11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

40. mál, útsvar

Frsm. (Áki Jakobsson):

Ég kemst ekki hjá því að svara nokkrum orðum því, sem fram hefur komið í þessum umr. Í fyrsta lagi sagði hv. þm. Ísaf., að ég hefði sagt í ræðu minni, að ég vildi láta aðrar reglur gilda um álagningu útsvara á síldaratvinnurekstur heldur en á aðra gjaldendur í landinu og að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, ef það næði fram að ganga, væri farið inn á þá braut að leggja öðruvísi á þennan atvinurekstur heldur en aðra þegna í þjóðfélaginu, og mér skildist hann álíta; að þessi atvinnurekstur gæti þá búizt við hærri gjöldum en annar atvinnurekstur. Þetta er misskilningur, hvernig sem á honum stendur. Með ákvæðum þessa frv. er alls ekki breytt út af þeirri grundvallarreglu, að þessir menn eða gjaldendur fái alveg tilsvarandi jafnhátt útsvar og aðrir, eftir þeim álagningarreglum, sem farið er eftir þar, sem gjöldin eru greidd. Og það var ekki ástæða til að skilja orð mín á annan veg en svona.

Það liggur í augum uppi, að sé bæjar- og hreppsfélögum á Norðurlandi gefin réttur til að leggja á þessa menn, þá hvarflar ekki að þeim að leggja á þá önnur eða hlutfallslega hærri útsvör heldur en á aðra gjaldþegna sveitarfélaganna, enda er ákvæði í frv. til þess að fyrirbyggja það, að tvöfalt álag verði lagt á þann hluta atvinnunnar, sem viðkomandi gjaldandi rekur utan sinnar heimilissveitar.

Ég hef heldur ekki talað um, að það þyrfti, enda ekki stefnt að því í frv., að banna mönnum að telja heimili sitt eða félaga sinna annars staðar en þar, sem þessir viðkomandi aðilar hafa síldaratvinnurekstur. Einmitt eftir þessu frv. er þeim algerlega frjálst að skrá sig hvar sem er til heimilis. En eins og ég tók fram við 1. umr., eru ákvæði íslenzkra l. um lögheimili og heimilisfang ákaflega óljós. Og ég vil alls ekki segja, að þessir menn, sem hafa rekið atvinnu á Siglufirði, hafi ranglega talið sig til heimilis annars staðar. Ég tók þá einnig fram, að ýmsir þeirra hefðu réttilega talið sig til heimilis annars staðar en þar, sem þeir hefðu haft atvinnurekstur sinn.

Það er talað um, að Siglufjarðarbær hafi ekki notað möguleika þá, sem hann hafði haft til að innheimta útsvör og fá fram skiptingu á útsvörum á undanförnum árum. Ég er ekki kunnugur þessu nú um nokkurn tíma. En af kynningu, sem ég hafði af því þar áður, veit ég, að ákvæði l. um þetta komu ekki að haldi hvað síldaratvinnureksturinn snerti, af því sem ég sagði áðan. Ofan á það bætist, að þegar búið hefur verið að skipta útsvörunum, þá fást þau ekki greidd, fyrr en eftir dúk og disk og stundum aldrei. Þetta hefur stafað af fjárhagsörðugleikum viðkomandi sveitarfélaga, sem hafa látið slíkar greiðslur sitja á hakanum eða að þau hafa ekki getað innheimt útsvörin, sem skipting hefur fengizt á. Ég man eftir, að við á Siglufirði fengum 4000 kr. þannig í skiptingu útsvara frá Ísafjarðarkaupstað, og þegar ég lét af störfum í bæjarstjórn. var það ekki komið inn, nema að litlu leyti. Þannig hefur það átt sér stað í fleiri tilfellum. Venjulega hefur þetta, að sveitar- og bæjarfélög tafa átt erfitt með að innheimta útsvör, sem þannig hefur verið skipt, stafað af því, að það hefur verið illa gengið eftir að fá þau greidd, enda lamar það áhugann, að meiri hluti útsvarsins er eign annarrar sveitar.

Það er rangt að fullyrða, að Siglufjarðarbær hafi ekki notað sér þá möguleika, sem bærinn hefur haft til þess að fá útsvör af mönnum, sem rekið hafa þar atvinnu, en talið heimili sitt annars staðar. Um stærsta útgerðarmanninn þar er það að segja, að hann telur heimili sitt í Eyjafjarðarsýslu, það er fullkomlega lögmætt að gera það. Hins vegar er óeðlilegt, að hann geti með því skotið sér undan réttmætum gjöldum, en það gera núgildandi útsvarslög honum kleift. Það er leitt til þess að vita, að gjaldendur skuli geta komizt undan réttmætum gjöldum með því að taka sér eitthvað yfirskynsheimili.

Það, sem kom fram í ræðum þeirra hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. er það sama, sem þeir tóku fram áður. Það er rétt, að það er að forminu til möguleiki fyrir því að koma fram fullum réttmætum útsvarskröfum á hendur þessum mönnum, þó að þeir eigi heima annars staðar en þar, sem þeir hafa atvinnurekstur, En þetta er aðeins formlegur séttur, því hefur Siglufjarðarkaupstaður fengið að kenna á. Það eru engin rök að vera að lesa hér upp lagafyrirmæli, sem þannig er frá gengið, að leikur einn er að smjúga fram hjá. Þessir hv. þm. virðast heldur ekki vita, hve mikinn tíma það tekur að áfrýja til yfirskattan. Ef útsvarstekjurnar eiga að koma að gagni, er ekki nóg, að þær komi árið eftir, að útsvörin eru á lögð; þær verða að koma á sama ári. Bæjarstjórn þarf að hafa það nokkurn veginn í sinni hendi, hve ört hún fær tekjur sínar inn, og svo seint gengur að innheimta útsvör gegnum starf yfirskattan., að það er næstum ógerningur fyrir bæjar- og sveitarfélög að bíða eftir því, og alveg ótækt, þegar um mörg af stórum útsvörum er að ræða. Það veldur ákaflega miklum erfiðleikum, þegar margir stærstu gjaldendurnir í plássinu eru þannig, að það er ekki hægt að vita með vissu fyrr en eftir langan tíma, hvaða útsvörum má reikna með frá þeim. Ég vil líka vekja athygli á því, að þegar nokkur tími er liðinn, frá því að útsvör eru lögð á, er erfitt að fá upp, hverjar hinar raunverulegu tekjur gjaldandans hafa verið. Það er nógu erfitt að fá það fram, þó að það sé á sama tíma og athugaðar eru tekjur annarra gjaldenda, þó að það dragist ekki. Og það er erfitt að athuga, hvort rétt er fram talið, ef framtalið er tekið seint til athugunar.

Þegar á allt þetta er litið, vænti ég, að menn sjái, að það er sanngjarnt að samþ. þetta frv.