08.01.1943
Neðri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

40. mál, útsvar

Emil Jónsson:

Mig langar til að bera fram fyrirspurn til n. og hv. frsm. viðvíkjandi því, er hann sagði, að n. teldi það varhugavert að veita nokkrar undanþágur frá því að leggja á útsvar í fleiri en einum stað. Þar sem þetta tvöfalda útsvar getur verið í sumum tilfellum töluvert hættulegt, vil ég leyfa mér að spyrja n. og hv. frsm. í því tilfelli, er ekki má leggja nema takmarkaða upphæð á eitt og sama fyrirtækið. Tökum t.d. togarafélag, er lætur togara sina stunda ísfiskveiðar sunnanlands að vetri, en síldveiðar norðanlands að sumrinu. Á báðum stöðum hagnast félagið svo mikið, að hámarksálagning verður á báðum stöðunum, eða allt að því. Hvernig á það þá að geta greitt þetta allt? Útsvarsupphæðin er takmörkuð, en ef með þarf, er stríðsgróðaskattur tekin auk þess, eins og hv. Alþm. er kunnugt.

Ég tel þá aðferð of ruglingslega til þess, að vert sé að taka hana upp aftur, að leggja á útsvör á sama aðilann á fleiri stöðum, heldur sé betra að hafa eitt heildarútsvar í einu lagi.

Mig langaði sem sagt til að vita, hvernig farið yrði að í þessu sérstaka tilfelli, er ég gat um, hvernig n. hugsaði sér að snúast í því.