11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

40. mál, útsvar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. allshn. með fyrirvara. Ég vildi því með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni.

Það er kunnugt úr útsvarslögunum, að leggja má á mann annars staðar en hann er heimilisfastur. Hins vegar er einnig leyft þar að skipta útsvarinu milli heimilissveitar og atvinnusveitar, þótt það sé aðeins lagt á í heimilissveitinni. Í 8. gr. er sú heimild, að leggja megi á í tveimur stöðum. Þetta frv. felur aðeins í sér rýmkun á þessari heimild. Eins og það var upphaflega flutt, þá þótti mér það of viðtækt, og ég gat ekki fallizt á það í því formi. En eins og menn vita, þá er það einkum flutt með tilliti til Siglufjarðar, svo að það var ekki beint þörf á, að það væri jafnvíðtækt. Í n. urðu menn því sammála um að þrengja rýmkunarheimildina og binda hana við síldarverkun eða síldarvinnslu. Eftir að þessi takmörkun var gerð, þá var frv. orðið miklu aðgengilegra. En þó get ég ekki alls kostar fellt mig við það, Skal ég lauslega gera grein fyrir því. Ég hafði nú í fyrstunni álitið, að reglur eða fyrirmæli 10. gr. útsvarslaganna mundu nægja eins með tilliti til Siglufjarðar.

Sú mótbára hefur verið borin fram, að oft tillit til hinna mismunandi útsvarsstiga á hverjum stað og skipt útsvarinu í praksis eftir því, sem það næmi, við skiptingu útsvarsins. En mér er kunnugt um, að ríkisskattanefnd hefur tekið tillit til hinna mismunandi útsvarsstiga á hverjum stað og skipt útsvarinu í praksis eftir því, þannig að sá staðurinn, sem hærri útsvarsstigann hefur haft, hefur fengið sinn hluta hækkaðan í hlutfalli við það við skiptinguna, þessi mótbára hefur því ekki við rök að styðjast.

Önnur mótbára hefur verið borin fram, sem er veigameiri. Litlar sveitir kosta kapps um að hafa góða gjaldendur, og eru þá oft vægari í kröfum sínum um framtal og álagningu til þess að halda þeim en atvínnusveitin mundi vera, þar sem fjárþörf þeirra er einnig oft lítil. Atvinnusveitin hefur engin tök á að fylgjast með þessum ívilnunum né getur virt þetta sjónarmið og getur við þetta beint tapað í gjöldum, þar eð útsvarið verður minna, er hún fær sinn hluta af.

Þessari mótbáru er ekki hægt að neita. Hins vegar er þetta sjónarmið sveitanna eðlilegt og skiljanlegt.

Siglufjarðarbær telur sig hafa orðið illa úti í þessum efnum. T.d. eru þar tveir síldarsaltendur, sem báðir hafa haft sömu umsetningu og sama ágóða, en fá mjög mismunandi útsvör í heimilissveitum sínum. Þótt ég sé því með skiptingunni, þá þykir mér sýnt, að hún fullnægi ekki öllu réttlæti í þessum efnum, og þess vegna hef ég skrifað undir nál. og gert grein fyrir fyrirvara.

Hv. þm. Hafnf. lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að útsvar ætti aðeins að leggja á á einum stað, — í heimilissveit viðkomanda. En hér er ekki um það að ræða að fara inn á þá braut að leggja á útsvar á tveimur stöðum, heldur er aðeins um að ræða rýmkun á þeirri heinild, sem fyrir er í l.

Hv. þm. gerði einnig þá fyrirspurn, hvernig niðurjöfnunarnefndir ættu að fara að, þegar útsvörum væri jafnað niður á tveimur stöðum og hvor um sig vissi ekki, nema samanlagðar tekjur gjaldandans færu fram úr því hámarki, sem sett er í l. um stríðsgróðaskatt, þar sem bannað er að leggja útsvar á tekjur, sem fara fram úr 200 þús. krónum. Ég skal viðurkenna, að n. hefur ekki tekið þetta sérstaklega til athugunar. Þetta er heldur ekkert nýtt. Það hefur áður komið til úrlausnar.

Um þetta atriði vantar ákvæði í l. um stríðsgróðaskatt, þar sem þessi takmörkun er sett. Ég býst við, að sá staður, er fær stríðsgróðann, yrði að víkja með útsvarið. En eins og ég sagði, þá vantar ákvæði um þetta í lögin.