11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

40. mál, útsvar

Pétur Ottesen:

Hv. þm. Siglf. hefur, eins og vænta mátti, beygt sig fyrir þeim rökum, sem hér hafa komið fram, að Siglufjarðarbær og aðrir staðir, sem líkt stendur á um í þessu tilliti, geta eftir núgildandi l. bor ið úr býtum útsvarsgreiðslur eftir réttmætum kröfum. En þessi hv. þm. segir, að það sé ekki nema að forminu til, vegna þess að viðkomandi gjaldendur hafi ástæður til að smeygja sér undan þessum gjöldum, þeir geri samninga við hreppsnefndir og skattanefndir á fjarlægum stöðum um að skrifa sig þar til heimilis og hafi svo traust og hald hjá þessum hreppsnefndum í því að berjast á móti því, að á þá séu lögð eðlileg gjöld eða eðlileg útsvör, eftir því sem tekjur þeirra gefa tilefni til. Ég held, að ég hafi getið þess við 1. umr. þessa máls að gefnu tilefni frá þessum hv. þm., þar sem hann fór út í þetta atriði, að ég þekki ekki til þess, hvorki í minni sveit né heldur af kunnugleika af hreppsnefndum og bæjarstjórnum. En hins vegar er mér kunnugt um, að þær ganga alveg á fremstu grös um að fá grundvelli undir útsvarsálagningu á þessa menn, sem reka atvinnu utan heimilissveitar sinnar. En við skulum gera ráð fyrir, að hv. þm. hafi eitthvað fyrir sér í þessu efni og þá sérstaklega, þar sem hann er að benda á sérstök eða sérstakt atriði, sem hann dregur þessar ályktanir af. En það er ekki eins og það séu ekki fleiri aðilar, sem þarna koma til greina til þess að dæma um réttmæti framtals manna, heldur en þessar heimilissveitir, sem í þessum tilfellum eru ekki þær sömu og atvinnusveitirnar. Yfirskattan. í því umdæmi, sem viðkomandi sveitarstjórn eða bæjarstjórn heyrir undir, tekur við til þess að dæma um réttmæti í þessu efni.

Nú vill kannske hv. þm. halda því fram, að það geti staðið svo á, að yfirskattan. sé ef til vill þannig skapi farin, að hún haldi að einhverju leyti í hönd með þeim sveitarstjórnum, sem hér koma til greina um að breiða yfir undandrátt í framtölum. Það er náttúrlega ákaflega langsótt að gera ráð fyrir, að slíkt geti verið til, og fjarstætt að ætla slíkt yfirleitt. En ef svo væri, kemur þar þriðji aðilinn til greina, sem er algerlega hafinn yfir sérhagsmunatogstreitu í þessu efni, sem er ríkisskattanefnd, og er það sá aðili, senn endanlega gerir út um þessi mál. Þess vegna er enginn grundvöllur til undir .það, að þarna sé nokkurt undanfæri fyrir viðkomandi gjaldþegna. Því að það er vitanlega alveg hægt fyrir stjórnarvöld í þeim kaupstað eða kauptúni, þar sem þessi atvinnurekstur fer fram, að koma á framfæri við rétta aðila upplýsingum um það, hvaða tekjur viðkomandi aðili eða aðilar hafa haft á staðnum og leggja þannig grundvöll að því, að öll rök séu fyrir hendi, sem þarf til þess að fella endanlegan réttlátan úrskurð um það, hvað viðkomandi gjaldþegnar eigi að borga. Þannig er það, að eins og það var á misskilningi byggt hjá hv. þm. Siglf., að sveitarstjórnir og bæjarstjórnir gætu ekki notið réttmætar skiptingar á útsvörum þessum, þá er það eins byggt á algerum misskilningi, að menn geti af þessum ástæðum komið sér undan réttmætum gjöldum að öðru leyti í þessum tilfellum.

Þar eru þess vegna ekki fyrir hendi nein rök fyrir því, að ástæða sé til þess að breyta til um þetta atriði, bæði af því, að í l. er svo vel frá þessu gengið, og einnig í framkvæmdinni auðið að ganga svo vel frá þessum hlutum, að mönnum þarf ekki að haldast uppi og getur ekki haldizt uppi, ef rétt er að farið, að breiða fjöður yfir tekjur sínar og láta ekki koma til framtals sumt af þeim til þess á þann hátt að forða sér hjá útsvarsgreiðslum. Ég vil þess vegna, eins og málið liggur fyrir, mjög eindregið vara, við því að fara nú að stíga fyrsta sporið til þess að koma öðrum eins óskaplegum glundroða inn í útsvarslöggjöfina eins og áður var, sem mundi gera útsvarsálagningu enn þá flóknari nú heldur en áður, meðan það ástand ríkti í útsvarslöggjöf okkar, þar sem atvinnutæki eru þannig nú, að meiri hreyfing er á fólki til atvinnuleitar en áður var. Enda er með ákvæðum útsvarsl., eins og þau eru nú, réttur einskis sveitarfélags eða bæjarfélags fyrir borð borinn, ef l. eru hagnýtt rétt.