11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

40. mál, útsvar

Finnur Jónsson:

Því fer mjög fjarri, að ég hafi misskilið hv. þm. Siglf., og enn fjær, að ég hafi rangfært nokkuð af því, sem hann hefur sagt hér. Það var um það rætt af hv. þm., að það væri nokkuð hál braut að taka upp þá reglu um skattlagningu atvinnuvega að haga henni á þann hátt, sem farið er fram á í þessu frv. Og þá komst hv. þm. Siglf. þannig að orði, að hér væri ekki um neina almenna reglu að ræða, heldur væri hér tekinn einn þáttur atvinnurekstrar út úr og önnur regla látin gilda um hann en aðra atvinnuvegi, og að sú regla, sem eftir þessu frv. yrði látin gilda um þennan atvinnurekstur, væri tvíþætt. Í fyrsta lagi yrði lögð útsvör á síldaratvinnurekstur á tveimur stöðum, — og það er ekki gert við aðra gjaldendur í þessu þjóðfélagi. Og í öðru lagi yrði lagt á þá, sem rækju síldaratvinnuveg, eftir tvenns konar útsvarsstiga. Hv. þm. Siglf. hlýtur að vita, að það er mismunandi útsvarsstigi, sem farið er eftir á ýmsum stöðum á landinu og mjög fjarri því, að hann se alls staðar sá sami. Hann er mjög misjafn og fer alveg eftir þörfum hinna einstöku sveitarfélaga. Ef frv. þetta yrði að l., yrði lagt á þá atvinnurekendur, sem reka þessa atvinnu á Siglufirði, bæði þar og í heimilissveit þeirra, ef hún er annars staðar, og í öðru lagi fengju þeir ekki útsvar eftir skattstiga heimilissveitar sinnar, heldur eftir skattstiga, sem gilti á Siglufirði og eftir öðrum skattstiga heima hjá sér. Þetta vænti ég, að vefjist ekki fyrir hv. þm. Siglf., sem er talinn lögfróður maður. Þetta felst í frv. og þeirri málfærslu, sem með því er höfð, og þó að ekki sé ástæða til að breyta útsvarslöggjöfinni, gæti komið til álita, hvort rétt mundi vera að gera ákvæði l. um heimilisfang manna nokkru fyllri og nákvæmari heldur en þau eru nú, og ég get vel fallizt á þann hluta málfærslu hv. þm. Siglf. En þá fæ ég ekki skilið, hvers vegna hann í staðinn fyrir að koma fram með þetta frv. ekki kom heldur með frv. til l. um breyt. á l. um heimilisfang til þess að gera ákveðið þeirra l. fyllri og ljósari. Myndi það vera miklu færari og betri leið fyrir þá, sem hafa síldaratvinnurekstur í Siglufjarðarkaupstað, og fyrir bæjarstjórn Siglufjarðar heldur en frv. það, sem hér liggur fyrir, því að ef það yrði samþ., kæmi fram við það mikið misrétti í þjóðfélaginu.