04.12.1942
Efri deild: 8. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Það er nú raunar ekki ástæða til að ræða þetta mál lengi við 1. umr. En menn hafa yfirleitt lýst skoðun sinni á málinu, og er ekkert nema gott um það að segja.

En um það, sem hæstv. atvmrh. sagði, að frv. þetta væri í rauninni óþarft, þar eð fyrirmæli væri til um þetta í l., þá verð ég að segja, að ég hef ekki fundið staf um það í lögum, að þessi lýsisherzlustöð skuli endilega tilheyra síldarverksmiðjunum. Það er opin leið, hvort hún yrði rekin sérstaklega eða í sambandi við síldarbræðslur.

En það, sem ég vil alveg fyrirbyggja, er það, að einstaklingar geri ráðstafanir til undirbúnings, t.d. með innflutningi véla, sem komið gætu í bága við fyrirætlanir ríkisins og raunverulegan vilja Alþ., svo að ekki komi til ár ekstra út af þessu.

Það er þetta, sem farið er fram á, að komið verði í veg fyrir. Og ég hef ekki heldur trú á, að einstaklingsframtakið gæti í framkvæmdinni leyst þetta mál, þar eð undangengnar athuganir, sem gerðar hafa verið í þessu efni, hafa sýnt, að verkefnið er hér eiginlega of lítið fyrir verksmiðju og því athugavert að leggja í framkvæmdir. Þrátt fyrir bjartar vonir hv. þm. Barð. hafa athuganir sýnt, að ekki er hægt að starfrækja fyrst um sinn nema eina verksmiðju í þessum tilgangi. Annað mál er það, hvað verða kann einhvern tíma seinna. En það er staðreynd, að lýsisframleiðslan er of lítil fyrir eina verksmiðju, hvað þá tvær. Og ég held, að hv. þm. viti vel, að reynsla lágrannaþjóða okkar hefur sýnt, að gæta þarf varúðar í þessum framkvæmdum.

Ég get því ekki séð, að varnagli sá, er frv. þetta slær, sé til nokkurs trafala. Ef félag yrði stofnað til rekstrar slíkrar verksmiðju, þá fyndist mér ekkert því til fyrirstöðu, ef hæstv. Alþ. leyfði það. En það gæti torveldað þessu félagi málið, ef annarf aðili væri búinn að hefja undirbúning, kaupa vélar eða þess háttar.

Í fáum orðum sagt, þá tel ég ekki tryggt vera, að þessi umtalaða herzlustöð heyri undir sömu lög og bræðslurnar, og tek ég í því sambandi hæstv. Alþ. fram yfir ráðherra til ákvörðunar um málið. T.d. höfum við nú þing, en ekki stjórn í landinu, og álít ég, að núv. atvmrh. hefði ekki heimild til að veita leyfi til að reisa slíka verksmiðju. Ákvörðunarrétturinn í þessu efni á að vera í höndum Alþ.

Annars tel ég þarflaust að ræða mál þetta nánar við þessa umr. Við atkvgr. kemur í ljós, hvort það kemst til n., og þótt svo fari, þá er nú þegar sýnt, að formaður þeirrar n., er það mun fara til, mun ekki geta greitt með því atkv. úr n.