07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú gefið dálitla skýringu á þeim gerðum sínum, að hann lagði niður Bfreiðaeinkasöluna. Og skýring hans er sú, að hann taldi hafa verið ósamkomulag milli sín og þeirrar þingkjörnu n., sem átti að úthluta bifreiðunum. Þetta ósamkomulag hefði valdið því, að honum hefði þótt réttast að leggja niður einkasöluna. Það var þar með játað, að úr því að hann gat ekki haft ánægjulegt samstarf við n., varð hún að lúta í lægra haldi. Og hæstv. ráðh. kom ekki með önnur rök fyrir því en þau, að hann varð að hafa sitt mál fram, þegar hann greindi á við n. Það sannast á skýrslu n. í gerðabók hennar, að sjaldan veldur einn, þegar tveir deila. Og mín skoðun er, að n. hafi í öllum atriðum farið eftir því umboði, sem hún hafði frá Alþ., og hafi haft rétt fyrir sér. Ósamkomulagið byrjaði á því, að hæstv. fjmrh. vildi skipa formann n. N. leit hins vegar svo á, að þar sem ekkert væri fram tekið um það af Alþ. hálfu, þá hefði hún rétt á að velja sér formann sjálf. Svo reis í öðru lagi ósamkomulag út af því, að ráðh. krafðist, að úthlutað væri bifreiðum eftir þeim úthlutunarlista, sem hann lagði fram fyrir n. og taldi hafa samið áður en n. var valin. En n. var kosin vegna þess, að hörð gagnrýni hafði komið fram vegna úthlutunar þessa hæstv. ráðh. á bifreiðunum. Alþ. ætlaðist því til, að n. úthlutaði ekki bifreiðunum með þeim hætti, sem hæstv. ráðh. hafði á því haft. Með því að veita n. andstöðu frá hálfu ráðuneytisins gengur ráðh. tvímælalaust í bága og berhögg við yfirlýstan vilja Alþ. Þetta verður hv. þm. að vera ljóst, þegar um þetta mál er rætt. Ég skora á hv. þm. að lesa útdrátt úr gerðabók n. og sjá þar sjálfir, að nm. fóru eftir því, sem þeir álitu skyldu sína, eftir því sem Alþ. hafði lagt þeim þessa skyldu á herðar. En þetta, að hæstv. ráðh. kom sér ekki saman við n., er svo ástæðan fyrir því, að hann lagði niður einkasöluna. Einkasalan hafði starfað í 7 ár, og ekkert hafði verið að henni fundið. Og þó að bifreiðar séu nú ófáanlegar, mun ekki alltaf svo vera. Og víst er það, að úr því að erfiðleikar eru á því að fá fluttar til landsins þær vörur, sem frv. ræðir um þá er aldrei meiri þörf en nú á því, að innflutningur á þeim sé í höndum einkasölu, því að einkasala hefur betri aðstöðu til að fá vörur keyptar og fluttar inn heldur en einstakir menn. Úti um land hefur nokkur gagnrýni verið á einkasölunni út af úthlutun bifreiðanna, en ekki öðrum störfum einkasölunnar. Og það átti að vera vel tryggt, að úthlutunin kæmist í gott horf, ef nm. í umræddri n. hefðu haft vinnufrið, og þá hefði þetta allt sennilega verið í góðu gengi. Nú hefur þetta samstarf ekki getað orðið, fyrir óheppilega þrætu milli n. og hæstv. ráðh. Og þá ákvað hæstv. ráðh. að leggja niður fyrirtækið sjálft.

Ég ætla ekki að hafa mikið málþóf um þetta hér og ætlaði að tala rólega um málið. Að vísu er það svo, að gagnrýnin á úthlutun bifreiða hjá hæstv. ráðh. er orðin ákaflega svæsin úti um allt land. Ég hef mjög fáa menn hitt, sem eru ánægðir með bifreiðaúthlutunina, eins og hún hefur verið í höndum hans, en veit, að flestir eru óánægðir. Þetta vita allir og hæstv. ráðh. ekki sízt. Ég skil satt að segja ekkert í því, að hæstv. ráðh. skyldi láta sér detta í hug að vilja vera í þessu áfram þrátt fyrir yfirlýstan vilja þingsins og þrátt fyrir þær endurbætur, sem gerðar voru á um úthlutunina.

Ráðh. ákvað að leggja niður einkasöluna, en þetta frv., sem ég er 1. flm. að, er um það að endurreisa hana. Það er í samræmi við þann vilja, sem var á sumarþinginu, og það hefur ekkert komið fram síðan, sem gæti breytt þeirri afstöðu þingsins og valdið því, að þetta frv. yrði fellt. Ég held því, að það verði samþ., og er enda ekki ástæða til annars. Þessi stofnun hefur reynzt vel, og hafa ekki komið fram rök fyrir öðru, og það er ekki nein ástæða til að fella niður stofnun, sem hefur reynzt vel. Bifreiðaeinkasalan hefur gefizt vel, og vona ég, að þingið sjái sóma sinn í því að halda henni áfram og endurreisa hana. Enn þá er ekki mikill skaði skeður með því, sem gert hefur verið af hálfu hæstv. ráðh., ef Alþ. bregður fljótt og vel við því, að þetta frv. verði að lögum, svo að hægt verði að endurreisa bifreiðaeinkasöluna sem allra fyrst.

Hæstv. ráðh. talaði um, að hann hefði haft lagalega heimild til að leggja bifreiðaeinkasöluna niður. En þingið hafði einmitt gefið skýrt önnur fyrirmæli með því að leggja svo fyrir, að kosin skyldi n. til þess að sjá um bifreiðaúthlutunina. Til hvers hefði þingið átt að kjósa þessa n., ef bifreiðaeinkasalan hefði ekki átt að halda áfram? Ég tel þetta nægileg rök fyrir því, hver var vilji þingsins, því að ef þingið hefði ekki tekið beina afstöðu til þess, að einkasalan skyldi halda áfram, þá hefði n. ekki verið kosin.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þetta að svo stöddu.