sem þeir reka atvinnu, og geti varið hendur sínar fyrir óréttmætum kröfum. Dragnótabátar og botnvörpungar falla undir undanþáguna, sbr. orðin „löndun afla“ í síðasta málsl. 1. gr. frv. Undanþága þessi var svo víðtæk, að ég held það sé útilokað, að hægt sé að klemma útsvari á nokkurn bát eða skip, sem leggur afla sinn á land, annars staðar en í heimilissveit sinni. Mér fannst rétt að taka þó fram sérstaklega báta, sem róa úr landi. Mér fannst ekki nást til þeirra með orðunum „löndun afla“. Þess vegna setti ég þetta orð „línuveiðabáta“, svo að vafalaust væri um undanþágu þeirra.

Eins og hv. þm. vita, heimila gildandi l. skiptingu útsvara, og er beinlínis ætlazt til með þessu frv., að þau 1. haldist áfram, en ekki, að tekin sé upp sérstök útsvarsálagning á þessa útgerð. Stofnun jöfnunarsjóðs sveitar- og bæjarfélaga hefur dálítið leitt til þess að jafna útsvör manna með því að jafna nokkuð útgjöld sveitarfélaga til framfærslumála. Þetta er nokkur bót, en þó ekki fullnægjandi. Það er rétt ábending hv. þm. Borgf., að ef sú n., sem fær frv. til meðferðar, sér sér fært að mæla með þessari breyt., þá felur hún í sér nokkrar breyt. á öðrum greinum gildandi útsvarsl. Ég sé ekki, að á þessu stigi málsins sé ástæða til að taka þær til meðferðar í frv. Það yrði í verkahring n. að undirbúa þær breyt.