07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Fjmrh. (Jakob Möller):

Mér kemur það ekki á óvart, að þetta frv. er komið fram hér á Alþ., og hefði ég getað búizt við, að það hefði komið fyrr fram heldur en raun er á orðin. Það er þó ekki af því, að ég sé svo sannfærður um eindreginn vilja hv. þm. um áframhald þessarar einkasölu, því að mér er kunnugt um, að til skamms tíma hefur jafnvel í öllum flokkum verið mikill áhugi fyrir því, að bifreiðaeinkasalan yrði lögð niður. Hins vegar hefur verið deilt allmjög um það, hvernig tekizt hafi til um úthlutun bifreiða. Það er þó misskilningur hjá hv. 1. flm., að það hafi borið aðallega á því, eftir að ég fór að hafa afskipti af úthlutun bifreiðanna. Þessi gagnrýni á úthlutun bifreiðanna hefur verið jafnmegn frá upphafi einkasölunnar. Það er bara af því, að þeir menn hafa ráðið úthlutun bifreiðanna, sem nærri standa þeim flokki, er að þessu frv. stendur, að þeir menn (í þeim fl.) hafa fundið minna til þeirrar gagnrýni. Hins vegar vil ég benda hv. alþm. á það, að það fer mjög fjarri því, að sú ákvörðun ríkisstj., að leggja niður einkasöluna á síðasta hausti sé eins dæmi. Alveg á sama tíma sem bifreiðaeinkasalan var stofnuð, var einnig stofnað til raftækjaeinkasölunnar; og haustið 1939 ákvað ríkisstj. að fella hana niður og nema úr gildi reglugerð þá, sem raftækjaeinkasalan var rekin samkvæmt. Um þessar tvær einkasölur stóð nákvæmlega eins á. Þær voru stofnaðar með heimild handa ríkisstj. til að reka þær. Ríkisstj. var í sjálfsvald sett, hvort hún byrjaði að reka þær eða ekki. Meira að segja var við flutning málsins hér á hæstv. Alþ. látið í veðri vaka, að sú ríkisstj., sem sjálf flutti frv. um einkasöluna, var ekki ráðin í því, hvort eða að hve miklu leyti hún mundi nota þessa heimild. Og vitanlega áleit ríkisstj., þegar hún lagði niður raftækjaeinkasöluna, að hún hefði úrskurðarvald um það, hvort hún legði hana niður, af því að þetta var aðeins heimild, og ríkisstj. var í sjálfsvald sett, hvort hún ræki hana eða ekki. Um þetta var þess vegna hvorki leitað heimildar Alþ. né birtar um það neinar skýrslur. Ég man ekki eftir því, að ríkisstj. gæfi neinar skýrslur um það, hvers vegna hún lagði niður raftækjaeinkasöluna. Um þá skoðun hv. 1. þm. Skagf. (SÞ), að með ályktun síðasta þings um fyrirkomulag á úthlutun bifreiða væri lýst nokkru yfir um það, hvort Alþ. ætlaðist til, að heimildin til að reka einkasöluna yrði notuð um skemmri eða lengri tíma. — um þá skoðun er það að segja, að það er alger misskilningur, að í því hafi legið nokkur yfirlýsing. Hitt er annað mál, hvaða gildi þessi ályktun hafði, meðan einkasalan var rekin. Ef vilji Alþ. hefði verið fyrir hendi um það, að einkasalan yrði rekin áfram, þá hefði átt að orða það í till. Það hefði þá átt að taka það fram, að Alþ. ætlaðist til, að bifreiðaeinkasalan væri rekin áfram, en ekki að láta það vera á valdi ríkisstj. Það kom því ekki fram í þeirri þáltill. neitt um það, að bifreiðaeinkasölunni yrði haldið áfram lengur en ríkisstj. teldi rétt vera. Hitt er svo hins vegar rétt, að ályktunin fól í sér ákveðinn vilja Alþ. um það, hvernig haga skyldi úthlutun bifreiðanna. Og af sjálfsögðu hefði ríkisstj. tekið þá ályktun til greina og farið eftir henni, ef aðeins hefði ekki viljað það óhapp til, að eins og n. var skipuð, gátu ekki tekizt samningar milli ríkisstj. og n. Ég tók það fram í upphafi, að fyrir lágu skuldbindingar, bæði frá prókúrista og ráðuneytinu, til einstakra manna og fyrirtækja um að selja þeim bifreiðar. Og ég taldi sjálfsagt og skylt, þó að þessi háttur væri upp tekinn, sem Alþ. vildi, að við þær skuldbindingar væri staðið. En á þetta vildi n. ekki fallast. Hún skoðaði það sitt hlutverk að strika yfir slíkar skuldbindingar eftir sínum geðþótta, hvort heldur þær voru gerðar af ráðuneytinu fyrir hönd einkasölunnar eða af forstjóra. Þetta taldi ég ekki geta komið til mála, heldur yrði að standa við slíkar skuldbindingar, eins og hvert fyrirtæki gerir, eins og því er frekast fært a.m.k. Og ég varð þess vegna að taka til minna ráða í þessu sambandi. Ég leitaðist við, eftir að áreksturinn varð, að hafa samvinnu við n., en það tókst ekki. N. skoðaði sig sem setta til höfuðs þessum aðilum, sem með stjórn einkasölunnar höfðu farið, og að hennar fyrsta hlutverk væri nánast að ógilda þeirra gerðir.

Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til að ræða það mál frekar á þessu stigi. En í sambandi við áframhaldandi rekstur einkasölunnar eða niðurlagningu vil ég aðeins benda á, að það stendur nú svo á, að ég hygg, að bifreiðar séu ófáanlegar frá útlöndum. Og hvers vegna er þá nauðsynlegt að reka einkasölu á bifreiðum, þegar telja má, að bifreiðar séu ófáanlegar nú um sinn, það skil ég ekki. Um aðrar þær vörur, sem einkasalan hefur verzlað með, er það að segja, að aðrir geta alveg eins vel flutt þær inn eins og einkasalan. Ég tel nú rétt, þegar svo stendur á, að verkefni, sem einkasölu er ætlað að fást við, er að ganga saman, og stofnunin, eins og nú er orðið, er orðin að meira eða minna leyti óþörf í svipinn, þá liggi ákaflega beint við að leggja hana niður. En ef Alþ. vill reka áfram einkasölu á bifreiðum, gerir það það að sjálfsögðu. En ég er þeirrar skoðunar, að það henti vel að leggja hana niður.