27.01.1943
Neðri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2499)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 3. minni hl. (Jón Pálmason):

Sumt af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði áðan, gaf ástæðu til þess að ætla, að hann hefði ekki hugsað þessi mál sem skyldi, því að annars hefði hann,aldrei sagt það. Hann viðurkenndi rétt, að ekki væri gott, að ríkisreikningarnir væru langt á eftir tímanum, en það er nú stöðugt að færast til hins verra. Hann virtist líta svo á, að það væri starf yfirskoðunarmanna að rannsaka allan relatur ríkisfyrirtækjanna niður í kjölinn. Ef svo væri, þá mundi þeim alls ekki nægja árið allt, þótt ekkert annað væri gert. Starfið er aðeins falið í því að skoða þá reikninga, sem liggja fyrir, bera saman tölur og annað þess háttar. Þau ár, sem ég hef verið yfirskoðunarmaður, hefur verið talið, að ég hafi hneigzt til þess að gera heldur fleiri aths. við rekstur ríkisfyrirtækjanna en eðlilegt væri. En það er þó svo, að vegna þess að mér hefur ekki gefizt kostur á að rannsaka þessi mál svo sem ég tel æskilegt, að gert væri, þá eru þær færri en þær ættu raunverulega að vera. Það er ekki hægt að sjá það á þeim reikningum, sem koma frá fyrirtækjunum, hvort þar hefur orðið sjóðþurrð eða ekki. Til þess þarf að rannsaka, hvort þær tölur, sem standa á reikningunum, séu réttar.

Þegar reikningarnir eru auk þess tveggja ára gamlir, þegar þeir berast í hendur yfirskoðunarmanna, þá er ekki þægilegt að rannsaka, hvort þær tölur séu í samræmi við þau viðskipti, sem hafa átt sér stað.

Ég býst fastlega við, að það komi í ljós, ef skilanefndin fær að ljúka störfum, að í rekstri bílaeinkasölunnar sálugu sé ærið margt, sem þarf að taka til athugunar. Það gæti farið svo, að þar kæmi ýmislegt í ljós, sem gæfi tilefni til þess, að menn gerðu sér ljósa þörfina á því að rannsaka betur rekstur annarri sams konar fyrirtækja.

Sumir þm. hafa talið það óþarfa kostnað að láta skilanefndina slarfa áfram, eftir að búið væri að endurreisa einkasöluna. En þar sem hér á að verða mikil breyting á þessu, er þess áreiðanlega full þörf að gera gömlu einkasöluna alveg upp.

Varðandi ummæli hv. 2. þm. Reykv., þá er það alveg rétt, að það má koma þessu fyrirtæki á stofn á ódýrastan og hagfelldastan hátt með því að setja það í samband við önnur fyrirtæki og losna þannig við að eyða tugum þúsunda króna að óþörfu.

Ég vil svo að lokum benda hv. þm. á það, að þeir ættu að hugsa sig vel um, áður en þeir samþ., að skilanefndin skuli hætta störfum, áður en hún hefur lokið rannsókn sinni.