11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

40. mál, útsvar

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Siglf. sagði áðan, að aðalatriði þessa máls væri að tryggja, að einstakir stórir atvinnurekendur slyppu ekki undir því að greiða réttmæt gjöld til sveitarog bæjarfélaga hlutfallslega jafnt og aðrir. En Ég held því fram, að þetta verði tryggt með núgildandi löggjöf, ef hún er notuð út í æsar. Og ég vil leiðrétta nokkurn misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. Siglf. um það, á hvern hátt væri hægt að finna grundvöll undir þeirri útsvarsskiptingu, sem í l. er heimild til. Hann viðurkenndi, að grundvöllur fyrir þessu væri til í l., en hélt því fram, að einstök sveitarfélög gætu gert að engu árangur þeirrar heimildar, að því er tekur til Siglufjarðarbæjar, með því að taka á móti mjög ófullkomnum upplýsingum um tekjur gjaldenda, og að skattan. þessara sveitarfélaga mundi þá vera samsekar þessum framteljendum um að koma undan framtali nokkru af tekjum þeirra. En nú er ekki ástæða til, að þessu sé þannig varið, því að fyrst og fremst segir í 14. gr. útsvarsl.

„Sveitarstjórn gerir um hver áramót skrár yfir þá gjaldþegna, er hún hyggur sig eiga að fá hluta af útsvörum þeirra frá annarri sveit, ásamt upplýsingum um atvinnu hvers, kaup, tekjur, og eignir þar í sveit, vinnutíma og dvalartíma o.s.frv. Sendir sveitarstjórn síðan skrárnar til viðkomandi sveitarstjórna.“ o.s.frv.

Slíkar skýrslur hefur t.d. Reykjavíkurbær alltaf sent um menn, sem búsettir hafa verið uppi í Mosfellssveit, en rekið atvinnu í Rvík, eins og ég sagði áðan. Og þessa aðferð á bæjarstjórn Siglufjarðar vitanlega að geta haft líka. Hún á að senda skrá yfir þá menn, sem ekki eru þar heimilisfastir, en reka þar atvinnu og ber að greiða nokkuð af útsvarinu til Siglufjarðarkaupstaðar, og gefa viðkomandi nefndum í heimilissveitum þessara gjaldenda allar upplýsingar, sem hún hefur yfir að ráða um tekjur þessara manna. Þar að auki eru það ekki sveitarstjórnir, sem skipta þessum útsvörum, heldur yfirskattan. sýslunnar, sem gerir skiptinguna á, grundvelli skattskýrslna þess árs, þegar þær liggja fyrir. Og þá fer hún ekki eftir framtölum hreppsnefnda, heldur eftir framtölum viðkomandi gjaldenda til skatts og leggur á þá samkv. þeim skattplöggum, sem viðurkennd eru það ár. Ef viðkomandi bæjarstjórn líkar ekki þetta framtal eða þessi skipting, getur hún skotið málinu til yfirskattan. Þannig má segja, að möguleikar séu til þess að fá fram í dagsljósið allt, sem satt er í málinu, þannig að einstakar skattan., jafnvel þó að þær væru hliðhollar gjaldendum, eiga engu að geta ráðið um útsvör gjaldendanna, sem falla til atvinnusveitarinnar, sem í þessu tilfelli er Siglufjarðarbær. Ég held því, að það sé opin leið fyrir Siglufjarðarbæ að fá allar sínar réttmætar útsvarskröfur uppfylltar eftir núgildandi útsvarsl. Og ég held, að sá bær ætti að reyna þannig að fá útsvörum þessara gjaldenda skipt eftir þeim l., sem til eru um það efni, og sjá, hvernig því fer fram á þessu ári, sem nú stendur yfir, og má þá taka málið fyrir á næsta ári á Alþ. og fá l. þá breytt, ef ekki tekst eftir núgildandi l. að fá fram útsvarsskiptingu.