12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Það er sérstaklega eitt í síðari ræðu hv. þm. A.-Húnv., sem ég sé ástæðu til að mótmæla. Hann hélt því fram, að þáltill., sem samþ. var á aukaþinginu í sumar um úthlutun bifreiða, hefði farið í bága við gildandi lög um bifreiðaeinkasöluna, því að samkv. l. heyri einkasalan undir ráðuneytið. Þetta er misskilningur, því að af sjálfsögðu gat Alþ. að gefnu tilefni tekið bifreiðaúthlutunina frá þeim, sem áður hafði hana með höndum, og fengið hana í hendur sérstakri n., án þess að breyta nokkuð l. um rekstur bifreiðaeinkasölunnar. Rekstur þeirrar stofnunar heyrir eftir sem áður undir fjmrn.

Ég held nú, að þessi þáltill„ — hvernig hún er orðuð, — taki af allan vafa um þetta, að það hefur verið til þess ætlazt af meiri hl. Alþ., að einkasalan héldi áfram störfum. Ég er raunar viss um, að hv. þm. A.-Húnv. veit það jafn vel og ég, að þessi ráðstöfun, að leggja einkasöluna niður, var gerð móti vilja meiri hl. Alþ. Það stendur hér í 1. málsgr. þessarar þáltill.:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd, er hafi með höndum úthlutun bifreiða þeirra, sem inn eru fluttar af Bifreiðaeinkasölu ríkisins.“

Hv. þm. A: Húnv. virtist furða sig á því, að kaupfélagsstjórar gætu undir nokkrum kringumstæðum verið með því, að ríkið ræki verzlun með einstaka vörutegund. Mér finnst þetta nú út af fyrir sig ekki gefa neitt tilefni til aths. Ég get vel nefnt það í þessu sambandi, að ég tel, að í sumum tilfellum sé heppilegt, að ríkið reki verzlun, t.d. með vín og tóbak.

Ég tel ekki rétt að leggja niður þessar ríkisverzlanir og á sama hátt tel ég þessa bifreiðaverzlun hafa gefizt þannig, að það sé engin ástæða til að láta hana hætta nú. Ég vil því leggja til, að verzlunin verði endurreist.

Þá er síðast það atriði, sem hv. þm. A-Húnv. virtist leggja töluverða áherzlu á. Hann heldur því ákveðið fram, að skortur á bifreiðum, sem gert hafi vart við sig að undanförnu, sé einkasölunni að kenna. Þessi hv. þm. vill fullyrða það, að ef einkasalan hefði ekki verið stofnuð, væri meira til af bifreiðum hér á landi. Nú skal ég ekkert segja um það, hvað mikil vöntun er á bifreiðum, sé miðað við þörf landsmanna. Ég hygg, að hún hafi virzt meiri en hún raunverulega er, og hefði þetta litið öðruvísi út, ef bifreiðunum hefði verið skipt öðruvísi á milli einstaklinga hér. En það vita allir, að það voru mjög takmarkaðar upphæðir í erlendum gjaldeyri, sem við gátum varið til bifreiðakaupa síðustu árin fyrir stríðið. Vitanlega breytir engu í því sambandi, hver flutti þessa vöru inn. Það voru ekkert meiri möguleikar til þess, að hægt hefði verið að auka bifreiðakaupin árin fyrir stríðið, þó að bifreiðarnar hefðu verið fluttar inn af einstaklingum heldur en af einkasölunni.

Fleira held ég, að hafi ekki verið í ræðu hv. þm. A.-Húnv., sem ég sé ástæðu til að gera aths. við.