04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þessi litla breyting, sem frv. gerir ráð fyrir á l. frá síðasta þingi, skýrir sig eiginlega sjálf. Ráðstöfun þessi er nauðsynleg og engu síður fyrir það, þótt segja megi, að undarlegt sé, að hún skyldi fyrirfarast við samþ. l. á síðasta þingi. Úr því að gert er ráð fyrir, að ríkið gangist fyrir stofnun lýsisherzlustöðvar og ekki kemur til mála, að fleiri stöðvar verði reistar en ein, ber að setja nú þegar ákvæði til að hindra, að einstaklingar geri nokkrar þær ráðstafanir, sem verða mega því til tafar, að verksmiðjan sé reist. Ekki er verið að ræða um það, hvort verksmiðjan eigi að verða eign ríkisins eða einstaklinga, heldur um nauðsynleg framkvæmdaratriði. Ég óska, að frv. gangi til sjútvn. að lokinni umr.