11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

40. mál, útsvar

Finnur Jónsson:

Ég skil mjög vel tilgang hv. flm. með þessu frv. og einnig þarfir Siglufjarðarka,upstaðar til aukinna tekna. En það má segja það, að úr þessari þörf hafi verið bætt talsvert mikið með því að gera síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði, sem er mjög stór atvinnurekstur þar, útvarsskyldar.

Hv. flm. lýsti þessu frv. þannig sjálfur, að með því væri tekinn einn þáttur atvinnuveganna út úr og önnur regla látin gilda um hann heldur en aðra atvinnuvegi. Ég fyrir mitt leyti lít svo á; að það sé hin fyrsta regla og sú, sem verður að gilda um alla skattálagningu, hvort heldur er til ríkis eða bæjar- og sveitarfélaga, að hin sömu lög gildi fyrir alla einstaklinga þjóðfélagsins og alla atvinnuvegi, en enginn einn atvinnuvegur sé tekinn þar sérstaklega út úr og önnur regla látin gilda um hann heldur en aðra átvinnuvegi. Af þessu tel ég, ef Alþ. samþ. þetta frv., að það sé þá komið inn á mjög hættulega braut. Og það þarf ekki aðra viðurkenningu á því en yfirlýsingu hv. flm. sjálfs um tilgang þessa frv.

Hv. flm. var að spyrjast fyrir um það, hvort ætti að gefa mönnum leyfi til að telja heimili sitt annars staðar en þar, sem þeir stunda atvinnurekstur sinn. Ef menn eiga í raun og veru heima annars staðar og hafa þar annan atvinnurekstur, sem er kannske umfangsmeiri, þá verða menn sjálfir að velja um það, hvar þeir telji sig eiga, heima. Það getur ekki verið neinn mælikvarði á það, hvort þeir eigi heima á Siglufirði, þó að þeir hafi síldaratvinnurekstur þar. Annað mál er það, að það mun hafa verið töluvert reynt að fara í kringum útsvar sl., eins og þau eru nú. Og mönnum mun hafa haldizt það töluvert mikið uppi óátalið m.a. af Siglufjarðarbæ, að telja heimili sitt annars staðar heldur en þar, sem þeir hafa raunverulega átt heima. Og það hefur viljað svo hrapalega til, — og sömu ákvæði hafa gilt í þessu efni síðan 1936 —, að Siglufjarðarkaupstaður hefur látið undan falla að nota sér þá hjálp, sem hann gat haft í l. til að ná útsvörum af tveim stærstu fyrirtækjunum, sem rekin hafa verið á Siglufirði. En það, að Siglufjarðarbær hefur ekki notað sér útsvarsl. út í æsar, getur ekki verið nóg ástæða til þess, að nú þurfi að fara að breyta útsvarsl.

Með hæstaréttardómi, sem upp var kveðinn á árinu, sem leið, var upplýst nokkuð mikið í þessu efni, og mér er kunnugt um það, að það mun vera litið þannig á af hæstarétti, — og komið fram í dóminum, — að atvinnurekendur verða að hafa skrifstofu og daglegar útborganir á einhverjum stað, til þess að geta talið sér þar heimili. Nú hefur það verið svo um einhvern stærsta atvinnurekandann á Siglufirði, að hann hefur talið sér heimili inni í Eyjafirði. Og ég hef það frá einum hreppsnefndarmanni þar, að þar hafi aldrei verið lagt á hann tímsetningarútsvar, heldur aðeins eignaútsvar. Hins vegar hafa Siglfirðingar aldrei lagt á þetta fyrirtæki útsvar. Þeir hafa þar ekki notað sér möguleika til þess að ná tekjum af þessu fyrirtæki. Þetta fyrirtæki hefur nú skrifstofu á Siglufirði árið um kring, og þar fara fram allar þess útborganir. Það er þess vegna ekkert annað en klaufaskapur af bæjaryfirvöldunum á Siglufirði að hafa ekki notað sér tekjur af þessu fyrirtæki, eftir útsvarslöggjöfinni.

Hv. þm. Siglf. komst þannig að orði, að meðan verið væri að gera út um það hjá dómstólunum, hvernig nota mætti útsvarslöggjöfina í þessum tilfellum, hafði Siglufjarðarbær orðið hart úti um að fá tekjur af þessum fyrirtækjum og einstaklingum, sem reka atvinnu á Siglufirði, en eiga lögheimili annars staðar. En ég tel það slóðaskap af bæjarstjórninni á Siglufirði að vera ekki búin að fá vitneskju um það, hvað dómstólarnir segðu um skiptingu útsvara, alla leið frá 1936.

Ég held, að útsvarsl. séu það ótvíræð í þessu efni, að þegar menn eru búnir að ganga úr skugga um það, hvað útsvarslöggjöfin meinar, og það á grundvelli þeirra hæstaréttardóma, sem nýlega hafa fallið í þessu máli, þá sýni það sig, að engin ástæða sé til að breyta þeirri löggjöf, heldur sé það varhugaverð braut að ganga inn á, að talta einn atvinnurekstur út úr og láta önnur ákvæði um útsvarsálagningu gilda um hann en annan atvinnurekstur í landinu. Og þrátt, fyrir það að ég hef að ýmsu leyti tilhneigingu til að hlynni að Siglufjarðarbæ, eins og áður hefur komið fram, — m.a. í því, að ég hef staðið að því, að þar hafa verið reistar miklar síldarverksmiðjur —, Þá tel ég ekki, að þörf Siglufjarðarbæjar sé það rík í þessu efni, að ástæða sé til að ganga inn á þá braut að breyta útsvarslöggjöfinni þannig, að aðrar reglur gildi um þennan atvinnurekstur en aðra atvinnu. Ef Siglufjarðarbær vill nota sér ákvæði núgildandi útsvarsl., held ég, að tekjuþörf þess bæjar verði borgið.