04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2504)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki um það segja, hvort það hefur verið af vangá eða öðrum ástæðum, að ekki var sett í l. á síðasta þingi ákvæði í þessa átt. En nauðsynlegt virðist mér ákvæðið ekki vera, því að það ákveður ekki annað en að ríkið láti reisa verksmiðjuna, þegar rannsóknir sýna, að það sé tímabært. Það er þá lagt á vald ríkisstjórnar og þeirra manna, sem hún leitar ráða til, þ. á m. síldarverksmiðjustjórnar, hvenær málið muni tímabært. Og að öðru leyti mundi þetta mál lúta þeim almennu ákvæðum um síldarverksmiðjur, að ráðherraleyfi þurfi til að reisa verksmiðju, því að herðing lýsis er aðeins framhald síldarvinnslunnar, sbr. 1. gr. l. frá 1938. Hér er um það að ræða, hvort nóg sé, að þetta verði á valdi ráðherra, sem hingað til, eða það skuli lagt á vald Alþ. Ekki sýnist mjög á liggja að fastráða þetta, því sem beint er tekið fram, að ekkert skuli aðhafzt, fyrr en tímabært þyki. Nú eru sjálfsagt skiptar skoðanir um, hvort nauðsyn sé, að ríkið reisi þessa verksmiðju, eða hún verði reist fyrir prívatfé eða komið upp með einhvers konar samvinnufélagsskap þeirra, sem síldarútveg reka og stunda. Kemur það þá vitanlega til íhugunar, hvort rétt sé, að ríkið hlaupi í kapp við einkaframtakið í þessu máli, og stefna Sjálfstfl. hlýtur að verða, að það skuli ekki gert, meðan ekki er ólíklegt, að þessu verði hrundið í framkvæmd án þess. — Óþarflega þunglamalegt hygg ég það yrði að leggja þetta allt á vald Alþ. og gæti orðið framkvæmdum að meini. Ég fylgi þessu frv. til nefndar og vildi, að n. athugaði málið mjög gaumgæfilega, einkum hvort ákvæðið gæti ekki reynzt óþarfur fjötur um fót.