05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Þóroddur Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál, en vil aðeins víkja nokkrum orðum að nál. þeim, sem hér liggja fyrir. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ., en minni hl. er á móti því. Mér finnst meiri hl. ekki hafa athugað þetta mál nægilega og finnst honum hafa sézt yfir nokkur þýðingarmikil atriði. Það er rétt tekið fram í áliti meiri hl., að það megi ekki byggja nýjar síldarverksmiðjur nema með leyfi atvmrh., og er það notað sem rökstuðningur fyrir því, að leyfi atvmrh. ætti að þurfa til þess að reisa lýsisherzlustöð. Mér finnst, að árangurinn af því, að það þarf leyfi ráðh. til, þess að reisa síldarverksmiðjur, hafi ekki orðið eins og til var ætlazt í upphafi. Það hefur sjálfsagt ekki verið meiningin, að þetta ákvæði yrði til þess að hindra byggingu nýrra síldarverksmiðja í landinu, er bættu úr þeirri þörf, sem fyrir þær hefur verið á s.l. árum. En því miður hefur reynslan orðið sú. Nærtækasta dæmið er, að það fékkst ekki fyrir stríð að byggja nýja 5000 mála síldarverksmiðju á Siglufirði, og vegna þessa er Siglufjarðarkaupstaður mörg hundruð þúsund krónum eða milljónum fátækari en annars hefði verið. Ég þori að fullyrða, að ef ekki hefði þurft að sækja undir atvmrh., hefði þessi verksmiðja verið reist. Það ættu þeir menn að íhuga, sem álíta, að sams konar ákvæði eigi að hafa um byggingu herzlustöðva. Það er varhugavert að setja ákvæði í l., sem kunna að vera einhverjir kostir við, en geta verið meiri ókostir. Sumir menn hafa tröllatrú á því, að það þurfi um sem flest að fá leyfi frá ríkisstj., og hefur meira og meira verið gert að því undanfarin ár. Það er í rauninni komið svo, að bæði í framleiðslu og verzlun geta menn ekki þverfótað fyrir hindrunum. Það þarf að sækja um leyfi til allra hluta. Ég held, að hv. þm. ættu að athuga þetta. Þó að það komi að gagni í sumum tilfellum, hefur oft hlotizt af slíku mikið ógagn. Það hefur sjálfsagt orðið til mikillar blessunar fyrir land og lýð, að ráðizt var í að reisa ríkisverksmiðjurnar, en ég tel illa farið, ef þær, í stað þess að vera til almenningsheilla og gera framleiðsluna verðmeiri en ella, verða til þess, að settar verði ýmis konar hindranir á því, að upp vaxi ný fyrirtæki, eins og herzlustöðvar. Það er enginn efi á, að það er þegar farið að bóla á sterkri tilhneigingu til þess, að ríkisverksmiðjurnar verði slík einokunarfyrirtæki, og er þá komið út af þeirri braut, sem upphaflega var mörkuð.